Föstudagur 27.02.2015 - 17:47 - FB ummæli ()

Eiga aukaefnin í matvælum þátt í offituvandanum?

Junk

Mjög áhugverð grein birtist í vísindatímaritinu Nature 25.2. sl. um hugsanleg tengsl neyslu aukaefna (food additives (E-efnanna)) í matvælum, nánar tiltekið tvíþáttaefnum sem hafa bæði vatns- og fitusækna eiginleika (emulsifiers) og áhrifa til svokallaðrar efnaskiptavillu og offitu. Þessi sápuefni eru mikið notuð í tilbúnar sósur og krem hverskonar, til að fita og vatnskend efni skiljist síður að í umbúðunum. Þetta er e.t.v. lykillinn af áhrifum þessara E-efna og margra annara (rotvarnarefna og jafnvel litarefna) á garnaflóruna okkar alla daga og sem inniheldur um 100 trilljón örvera, batería og gerla og þá ekkert ólíkt því sem mikil sýklalyfjaneysla getur haft og betur er rannsökuð og fjallað hefur verið um áður. Hér eru það etv. meiri sápuböð í görninni alla daga sem reyna meira á slímhúðirnar. Óhagstæðari bakteríur vaxa auk þess í stað hagstæðari flórubaktería og í röngum hlutföllum hverjar við aðrar og sem valdið geta síða vægum garnabólgum. Slíkar bólgur geta leitt til ofáts (sísvengdar) og efnaskiptavillunnar margfrægu sem á stærstan þátt í offitunni okkar, hækkuðum blóðþrýstingi, hækkuðu kólesteróli og sykursýki (fullorðinssykursýki DM týpu 2, ásamt mikilli sykurneyslu og öðru slæmu mataræði sem oftar hefur verið í umræðunni um þessi mál varðandi offituna almennt talað. Mestu meinvöldum í nútímaþjóðfélagi okkar.

Rannsóknin nú í Nature getur hugsanlega leitt okkur áfram veginn gegn þannig helstu lífstílssjúkdómum okkar tíma, þótt frekari rannsóknir þurfi auðvitað til að sanna mikilvægi tengslanna. Chassaing og Gewirtz sem skrifuðu greinina, byggðu rannsókn sína á dýratilraunum, nánar tiltekið a músum sem fóðraðar voru med fóðri sem innihelt E-efnin, polysorbate 80 og carboxymethylcellulsose, í svipuðum skömmtum og finnst í flestum tilbúnum mat fyrir mannfólkið. Þannig gátu þeir orsakað þarmabólgur meðal músanna og þegar þarmaflóra músanna var færð í görn heilbrigðra en þarmaflórulausra músa, mynduðu þær mýs efnaskiptavillu, sykursýki og offitu, auk þess sem þær fóru að éta óhóflega. E-efnin örvuðu óbeint til fjölgunar óhagstæðara baktería og myndunar meira magns flagellin og lipopolysaccride-sambanda sem valda aukinni genatjáningu á bólgusvörun í ónæmiskerfinu (pro-inflammatory gene expression) gegnum þarmaslímhúðina. Sömu bakteríur gátu einnig valdið á sama hátt alvarlegri bólgusjúkdómum í görnum músa sem fyrirfram voru viðkvæmari fyrir slíkum sjúkdómum.

Nærumhverfið skiptir okkur allt máli og sem ég hef oft skrifað um áður og margt í fæðunni okkar getur bætt okkur, en einnig valdið skaða. Ofátið á sér sennilega ekki bara sálfræðilegar skýringar og margt er farið að benda til að tilbúinn matur geti á ýmsan hátt verið skaðlegri en við töldum áður, en sem gera átti lífið okkar auðveldara.

http://www.nature.com/nature/journal/vaop/ncurrent/full/nature14232.html

http://blog.pressan.is/vilhjalmurari/2014/03/28/thau-tala-naid-hvort-vid-annad-en-hvad-gerum-vid-sjalf/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2010/10/12/godu-gaejarnir-a-moti-theim-slaemu/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2014/03/06/tollfrjals-innflutningur-a-syklalyfjatholnum-samfelagsmosum/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn