Fimmtudagur 12.03.2015 - 16:13 - FB ummæli ()

Eitthvað er þetta öfugt – velferð barna og næring fyrir einni öld og nú (Eir X)

börn2

Börn á Íslandi  árið 1900, (ljósm. Frederick W.W. Howell)

Í dag er ungbarnadauði á Íslandi með því sem lægst gerist í heiminum, eða um 0.1% lifandi fæddra barna. Öll þekkjum við enda öryggið sem viðhaft er við fæðingu barns og síðan með góðu ungbarnaeftirliti og bólusetningum sem hafa nær útrýmt algengust smitsjúkdómunum þeirra. Áhersla er lögð brjóstgjöf og ýtarlegar ráðleggingar liggja fyrir um fæðuval. Samt er það svo að leiðbeiningarnar breytast stöðugt og það sem sagt er í dag, þarf ekki endilega að vera það besta á morgun.

Þannig höfum við ráðlagt hingað til að ungbörnin haldi sig við brjóstamjólk eingöngu (þurrmjólk til vara) fyrstu 6- 7 mánuðina. Í dag tala hins vegar barnalæknar um að betra sé að gefa ungbörnum flestan mat með brjóstagjöf 2-3 mánuðum fyrr. Jafnvel hnetur sem tengjast annars alvarlegasta fæðuofnæminu síðar og sem hafa verið forboðnar í fæði ungbarna allt fyrsta aldursárið. Nýjustu rannsóknir sýna fram á minni líkur á hnetuofnæmi ef ungbörn fá að neyta hnetanna snemma eða upp úr 4 mán. aldri, jafnvel aðeins fyrr. Þekkingar- og ráðaleysið í dag snýr þannig oft orðið frekar að því hvenær má gera hlutina en hvort.

Árið 1899 skrifaði J. Jónassen, læknir annars konar ráðleggingar til ungbarnamæðra í Eir, tímarit um heilbrigðismál fyrir alþýðuna. Hann byrjar reyndar með einskonar uppgjöri um ungbarnadauða árið  á undan, 1898, en þá fæddust 2361 börn, en alls dóu 1707, svo ekki var mannfjölgunin mikil það árið frekar en árin á undan. Ungbarnadauðinn var skelfilegur eða um 15% fæddra barna (í sumum héruðum allt að fjórðungur) og jafnvel þótt engar sérstakar farsóttir höfuð riðið yfir og tekist hafði að náð góðum tökum á bólusóttinni með kúabóluefninu. Barnaveiki, taugaveiki og stífkrampi voru að vísu alltaf nálægir vágestir hjá börnunum, en minna minnst á mislinga og flensur, þar sem heldur engin voru til bóluefnin. J. Jónassen lýsir líka vel aðstæðum sem fólk bjó þá við og fátæktinni, sem hollt er fyrir okkur að bera saman við aðstæðurnar í dag, en ekkert síður fávisku og hirðuleysi. Ef til vill eitthvað sem heimfæra mætti upp á þörfina í dag um alla dellukúrana, en þar sem skammaræður heilbrigðisyfirvalda vantar. Sýklalyfin voru auðvitað ekki heldur til í þá daga, kraftaverkalyfin sem komu ekki fram á sjónarsviðið fyrr en seinni hluta 20 aldarinnar, en sem við kunnum svo illa að fara með í dag á 21 öldinni og þau sífellt að verða óvirkari.

Þegar þannig 345 börn af 2290, sem fæðast lifandi eða 15 af hverju hundraði, eru dáin áður en þau hafa náð öðru aldursári, þá hljóta hér að vera sérstakar orsakir til þess, og þarf ekki lengi að leita til þess að finna aðal-orsökina, en hún er óskynsamleg meðferð á ungbarninu og þá sérstaklega að því, er snertir næringuna. Það er fátt, sem er hættulegra fyrir líf ungbarns en óregla, sem kemur á meltinguna og þar af leiðandi maga- og garnakvef; ungbarnið afber þetta ekki lengi, verslast upp og deyr. Í febrúarblaði „Eirar“ var stuttlega skýrt frá því, hver næring væri barninu hollust og skal hér vísað til þess, sem þar er sagt og ég skal enn fremur hér nota tækifærið til að skora á kvennþjóðina að eignast og lesa kverið, sem nefnt er „Barnfóstran“; það kver ætti að vera til „á hverju heimili“; og þær konur sem eiga börn, ættu að skoða það sem skyldu sína, að vita alt það, sem í kverinu stendur, því þá mundi margt barnið lifa, sem annars mundi ef til vill fara tímanlega í gröfina.

Ekki efa ég um það, að loftlitlum, saggafullum og köldum húsakynnum víðast hér á landi sé um því að kenna, að ungbarnadauðinnn er svo mikill og verður líklega svo að vera, meðan fátæktin er hins vegar, en ekki væri það rétt, að skella allri skuldinni upp á fátæktina; mér er nær að halda að fáviskan og hirðuleysið eigi og sinn skerf og hann drjúgan; en vonandi er, að alt fari þetta batnandi með vaxandi menning. Móðir elskar afkvæmið sitt og hryggist, þegar það verður lasið; hún veit oft ekki – sem betur fer – að það getur verið henni að kenna, að barninu er ilt og að það veslast upp og deyr. Hvaða fræði ætti að sjálfsögðu að vera hverri móður dýrmætari, en fræðin um hina réttu meðferð á ungbarni hennar? hvernig er því varið að þær mæður eru víst teljandi sem leita sér fræðslu í þessu tilliti. Ég hef á öðrum stað tekið það fram, að „Barnfóstruna“ ætti að kenna í kvennaskólum, en því mun hafa verið gefinn lítill gaumur; hvort skyldi vera nauðsynlegra fyrir stúlkunar í kvennaskólunum að kunna landafræði eða „Barnfóstruna“? Landafræðin er kend – og er það sjálfsagt- en fræðin um meðferð ungbarna er látin eiga sig; eitthvað er þetta öfugt.“

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn