Aldraðir nota bráðamóttökur mest allra tengt alvarlegri veikindum, eins og gefur að skilja. Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir á höfuðborgarsvæðinu hinsvegar, eru endurteknar komur, oft af minni ástæðum og víðtækt úrræðaleysi í málefnum aldraða heima. Legutími þeirra sem að lokum leggjast inn á spítalana lengist auk þess stöðugt og þar með hæfni til daglegra athafna eftir að heim er komið og sem gerist furðufljótt í spítalaumhverfi. Nauðsynleg úrræði fyrir útskriftir vantar, möguleikum á nauðsynlegri eftirfylgd í heilsugæslunni, í heimahúsum eða með ráðstöfunum í sérhæft hjúkrunarrými eða í aðra langtímavistun og endurhæfingu. Stíflur og yfirflæði verður hins vegar til á legudeildum spítalana sem truflar möguleika á innlögnum af bráðamóttökunni og sem er oft yfirfull, þótt hún sé stór og öflug fyrir. Ásýnd spítalans út á við og þjóðfélagsins auðvitað alls sem stöðugt er í fréttum vegna of mikils álags.
Eftir því sem sjúklingarnir verða eldri með öldrun þjóðarinnar og sem ber auðvitað að fagna, verður vandinn áþreifanlegri. Úrræðaleysis stjórnvalda í málefnum aldraða í dag er þó það sem hér skiptir mestu máli og þegar óþarfa kostnaður eykst mikið í heilbrigðiskerfinu. Mest er auðvitað óhagræðið fyrir aldraða sem fara þannig á hálfgerðan vergang, oft með miklu álagi á aðstandendur. Íslendingar eru eftirbátar meirihluta OECD ríkja hvað ríkisútgjöld til heilbrigðismála varðar af þjóðartekjum og sífelt minna eftir af heildarkökunni notað til ráðstöfunar á skynsamlegri uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Meðal annars til öflugri heilsugæslu og þjónustu við aldraða á heilsugæslustöðvunum sjálfum og sumar vart mannaðar læknum lengur. Eins til hugsanlegra opnunar öldrunarbráðadeilda í samvinnu við öldrunarsérfræðinga og sem gætu undirbúið heimkomu fljótt aftur með viðeigandi ráðstöfunum í heimahögum eða í tímabundu hjúkrunarrými.
Í dag eru um 70 rúm teppt á legudeildum Landspítala samkvæmt fréttum. Bráðamóttakan, sem nú heyrir undir flæðissvið LSH, kemur sjúklingum oft ekki áfram, eins og nafn sviðsins á að bera með sér. Bráðamóttakan er þungamiðjan í flæðinu og sem alls ekki má stíflast vegna þeirra sem mest þurfa á henni að halda í alvarlegustu veikindum eða slysum lífsins. Auðvitað gildir það sama fyrir alla aldurhópa og allir ættu líka að eiga þess kost að sækja nauðsynlega þjónustu fyrir minni veikindi og slys til heilsugæslunnar, sérfræðinga úti í bæ eða á göngudeildir. Þjónustu sem er orðið mjög af skornum skammti. En bráðdeild háskólasjúkrahússins er ekki fyrir alla, með hvað vandamál sem er.
Gamalt fólk er oft með fjölmörg heilsufarsvandamál og sem getur verið erfitt að átta sig á við stutt kynni á bráðamóttökunni. Ástæða komunnar er þannig oft aðeins eitt af mörgum vandamálum og ekki endilega það sem mestu máli skiptir í heildarmyndinni. Óvissa með eftirfylgdina heima og aðgang að heilsugæsluþjónustunni, leiðir hins vegar oft til innlagnar og margvíslegra óþarfa rannsókna. Betra úrræði þekktum við vel hér áður fyrr í Hafnarfirði, meðan St. Jósefsspítali var og hét og sem þjónaði gat bæði sem göngudeild og til styttri innlagna aldraða. Mistök sem stjórnvöld gerðu með að loka á sínum tíma og sem þau vilja ekki lengur ræða eða læra af, en bara gleyma.
Á Bráðadegi flæðissviðs LSH fyrir helgi var þetta allt til umræðu og þar sem m.a. Dr. Samir Sinha frá Toronto hélt fyrirlestur og sem er ráðgjafi kanadískra heilbrigðisyfirvalda og fleiri landa í spítala- og öldrunarmálum. Hvernig draga má úr háum sjúkrahúsútgjöldum ríkisins vegna óþarfa innlagna aldraðra á hátæknisjúkrahús. Með skilvirkari þjónustu á heimslóðum, öflugri heimahjúkrun og heilsugæsluþjónustu læknis, sem og aðgangi að takmarkaðri bráðamóttökum fyrir aldraða. Svipuð mál voru aðalumræðuefnið á fræðadegi Félags íslenskra heimilislækna (FÍH) í gær og sem meðal annars heilbrigðisráðherra sótti, sem og nýr Landlæknir. Stjórnvöldum ætti því að vera málið nú mjög vel kunnugt.
En þarna stendur hnífurinn einmitt í kúnni hér heima og gesturinn góði, Dr. Samir áttaði sig vel á. Heimilislæknar sem gegna lykilhlutverki í heildarmyndinni eru ekki helmingur á við það sem þekkist í Toranto miðað við íbúafjölda (um 50% allra lækna í Toronto en sem eru um 20% á höfuðborgarsvæðinu). Endurtekið er líka bent á það ofálag sem er á allri bráðþjónustu og læknavöktum á höfuðborgarsvæðinu, allt að áttfalt miðað við það sem þekkist í nágranalöndunum og sem er tilkomið vegna undirmönnunar í heimilislæknisþjónustunni á daginn.
Ofálag á vaktaþjónustur leiða síðan til fleiri skyndilausna á flestum sviðum, óþarfa rannsókna og jafnvel innlagna, svo ekki sé talað um óþarfa lyfjaávísanir eins og t.d. sýklalyf og verkjalyf sem ég þekki best til. Á Íslandi höfum við sannarlega ekki farið varhluta af þeirri þróun og afleiðingunum sem snýr að sýklalyfjaónæmi sýkingarvalda barna og gamla fólksins. Sýklalyfjanotkun barna, mest allra á Norðurlöndunum, hefur staðið í stað sl. áratug, meðan náðst hefur að minnka hana um meira en helming annars staðar eins og í Svíþjóð. Sýklalyfjaónæmar lungnabólgubakteríur sem valda eyrnabólgum barna hafa gengið yfir í tveimur stórfaröldrum hér á landi sl. áratugi og sem vakið hefur athygli víða um heim og nú er reynt að bólusetja gegn. Sama gildir um gamla fólkið og lungnabólgurnar. Í velferðarríki þar sem ekki einu sinni hefur verið hægt að fara eftir alþjóðlegum klínískum leiðbeiningum hvað varðar meðhöndlun sýkinga meðal barna og hjá gamla fólkinu. Nauðsyn lyf síðan oft ekki til og aðeins notast við annað eða þriðja besta.
Hvernig væri nú að stjórnvöld horfðu alvarlega á heildarmyndina. Allir eru reyndar sammála um að styrkja þurfi heilbrigðiskerfið eftir áratuga niðurskurð. Menn greinir hins vegar á áherslur og hvar eigi að byrja. Hugmynd af nýjum Landsspítali seldist hratt meðal stjórnmálamanna og ekki alveg af ástæðulausu, en án nægjanlegrar umræðu meðal lækna um staðarvalið og sem kannanir hafa sýnt að meirihlutinn er á móti. Framkvæmd upp á 80 – 120 milljarða króna, hvorki meira né minna og óljóst hvort verði til svo mikillar framtíðar. Heilsugæslan sem stýrir að miklu leiti álagi á spítalana, situr hins vegar endalaust eftir, eins og illa gerður hlutur og sem er nú að niðurlotum komin. Fjölga þarf strax um 60 heimilislækna á höfuðborgarsvæðinu einu (skortur sem lengi hefur verið þekktur), til að flæðið góða gegnum flæðissvið LSH virki og eins og það er hugsað. Stórauka þarf göngudeildarþjónustu og öldrunarlæknisþjónustu sem og aðgengi heilsugæslulækna að sérgreinalæknisþjónustu sem sitja orðið við svipað borð og almúginn. Víða vonlaust að fá tíma fyrir skjólstæðinga, t.d. hjá geðlæknum, gigtarlæknum og taugalæknum.
Hugsa þarf lausnirnar heildrænt, frá A til Ö herra ráðherra, og ekki lesa stafrófið aftan frá. Bæta heimilislæknisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu strax eins og kostur er og sem stendur fámennustu heilsugæslum úti á landsbyggðinni víða langt að sporði í dag. Ekki endilega með breyttum rekstarformum heilsugæslunnar sem mörgum er tíðrætt um, heldur fyrst og fremst með stórauknu fjárframlagi til heilsugæslunnar almennt. Til framkvæmda og til bætts mannafla, lækna, hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga, félagsráðgjafa og sjúkraliða. Heilbrigðisstarfsfólks sem getur starfað undir teymisstjórn hvers einstaks heimilislæknis í heilsugæslunni og sem þekkir best sína skjólstæðinga.