Þau voru ófá tilfellin þar sem þyrlur Landhelgisgæslunnar (LHG) björguð öllu eins og sagt er og sem kom fram í fyrsta uppgjörinu á árinu 1991 í grein í Læknablaðinu 1994, 5 árum eftir að þyrlusjúkraflug hófst hjá Landhelgisgæslunni (LHG) 1986. Á sama tíma var góð aðstaða sköpuð við hlið Borgarspítalans til lendinga með opnum svæðum úr þremur megin áttum. Flugið þjónaði miðunum út af landinu og ekki síst alvarlegustu slysunum af landsbyggðinni. Niðurstaða rannsóknarinnar var að um 40% sjúkraflutninga með þyrlunum voru taldir mjög mikilvægir, m.t.t. alvarleika og tíma í flutningi áður en sjúklingur komst á sjúkrahús til að fá viðeigandi meðferð (oftast skurðaðgerðir og gjörgæslu). Neyðarútköll þyrlusveitar LHF hefur síðan þetta var nær þrefaldast og eru nú tæplega 300 á ári, þar af yfir helmingur vegna slasaðra eða sjúkra. Aukning á útköllum eru greinilega tengd erlendum ferðamönnum og þar sem aukningin mælist um 66% á aðeins 5 árum. Þau þyrftu að margra mati og sem best þekkja til, að vera töluvert fleiri ef vel ætti að vera. Um ágæti og öryggi sjúkraflutninganna efast held ég enginn um í dag og enn má bæta með annarri þyrlubakvakt sem er til umræðu og jafnvel léttari sjúkraþyrlum fyrir styttri flutninga. Þyrluaðflug mun hins vegar alltaf verða mjög varhugavert yfir lágreista spítalaþorpinu í Þingholtunum. Þar verður engin aðstaða til nauðalendinga á opnum svæðum og í raun hrikaleg þróun hvað varðar öryggi heimkomunnar á bráðaspítalann og ólíku saman að jafna við aðstæður í Fossvoginum í dag.
Í byggingaáformunum við Hringbraut þar sem megin markmiðið er að flytja alla bráðaþjónustu sjúkrahúsa Reykjavíkur undir eitt og sama þakið eftir 5 ár, er nú ráðgerður þylupallur (helipad) á þaki sjálfs rannsóknarhússins og sem er einn viðkvæmasti hluti spítlastarfseminnar, næst meðferðarkjarnanum (áætlun frá 2011). Flugmálayfirvöld gera kröfu um að notaðar verði þyrlur af afkastagetu 1 vegna lélegra aðflugsskilyrða við spítalann (2- 3 mótora þyrlur) og sem geta haldið hæð ef vélabilun verður í einum mótor. Þegar upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir aðeins um 10 lendingum á ári í neyð! Allir geta hins vegar séð fyrir sér hvað gerist ef slík þyrla hlekkist á einhverja hluta vegna í sem næst daglegum sjúkraflutningum í allskonar veðrum og þar sem hver þyrla getur jafnast á við á þyngd fullhlaðins grjótflutningabíls (15-20 tonn). Alltaf þyrfti hins vegar að tryggja plan B – öryggisplan- við aðstæður sem reglubundið sjúkraþyrluflug krefst og krafa ætti að vera varðandi byggingaframkvæmdir við nýjan þjóðarspítala. Þar sem kostur er á opnum svæðum til nauðlendinga, í að- og fráflugsstefnum pallsins.
Árið 2012 var hins vegar ákveðið að loka neyðarbrautinni svokölluðu og sem þjónað gat samkvæmt hugmyndum í hönnun þyrlupallsins, sem ein aðflugsbraut fyrir sjúkraþyrlurnar. Byggingaframkvæmdir hófust eins á Valslóðinni við NA enda gömlu brautarinnar eins og nýtt deiliskipulag Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir og hindrunarhringnum þannig endanlega lokað umhverfis spítalann. Ekkert nýtt áhættumat hefur heldur verið gert síðan, eftir því sem ég best veit. Þannig afskaplega heimskulegt og hættulegt aðeins plan A yfir Þingholtin og nágrenni nú verð ég að segja.
Öryggi bráðastarfseminnar og aðgengið að henni á nýju þjóðarsjúkrahúsi, skiptir auðvitað miklu máli fyrir þjóðaröryggið í framtíðinni. Málið nú snýst þannig ekki aðeins um vanda bráðaflutninga með sjúkrabílum vegna umferðarþunga/aðgangshindrana næsta áratuginn, heldur einnig að öruggum lendingaraðstæðum fyrir sjúkraþyrlur við sjúkrahúsið. Eins mætti nefna nálægð flugvallar við spítalann fyrir venjulegt sjúkraflug en sem er líklega á förum. Allt voru þetta meginforsendur fyrir upphaflegu staðarvali við Hringbraut fyrir 15-20 árum en sem breyttust með nýju AR 2010-2030. Sjúkraflug í dag er nú um 1000 á ári og þar af tæplega 200 með þyrlum LHG. Þörf fyrir þyrlusjúkraflug á síðan eftir að stóraukast hér á landi ef að líkum lætur.
Já ráðherra, þú verður að gefa leyfi til nauðlendingar á Hringbrautarmálinu öllu, eða ætlar þú að taka áhættuna á hamfaraslysi, þrátt fyrir vitneskjuna í dag og að öll rauð viðvörunarljósin blikka látlaust?
Í grein sem Jakob Ólafsson flugstjóri LHG skrifaði á Vísir 2012 segir m.a. Í skýrslu nefndar um uppbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH) við Hringbraut frá apríl 2004 er í 10. kafla fjallað um samgöngur við LSH og þar segir m.a.: „Mikilvæg forsenda fyrir staðarvali við Hringbraut var að sýnt þótti, að þar væri hægt að tryggja gott aðgengi ökutækja og sjúkraflugs“ Þetta sama ár 2012 var forsenda sjúkraflugsins skyndilega felld úr gildi og Jakob skrifar skrifar „Síðan verða blikur á lofti, ný stjórnvöld taka við og skipt er út nefnd um Landspítalaverkefnið. Áherslur þessara nýju stjórnarherra eru að að losa sig við Reykjavíkurflugvöll með öllum ráðum og láta sem öryggi og hagsmunir landsbyggðarinnar séu þeim óviðkomandi.“.. „Ef þyrlupallar eru settir á nýjar spítalabyggingar er gert ráð fyrir rúmum öryggissvæðum til nauðlendinga við aðflug og brottflug þyrlna að pallinum því ef bilun verður í gírkössum eða stélskrúfu þyrlu við aðflug eða brottflug að þyrlupallinum hefur þyrluáhöfnin afar lítið svigrúm til að beina þyrlunni að heppilegum lendingarstað, aðeins það rými sem er nánast beint fyrir neðan þyrluna er í boði til nauðlendingar og því gæti skapast almannahætta við brotlendingu þyrlu á sjúkrahússvæðinu, í nálægri byggð eða á umferðargötu. Miðað við framtíðarskipulag Landspítalasvæðisins er gert ráð fyrir þéttri byggð og umferðaræðum í nágrenni spítalans og því slík öryggissvæði ekki í boði.“ Fyrir áhugasama þá er tenging á hönnunarskýrslu þyrlupallsins á Nýjum Landspítala við Hringbraut hér fyrir neðan sem gaman væri að fá skoðun á frá flugmönnum/fagmönnum sem og sérfræðingum í umhverfisaðstæðum.
https://drive.google.com/open?id=0B91EwWZv2AGmb3JOcEZBRTdLUmc http://www.hirsla.lsh.is/lsh/bitstream/2336/75933/1/L1994-02-80-F5.pdf