Laugardagur 29.05.2010 - 17:56 - 2 ummæli

Tími leigusala að renna upp

Þau frumvörp sem tveir ráðherrar  leggja fram fyrir Alþingi um bætta stöðu skuldara gegn kröfuhöfum eru um margt skynsamleg.  Þau munu hjálpa núverandi kynslóð sem glímir við of há lán, en hins vegar verða afleiðingarnar lægri lánshæfni fyrir næstu kynslóð og skuldlitla einstaklinga.

Ef ný lög, sem allt bendir til, gefa lánastofnunum aðeins færi á að endurheimta það verð sem fæst á nauðungaruppboði, ef allt fer á versta veg, verður sú tala útgangspunktur í framtíðarlánveitingum.  Þetta þýðir að venjulegt lánshlutfall upp á 80% af kaupverði fasteigna í gamla kerfinu lækkar niður í 60% í því nýja, enda er þetta algengt lánshlutfall í þeim löndum þar sem fasteignin er eina veðið á móti láninu.

Þetta mun þýða að næsta kynslóð verður að búa lengur í ódýru leiguhúsnæði (eða heima hjá mömmu og pabba) og spara og spara og spara fyrir útborgun sem líklega verður a.m.k 25% af kaupverði í beinhörðum peningum.  Lán út á 2. og 3. veðrétt munu heyra sögunni til, að mestu leyti, og uppáskriftir verða mun erfiðari þar sem lánshæfni allra fasteignaeigenda lækkar í þessu nýja kerfi.

Gríðarleg eftirspurn verður eftir hagkvæmum 2ja og 3j herbergja íbúðum bæði til leigu og kaups.  Þetta verða þær íbúðir sem ungt fólk sækist eftir að kaupa í samkeppni við efnasterka leigusala sem sjá mikið tækifæri í ört stækkandi leigumarkaði.  Niðurstaðan verður hátt kaup- og leiguverð á minnstu íbúðunum sem aftur þýðir að enn erfiðara verður fyrir unga fólkið að eignast þak yfir höfuðið.  Hér mun því skapast ákveðinn vítahringur fyrir næstu kynslóð sem þeir efnameiri munu geta hagnast verulega á.

Þessi breyting mun því gagnast þeim í núverandi kynslóð sem skulda mest og þeim sem eiga mest.

Fyrir þá sem halda að Íbúðarlánasjóður komi hér til bjargar, verður að segjast að framtíðarútlitið á þeim bæ er ekki gott.  Í fyrsta lagi, vill flokkur félagsmálaráðherra að Ísland gangi í ESB og þar eiga ríkisstyrktar lánastofnanir ekki upp á pallborðið.  Í öðru lagi, og óháð ESB umsókn, er ákveðin óvissa uppi með fjármögnunarleiðir og -kostnað Íbúðarlánasjóðs í framtíðinni.  Getur „ríkið“ skaffað h0num samkeppnishæft fjármagn á móti innlendum lánastofnunum sem líklega verða í erlendri eigu og munu þar með hafa betra lánstraust en ríkið?  Þessar lánastofnanir munu geta boðið fjársterkum innlendum aðilum sem vilja byggja upp keðju af leiguhúsnæði fyrir hinn ört vaxandi markað, bestu hugsanlegu lánskjör og þar með mun tími hinna fjársterku leigusala aftur renna upp á Íslandi.

Þið heyrðuð þetta fyrst hér á mínu bloggi!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Skil ekki nákvæmlega hvað þú hefur fyrir þér í þessu um afleiðingarnar (hef ekki burði til að vita slíkt) en þetta er áhugaverð færsla sem ég datt inná. Er einmitt í þeirri stöðu að ég bý enn hjá foreldri og nálgast þrítugsaldur (ítalskur mammoni?) en mun bráðlega leita mér að 2 herbergja íbúð, helst vil ég bíða eftir botninum á markaðnum(sem er spáð kannski í byrjun næsta árs, en auðvitað veit þetta svo sem enginn). Samt segir þú að það verði hækkun, ég átt mig ekki á þessu. Hér er t.d. búið að hauga nýbyggingum út um allt, það ætti að lækka verðið eitthvað (eða ætla menn bara að láta þær standa auðar? Er ekki skárra að lokka menn að með lægra verði?).
    Hvað í ósköpunum þyrfti maður að punga út ef maður fær bara lán fyrir 60%? Nú á ég sparifé, en ég held ég eigi ekki alveg uppí 40%(kannski 25%, af hverju sagðirðu 25% í stað 40%?).
    Segjum að maður blæðir út þessari upphæð x samt, er það ekki jákvætt að því leyti að því sem maður borgar meira því minna þarf maður að borga af henni mánaðarlega?
    Held ég vilji ekki leigja enda hefur mér verið kennt víða að það sé eins og að henda pening út um gluggann.

    Mig minnir annars að einhver hafi komið með þá tillögu að bankarnir gætu átt svona tja… þriðjung af íbúðinni (man ekki töluna, kannski var það 20%). Er það ekki ágætis lausn. Minnkar greiðslu og lánabyrði fólks þó það muni eignast minna í íbúðinni. Eða munum við sjá samtök leigusala-lobbýista sem munu þrýsta á að slíkir hlutir gerist ekki

  • Eitt sem gæti gerst, eins og víða erlendis, er að ungt fólk leigi saman stærri eignir.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og þremur? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur