Miðvikudagur 18.02.2015 - 22:34 - FB ummæli ()

„Ef bólan tekur hann ekki“ – Eir IX (fyrri hluti)

4 R UMAX Mirage II V1.3 [3]

Ung kona með bólusótt með barnið sitt sem er búið að bólusetja

Almennt má segja að bólusetningar ásamt smitvörnum og góðu hreinlæti séu bestu varnir okkar gegn smitsjúkdómunum og sem við treystum hvað mest á í heimi okkar með örverunum og sem eru mörg billjón sinnum fleiri en við sjálf og dýrin. Ákveðin lögmál ríkja í þessum heimi eins og öllu öðru sem tilheyrir sameiginlegu lífríki okkar, en sem nútíma lækna- og lífvísindi gerir okkur miklu auðveldara að lifa í. Mikill lærdómur og vinna liggur að baki þeim árangri að geta ráðið við smitsjúkdóma sem stundum voru drepsóttir á öldum áður og lagt gátu heilu þjóðfélögin í rúst. Ekki bara með hjálp vísindanna að finna bóluefnin og framleiða réttu sýkla- og veirulyfin, heldur einnig hvernig við getum farið rétt með þessi lyf og viðhaldið því hjarðónæmi sem þarf til að halda smitvöldunum utan girðingar. Eins með stöðugri vinnu heilbrigðisyfirvalda og vísindasamfélagsins alls að benda á þau forgangsmál sem skiptir heilsu okkar og langlífi hvað mestu máli og sem er m.a. jafn aðgangur að góðum bólusetningum fyrir unga sem aldna.

Sl. ár hefur ákveðinn hópur manna haldið upp sterkum áróðri gegn mörgum nauðsynlegum bólusetningum, eins og t.d. mislingabólusetningunni hér á landi. Þótt engar vísindalegar sannanir séu til gegn almennt viðurkenndum bólusetningum í dag, eru heilu byggðarlögin á Íslandi með ófullnægjandi þekjun gegn sumum þeim smitsjúkdómum sem við hræðumst hvað mest í dag, eins og t.d.mislingum. Almennt vantar 10% barna bólusetninu gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum eftir 18 mánaða aldur (MMR) í dag og sem telst á mörkum þess að vera viðunandi árangur. Víða erlendis m.a. í nágranalöndunum er ástandið verra og því brotist út mislingafaraldrar og sem reglubundið er í fréttum.

Auðvitað koma upp tilvik þar sem ákveðin bóluefni þolast illa fyrir ákveðna einstaklinga og örsjaldan hefur bólusetning valdið alvarlegum einkennum. Þannig er t.d. hugsanlegt t.d. að að rekja megi 1-2 tilfelli drómasýki vegna svínaflensubólusetningarinnar 2009 hér á landi, en sem á sér líka hugsanlegar aðrar meðvirkandi skýringar. Sömu aukaverkanir eru síðan oft 1000 fallt algengari, tengt raunverulegum sýkingum eins og í Kína þar sem lítið var bólusetti gegn svínaflensunni um árið. Vara þarf því við málstað öfgahópa og samtaka sem stuðla að óheilbrigði og dauða saklausra barna (sem og fullorðinna) með því að taka ekki þátt í almennum nauðsynlegum bólusetningum og sem taka ekki neinum vísindalegum rökum. Þess í stað sem eru uppvísir að styðjast við falsaðar rannsóknaniðurstöður, máli sínu til stuðnings.

640px-Child_with_Smallpox_Bangladesh

Eitt af síðustu tilfellum Stórubólu, Bangladesh 1973.

En snúum okkur nú að upphafinu, tilurð bólusetninganna og lítum á hvað var skrifað um kúabólusetninguna fyrir meira en öld síðan 1899, í alþýðutímaritinu Eir um heilbrigðismál. Frá þeim tímum sem menn töluðu um smitsjúkdómana sem næma sjúkdóma og þá sem stóðu betur að vígi gegn sjúkdómunum sem ónæmir voru. Löngu fyrir tíma nútíma ónæmisfræði og þegar menn skynjuðu beint sambandið milli smitefnis og ónæmisaðgerða. Löngu fyrir tíma nútíma bólusetninga með sérhæfðum bóluefnum sem gefin eru með sprautu og nál og sem á í raun ekkert skilt við sjálfa bólusóttina (stórubólu, smallpox). Orðið og hugtakið bólusetning á íslensku máli er þó eitt fárra dæma í heiminum um þjóð sem heldur sig ennþá alltaf við grunnhugtakið „að bólusetja“ (vaccination), en þegar átt er við ónæmisaðgerð (immunization) með hverskonar dauðum eða veikluðum smitefnum (ónæmisvaka). Skemmtileg myndlíking engu að síður og sem auðveldar skilning á hvað bólusetningar raunverulega snúast um í grunninn. Að kynna smitefni fyrir ónæmiskerfinu okkar og sem síðan sér um varnirnar þegar til stórrorustunnar kemur. Af þessu tilefni, ekki síst fyrir þá vantrúuðu, vil ég endurrita í þessarri og næstu færslu hluta greinar Guðmundar Björnssonar læknis í Eir frá árinu 1899, um stórubóluna og bólusetningar gegn bólusótt hér á landi allt frá árinu 1805. Mesta framfaraspor í læknisfræðinni hér á landi frá upphafi og bólusótt sem nú er búið að útrýma (1977) með góðri þátttöku í bólusetningunum.

„Bólusteningin er orðin það gömul, að menn eru hættir að meta hana svo mikils sem hún á skilið. Það er farið að gleymast, að bólusóttin er óttalegri, en allar aðrar landfarsóttir, ef hún fær að ráða sér. – ef ekki er bólusett. Árið 1707 er mælt að bólan hafi drepið 18000 manna hér á landi af 50.000. Síðast kom hún hingað 1839, fór um Suðurland, en ekki er víðar, og var væg, enda vóru þá bólusetningar farnar að tíðkast, þó að í ólagi færi. Árið 1871 komu hingað til Reykjavíkur nokkrir franskir menn bólusjúkir, en engir innlendir menn fengu sóttina af þeim.

Það vita menn að bólusótt gekk í Kína og Indlandi þúsundum árum fyrir Krist burð, en ekki hafa menn sögur af því, að hún hafi komið hér í álfu fyrr en á ofanverðri sjöttu öld eftir Krist. Síðan hefir hún setið kyr og verið allra meina verst, alt fram á þessa öld. Norðurálfubúar fluttu sóttina með sér til Vesturheims og drap hún hrönnum saman þá sem þar bjuggu fyrir. Danskt skip flutti sóttina til Grænlands árið 1734; þar bjuggu þá um 6000 manns, en 4000, eða þar um bil, dóu úr bólunni. Alls hefir bólan gengið 19 sinnum hér á landi síðan 1306. Á 18. öldinni var bólan svo algeng í Norðurálfunni, að svo má segja hver einasti maður fékk sóttina, áður en hann náði fertugs aldri. Flestir fengu hana þegar í bernsku og olli hún því afarmiklum barnadauða. Nú er sagt um efnilegt barn, að það muni verða að manni, ef það fái að lifa, en þá sögðu menn hér á landi: Hann verður einhvern tíma að manni, „ef bólan tekur hann ekki.“ Venjulega dó fimta hver manneskja af þeim sem sóttina tóku, stundum miklu fleiri að tiltölu. Er því ofur auðskilið, hvílík ógn mönnum stóð af þessum sjúkdómi. Enda kvað svo ramt að því, að margir ungir menn sælust eftir bólunni, fóru með föt bólusjúklinga, eða sváfu hjá þeim, til þess að fá af þeim sóttina, og vörpuðu þannig hlutkesti um líf sitt – ekki af gamni sínu, heldur af því að þeim þótti ekki ómaksins vert, að leggja út í lífið og eiga banvæna bóluna sífelt yfir höfði sér. Kusu heldur að láta strags skríða til skara millum sín og bólunnar.“   (framh. – saga „bólusetninga“ í næsta hluta)

http://eyjan.pressan.is/frettir/2015/02/18/5-til-12-prosent-barna-a-islandi-ekki-bolusett/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2013/10/10/getur-mislingafaraldur-komid-upp-i-vestmannaeyjum/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn