Laugardagur 25.09.2010 - 11:25 - 46 ummæli

Þak á vexti gerir illt verra

Samtök heimilanna setja fram athyglisverðar tillögur um húsnæðislán og vexti í nýlegu plaggi sem nefnist  „Grunnur að þjóðarsátt“.  Þar eru stjórnvöld hvött til að setja 4% þak á verðbætur og leggja verðtryggingu niður.  Þá eiga óverðtryggð húsnæðislán aldrei að bera hærri vexti en 6% og  5% þak skal sett á vexti ríkisskuldabréfa.

Því miður er engar tillögur að finna hvernig á að tryggja fjármögnun í svona handstýrðu kerfi.

Með því að setja þak á ávöxtun er allri óvissu komið yfir á fjármagnseigendur.  Og með meiri óvissu kemur hærri ávöxtunarkrafa.  Svona lög munu því hafa þveröfug áhrif á markaðshegðun fjárfesta.  Að fara að bæta óvissu ofná þann óstöðuleika og óvissu sem ríkir í dag, mun aðeins gera illt verra og í raun draga fjárfesta útúr húnsæðislánakerfinu. 

Það er heldur ekki forsvaranlegt að biðja lífeyrissjóðina eða skattgreiðendur að fjármagna þessar hugmyndir og þar með niðurgreiða húsnæðislán.  Þá er ósvarað hinum lagalegum spurningum sem víkja að samningsfrelsi og almennum samkeppnislögum.

Ef við lítum aðeins nánar á þessar tölur, þá eru þær ósköp eðlilegar þar sem lög og regla ríkir á fjármálamörkuðum.  Í Bandaríkjunum eru fastir vextir á 15 ára húsnæðisláni um 4% og í Sviss er hægt að fá 5 ára húsnæðislán á 2.9% óverðtryggðum vöxtum.  Á Írlandi eru vextir á 5 ára húsnæðisláni rétt yfir 4% , þannið að raunvextir í okkar nágrannalöndum á 5 ára lánum eru á bilinu 2.5%-4%.  Nú verður verðbólga hér á landi fyrir 2010 líklega um 4% og 2011 er spáð 3% verðbólgu, þannig að óverðtryggðir vextir, miðað við markaðsaðstæður í nágrannalöndunum, yrðu að vera á bilinu 6.5%-8% miðað við 4% verðbólgu og 5.5%-7% miðað við 3% verðbólgu. 

Ljóst er að verðbólga hér á landi verður að vera stöðug og innan við 2.5% mörk Seðlabankans ef þetta á að eiga einhvern möguleika að ganga upp og þá aðeins hjá bestu kúnnunum með sterkasta greiðslumatið og bestu tryggingarnar.  Þegar vikmörkin eru svona þröng er ekkert svigrúm lengur til að láta bestu viðskiptavinina niðurgreiða vexti til hinna sem eru áhættumeiri.  Önnur afleiðing af þröngum vikmörkum er að lán verða líklega ekki hærri en 60% af gangverði fasteigna.

En fjárfestar hafa val.  Ef þeim líst ekki á þetta kerfi, geta þeir einfaldlega stofnað sjóð sem kaupir fasteignir og leigir þær út og þannig fengið markaðsarðsemi af sinni fjárfestingu.  Því þarf að setja þak á leigu samhliða svona kerfi, annað væri ósanngjarnt gagnvart fólki á leigumarkaði.  Þá er ekki hægt að mismuna verktökum sem byggja hús og íbúðir, þeir þura líka að fá lán með þaki, og svona koll af kolli …

Krafan um 6% óverðtryggða vexti er ekki ósanngjörn, en við verðum að bíða og taka til hjá okkur fyrst og sýna að við getum rekið nútíma hagkerfi á stöðugan, heilbrigðan og trúverðugan hátt og þá mun markaðurinn fylgja á eftir.  Það eru því miður, engar töfralausnir til.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (46)

 • Þórhallur Kristjánsson

  Þú segir að með því að setja þak á ávöxtun er allri óvissu komið yfir á fjármagnseigendur. Einnig er hægt að segja að með því að hafa lánin verðtryggð ertu að aflétta allri óvissu af fjármagnseigendum og koma henni yfir á lántakendur.

  Ef sett væri fast þak á verðbótaþátt lána þannig að ekki væri mögulegt að bæta hærri stuðli við lánin en td 3% þrátt fyrir að verðbólgan mældist hærri þá munduru setja mikið meiri aga í kerfið.

  Ef þetta væri svona mundu lífeyrissjóðirnir pressa á stjórnvöld að halda niðri verðbólgunni. Kerfið í dag virkar þannig að fjármagnseigendur hafa engan sérstakan hag i því að ná niður verðbólgunni ef þeir eiga mikið af verðtryggðum eignum.

 • Mér finnst almennt ávöxtunarkrafa fjármagnseigenda ákveðin tegund af frekju. Við þurfum að fara að losna úr þessu óstöðuga vaxtahagkerfi þar sem fjármagnseigendur rænir almenning með vöxtum og verðbólgu. Þetta er ekkert annað en þjófnaður sem er þar að auki tryggt gegn verðbólgu (verðtrygging). Þetta er bara algjörlega ólíðandi og það er engin afsökun fyrir meinta hagspekinga að réttlæta áfram þetta fyrirkomulag.

  Ef fólk stofnar sinn eiginn banka, lífeyrissjóð og stéttarfélag sem öll huga að almenningshag, þá kafna önnur frek fjármálaskrýmsli þegar fólk gengur til liðs við þær stofnanir.

  Enn minni ég þig á Andri Geir að þú ert enn að hugsa inní í kassanum. Þar er engin framtíð og engar lausnir. Má ég biðja þig um að gjöra svo vel að koma út og ástunda smá hugarleikfimi og þenja út ímyndunaraflið.

 • Best væri og einfaldast að tengja húsnæðislán húsnæðisvísitölu. Og síðan er hægt að greiða 2-4% vexti á það. Þetta er hvort eð er allt fjármagnað af samfélagslegum peningum.

 • Georg Georgsson (gosi)

  Svona pælingar eru einfaldlega út í hött meðan við höfum ekki gjaldmiðil sem hægt er að hafa viðskipti með út á við.

 • Gullfótur íslensku krónunnar á að vera annaðhvort þorskur eða íbúðarhúsnæði. Það er þó veruleiki.

 • Þakka þér fyrir alla þá góðu pistla undanfarna mánuði. Ég verð að segja að þú ert einn af fáum sem ég er að stærstum hluta sammála, eðlilega ekki alltaf.
  Ég vil aðeins leggja orð í belg varðandi verðtryggingu lánsfjár og innlána.
  Hér er semsagt sjálfstæður gjaldmiðill, en ekki trygging. Keypti einhver þessa tryggingu? Er hægt að tryggja sig gegn henni? Er hægt að tryggja launin sín á sama veg og þá hvar? Er hægt að tryggja fasteignirnar á móti verðtryggingunni (hedge-a)? Nei það er semsagt ekki hægt. Því vísitalan, verðtryggingin er sjálfstæður gjaldmiðill og hefur í raun að hluta að gera með hina íslensku krónu.
  Skoðum aðeins nokkrar tölur. Frá 1989 – 2007 hækkuðu DKK og GBP um 70-80% gagnvart krónunni. Neysluvísitalan hækkaði hinsvegar um 180%! Þá myndi maður ætla að vextir (heita vextir þegar við tölum um önnur lönd en „raunvextir“ þegar við tölum um Ísland) hafi vegið þetta upp gagnvart Danmörku og Bretlandi. Vextir á Íslandi voru á þessum tíma allt niður í 4,2% (ofan á vísitölugjaldmiðilinn) og allt upp í 6,5% að undanskildum tíma þar sem við borguðum líka afföll allt að 25% en þetta var þegar við kölluðum kerfið „húsbréf“. Ég bað bæði Seðlabankann og Hagfræðideild Háskólans að aðstoða mig við gagnaöflun hvað vexti í Danmörku og Bretlandi varðaði en þeir voru of uppteknir. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér hafa vextir af húsnæðislánum aldrei farið yfir 5,5% í þessum löndum en það er reyndar algerlega óstaðfest. En Ef vega á upp fjarstæðukenndan mismuninn á Verðtryggingu versus DKK og GBP þá þyrftu vextir í þessum löndum að hafa verið giska 10%!
  Verðtrygging var afhent lífeyrissjóðum og stóreignafólki fyrir þrjátíu árum síðan. Það liðu aðeins 4 ár (1983) að menn gáfust upp á vísitölutryggingu launa.
  Þetta kerfi er ekkert annað en mannsmorð og ekki hægt að réttlæta það nema með séríslenskum málatilbúnaði, það er heimsku, þröngsýni og siðblindu.

 • stefán benediktsson

  Verðtrygging er ekki nema 30 ára gömul og var sett á til að stöðva raðþjófnað. Fólki hættir til að gleyma því að bankar eiga ekki peningana sem þeir sýsla með heldur sparifjáreigendur, launagreiðendur og fyrirtæki sem velta peningum sínum í bankanum eða lána honum þá. Að fá lán fyrir 1980 var það sama og að fá leyfi til að ræna fé fólks sem geymdi peninga sína í bankanum. Þú tókst eina krónu að láni og skilaðir 0,004 kr til baka eftir tíu ár eða 0,002 kr eftir 20 ár. Verðtryggingin tryggir að til eru peningar í bankanum til að lána okkur. Til lengri tíma hefur fasteignaverð vaxið hraðar en höfuðstóll verðtryggðra lána (frá 1946 til 2006 nítjánþúsundfaldaðist íbúðaverð). Fram til 2008 óx kaupmáttur launa hraðar en höfuðstóll verðtryggðra lána. Hrunið skapaði þá kreppu sem við nú erum í. Auðvitað væri æsklegt að losna við verðtryggingu en meira en hálfrar aldar tilraunir til að stjórna með sjálfstæðri mynt gefa ekki góða von um framhaldið.

 • Ómar Harðarson

  Það er engin skylda „fjármagnseigenda“ að lána eitt eða neitt. Lífeyrissjóðirnir voru flestir stofnaðir um 1970. Undir lok þess áratugar voru þeir komnir að þrotum, enda höfðu þeir leyft félagsmönnum sínum að taka lán á föstum vöxtum óháð verðbólgu. Verði sliku kerfi komið á aftur munu lífeyrissjóðir loka fyrir húsnæðislán. Bankarnir munu ekki koma nálægt þeim nema þeir verði ríkisvæddir á nýjan leik og stjórnmálamönnum falið það hlutverk að velja hina heppnu lántakendur. Íbúðalánasjóður mun þá þurfa árlegan stuðning úr ríkiskassanum þar sem afborganir munu ekki duga fyrir nýjum lánveitingum.

  Mér sýnist þeir sem hér hafa gagnrýnt færslu Andra Geirs ekki fyllilega gert sér grein fyrir því að fólk og líka fjármagnseigendur greiða atkvæði sitt með fótunum. Ef á að þvinga einhvern til að tapa fé, þá er eins gott að hann eigi engra annarra kosta völ. Það er gert í Norður Kóreu og auðvitað er það hægt líka á Íslandi. Ég held þó að í slíku þjóðfélagi vilji enginn lifa, hvorki hinir „heimsku, þröngsýnu og siðblindu“ né þeir sem vilja allskonar fyrir alla lántakendur.

 • Okkar gjaldmiðill er verðtryggð króna. Til að afleggja verðtryggingu þarf stöðueika en hann er ekki fyrir hendi hér og það mun taka a.m.k 10 ár að byggja upp traust á íslenskri hagstjórn og þá má ekkert fara úrskeiðis. Skilyrðin þurfa að vera í ætt við Maastricht skilyrðin:
  Skuldir ríkisins komnar niður í 60%
  Halli á ríkissjóði innan við 3%
  Verðbólga í kringum 2.5%

  Vandamálið er fyrsta skilyrðið, hagvöxtur þarf að vera yfir 2.5% svo hægt sé að lækka skuldir. Ef við festumst í hagvexti í kringum 1.5% lendum við í „Japan“ ástandi, skuldir munu bara hækka og erlend fjármögnun verður ómöguleg. (Í raun verður ástandið verra en í Japan)

  Nú er hagvaxtaspá fyrir 2011 aðeins 0.5%, þannig að enn er langt í land.

  Fyrir þá sem finnst að fjármagnseigendur séu að ræna alþýðuna bendi ég á Karl Marx og hans kenningar. Hvort það er stemning að taka upp sósíalíska hagkerfi þar sem öllu er stýrt af opinberum aðilum læt ég aðra um að ræða.

  Það hafa fáir getað bent á betra kerfi en hið ófullkomna og vandmeðfarna kapítalíska markaðskerfi, sem annars okkar nágrönnum gengur ágætlega að hemja.

  Ætli ástæðan sé ekki frekar að höfum hvorki þekkingu, reynslu eða aga til halda úti almennilegu kapítalísku kerfi. Árinni kennir illur ræðari

 • Því miður snýst íslensk efnahagsstjórn um allt annað en raunveruleikann.

  1) Hver er raunverulegt markaðsvirði eigna í þessu ástandi? Varla er raunvirðið 3 falt hærra en árið 2000 eða hvað? Hvað er 100% lán 80% eða 60% lán?
  120%, 200% eða 300% lán eru alls staðar á ofurvöxtum ef þá þau eru í boði.
  Skuldastaða margra einstaklinga og heimila er því miður þanning að þeir fengju ekki einu sinni kredittkort eða væru yfir höfuð æskilegir sem viðskiptamenn banka á Norðurlöndum.
  Markaðsverð eigna er órofanlega tengt kaupmætti og það er í raun regla sem gildir alls staðar. Frá 2000 til 2008 jókst kaupmáttur launatekna um 25% og núna er hann kominn niður í það sem hann var um 2002 á sama tíma næstum 4 faldaðist eignaverð að raunvirði í sérbýli þeas verðið hækkaði um 400% að raunvirði og núna er það yfir 3 falt hærra eða 300% hærra að raunverði meðan tekjuaukningin hefur gengið til baka. Við bætist atvinnuleysi sem á eftir að stóraukast, offframboð á húsnæði bæði vegna húsbygginga eins fólksflótta, stórlækkuðum rauntekjum og háan vaxtakostnað.
  Augljóslega verður ekkert lánað í húsnæði með þessum skilyrðum og verðið á eftir að snarfalla enda get ég ekki skilið að heilvita fólk sé að kaupa húsnæði á Íslandi á þessum kjörum enda Ginnungargap milli væntinga seljenda og kaupenda. Veðhæfni er fyrst og fremst bundin við raunverð.

  2) Klárlega verður ekkert lánsfé í boði á Íslandi enda gríðarleg áhætta og augljóslega mun flæða fé og fólk úr landi.

  Hagstjónin byggist á því að handskrúfa upp gengið og og handstýra lækkun vaxta en því miður þetta dæmi gengur ekki ekki upp enda er þetta sýndarraunveruleiki sem er í raun fjármagnaður með lánum og aðstoð IMF og norrænna ríkja.

  Skuldastaða ríkissjóðs er óleyst. Ekkert gáfulegt heyrist hvorki frá hægri eða vinstri, hvar á að skera niður? það þarf gríðarlega drastískan niðurskurð við höngum á bjargbrúnninni á fingurgómunum og blátánnum og hrapið verður hátt og þá liggjum við margbrotinn eftir
  Fjármálakerfið er reist á sandi og klárlega mun það falla saman eins og spilaborg, og loftinu er haldið í fasteignamarkaði sem er í raun enginn markaður þetta er í raun skiptimarkaður og uppboðsmarkaður þar sem kröfuhafar kaupa eignir á yfirverði til að halda uppi veðhæfni.

 • Þessi tillaga Hagsmunasamtaka heimilanna hefði mögulega verið leið til að taka á tímabundnum vanda þegar ný stjórn tók við eftir síðustu kosningar sem tímabundin áætlun til 3gja ára á meðan þjóðin leitar sér að framtíðarstefnu í fjármálum. Nú er þetta of seint að mínu mati. Tími til reddinga er liðinn. Alvöru peningastefna er eina sem gildir og í henni á verðtrygging ekki heima. Þar sem ESB aðild virðist manni eina raunhæfa leiðin er valið einfalt í fjárhagslegu tilliti. Krónan er einfaldlega aukaskattur sem við getum verið án. Hagsmunir heimilanna krefjast góðra aðildarsamninga við ESB.

 • Jóhannes

  Grein Andra og flestar athugasemdir snúa í raun að því hvernig unnt sé lítilli þjóð að lifa við ónýtan gjaldmiðil. Verðtryggingin og gjaldeyrishöftin eru vissulega afar slæm, en einungis dæmi um nauðsynlegar sértækar aðgerðir til að halda úti ónýtum gjaldmiðli við veika efnahagsstjórn.

 • Við höfum 3 höfuð tímaskeið krónunnar
  1 tímaskeið 1930-1960 Haftaskeiðið, tímabil hafta, skömmtunar, pólitískrar greiðasemi.
  2. tímaskeið verðbólgu og ofurverðbólgu fra 1970 – 2000 sem náði hæstu hæðum í kringum 1983 var þá talvert yfir 100%. Það er tímabil heilalausra fjárfestinga enda er um að gera að koma hverjum eyri í eitthvað handfast.
  Aukið peningamagn í umferð skapar ekki aukin verðmæti. Verðmætin halda sínu gildi en kosta bara meiri fé. Það voru tekin 2 núll aftan af gjalmiðlinum.

  3. Frá 2000 – 2008 tímabil ofurkrónunar, gríðarlegra framkvæmda (á lánsfé) tímabil ofurfjárfestingar, ofurbjartsýni á þessu tímabili 4 faldaðist raunverð sérbýlis á Íslandi.
  Þetta er tímabil skuldsetningar og á þessu tímabili voru verstu hagfræðilegu mistök Íslandssögunar gerð. Einkavæðing bankanna var í raun 2002/2003 og margir telja að þeir hafi í raun verið dauðadæmdir þegar 2006 en hrunið varð 2008.

  Frá 2008 tímabil hafta og skömmtunar og núna erum við í raun gjörsamlega háð erlendum lánveitendum enda getum við haft orðið skuldadrottin yfir þá meðan við verðum skuldaþrælar enda verður erfitt að fjármagna eitthvað vitrænt.
  Við þurfum að byggja upp traust á okkur og það tekur tíma, blóð og strit. Það þarf óaðfinnanlegan rekstur ríkissjóðs og sameiginlegt átak þjóðarinnar. Eitthvað vitrænt plan um einhverja framtíð enda verður það óskaplegt að veltast um á örmynntinni krónunni þegar hún verður loks komin á flot. Það að handskrúfa upp gengi og handlækka vexti er vitfyrra því miður enda rekst hagkerfi ekki á sanngirni eða réttlæti ef einhver skyldi nú ætla það.

 • Hvernig væri það ef við ekki bara handstýrðu genginu að við gætum líka lögbundið vexti já 1% án verðtrygginar, lögbindum verð á húsnæði, bönnuðum atvinnuleysi. Hækkuðum atvinnuleysisbætur um 100% og lægstu laun um 200% ofl. ofl.
  Af hverju gætum við ekki bannað eldgos, slæmt veður, offitu, slæmt skap ofl.

 • Adda Sigurjósndóttir

  Ég er sammála þér að vaxtaprósentan hjá HH er of lág miðað við núverandi aðstæður en hugmyndirnar eru ekki slæmar. Það verður að finna jafnvægi milli áhættu lántakenda og fjármagnseigenda. Með vísitölunni eins og hún er þá borgar sig fyrir fjármálastofnanir að halda verðbólgu og þennslu uppi. Kerfið mun því alltaf leita þangað og fjárfestarnir sem lána munu frekar verða áhættufjárfestar í leit að skjótfengnum gróða. Við þurfum að setja þak á þetta, spurningin er hvar það á að vera í byrjun og hvernig á svo að lækka það. Tryggja þarf eðlilega skiptingu á áhættunni og tryggja sparifjáreigendum og fjárfestum eðlilega ávöxtun lánsfjár. Mér vitanlega má alveg lækka hámarkslánshlutfall frá því sem var. Því annars vex aftur hættan á bólumyndun. Eðlilegat væri að setja þak á verðtrygginguna, þ.e. hafa einhver vikmörk sem leyfilegt er að fara og sömuleiðis á vextina.

 • Höldum til haga að peningaeignir fyrir á annað þúsund milljarða töpuðust í hruninu. Ríkið ákvað síðan að bæta fjármagnseigendum tap sitt að fullu. Í því ljósi er meira en sjálfsagt að þetta fjármagn rýrni eitthvað næstu 1-2 áratuginna eða svo, ef það bætir stöðu heimilanna.

  Og já, ég veit að fjármagnseigendur eru líka heimilin í landinu, eldra fólk sem hefur sparað og sparað alla ævi o.sv.fr. En þetta fólk á minnsta hluta fjármagnsins og situr ekki í stjórnum lífeyrissjóða þar sem ákvarðanir eru teknar um fjárfestingar sem samrímast meira hagsmunum sérhagsmunaklíku SA en hagsmunum eigenda sjóðanna.

 • Þakka góðar athugasemdir. Eitt hefur þó gleymst og það er að ef þak er sett á ávöxtun fjárfesta á bréfum Íbúðarlánasjóðs og ríkisins, þá mun fjármagnið leita beint í fasteignir og það er mikið fjármagn fast hér á landi. Þetta mun sprengja upp íbúðarverð sérstaklega á smærri eignum, 60-100 fm íbúðum sem er auðvelt að leigja. Þar með er nýjum vanda velt yfir á ungu kynslóðina, það sem hún sparar í vaxtaprósentu tapar hún í hærra verði.

  Þak á vexti mun því líklega hækka leiguverð og gera ungu fólki enn erfiðara að eignast sína fyrstu íbúð.

 • Við erum þrjúhundruð þúsund manna örmarkaður og þess vegna er krónan örmynt. Allir helstu fjárfestar landsins eru orðnir til vegna lagasetningar (lífeyrissjóðirnir). Lífeyrissjóðirnir hafa lögbundnar tekjur, sem sagt handstýrðir. Sextíu milljarðar á ári. Húsnæðislánasjóður eru handstýrður og ríkisfjármagnaður. LÍN sömuleiðis. Þetta er meira og minna allt handstýrt. Tal um frjálsan markað og arðsemiskröfur og framboð og eftirspurn eru draumórar á Íslandi. Úr slíkum draumórum var hrunið ofið.

 • Jóhannes

  Það er oft einfaldast að horfast í augu við kjarna vandamálsins.

  Verðtrygging er gróft tæki til að draga úr skaða verðbólgu vegna ónýtrar krónu.

  Gengishrunið varð vegna ónýtrar krónu.

  Gjaldeyrishöftin eru vegna ónýtrar krónu.

  Tillögur HH eru handsstýringarhugmyndir til að til lausnar á slæmum afleiðingum ónýtrar krónu.

  Hugmyndir Árna Páls um umbreytingu allra íbúðalána í ISK sem og mismunun fyrirtækja og einstaklinga í kjölfar gengisdómanna eru í kjarnann afleiðingar ónýtrar krónu.

  Margt fleira mætti taka til.

  Hvernig væri að einbeita sér að kjarna vandamálsins?

 • Andri Geir.
  Ef við setjum þakk á þetta verðtryggingunna, skapar það aga á þjóðfélagið og fjármagnseigendur.
  Sú spurnig sem fjármagnseigendur verða að svara, er. EF það kemur annað 15-30% verðbólguskot,er einfaldlega grundvelli íslensks þjóðfélags brostin, og þá munu fjármagnseigendur tapa öllu ekki smá heldur öllu.
  Mér finnst fólk sem talar um að það megi ekkert gera til að rétta hlut fólks eftir hrun, vera fólk með mikla mannfyrirlitningu. kerfið sem fólk er að verja er bara bull sem engin nema innanbúðarfólk og svindlarar geta spilað eftir. þetta kerfi er ekki gert fyrir venjulegt fólk.

 • Albert,
  Ef hagstjórn hér er með góðum hætti þarf ekkert þak, þakið er vegna þess að það ríkir vantraust á Seðlabankann og stjórnvöld. Þak eitt og sér skapar engann aga, þvert á móti, það sker stjórnvöld úr snörunni og þeir geta velt vandanum yfir á fjárfesta og haldið kjósendum ánægðum.

  Það var ekki kerfið sem brást, heldur þeir einstaklingar sem stjórnuðu því og misnotuðu. Besta hjálp fyrir almennning er að fá óháð fagfólk sem vinnur að því að koma hér á öflugri og stöðugri hagstjórn. Stjórnmálastéttin hugsar fyrst um sig, svo flokkinn og síðast kjósendur.

  Hlutur fólksins verður aðeins réttur með því að skipta út öllum þeim einstaklingum sem brugðust. Allt annað er einfaldur plástur á svöðusár.

  Fjárfestar sem búast við öðru verðbólguskoti koma sér í fasteignir eða jarðir. Sama hvað skeður þá standa jarðir alltaf fyrir sínu.

 • andri Geir.
  Það verður víst að setja þak, þar sem hvort sem er, fjárfestar eða stjörnvöld hafa ekki stjórn á ástandinu. Það verður að færa höfuðstólinn í það sem hann var í byrjun 2008.
  Fjármagnseigendum var bjargað á kostnað almennra borga með því að borga í sjóðum sem voru ekki lög tryggðu innistæður þeirra.
  Ef það eru til fjármunnir til þess að fella niður 500milljóna króna lán, stjórnamanna í skilanefndum og vinum þeirra, eru til fjármunir til að laga stöðu heimilanna.
  Folk er svo fast í sömu sköðunum að það má ekki fara nýjar leiðir.
  í USA hefði verið hægt að láta hvern einasta borgara fá 100þús dollara í staðin fyrir að bjarga bönkunum og þá væri hagkerfið komið á fulla ferð.
  Ef það kemur annað svona svakalegt verðbólguskot, bjarga jarðir ofl ekki fjármagnseigendum þar sem það verða einfaldlega óeirðir, hvort sem mönnum líkar betur eða verr

 • Magnus Björgvinsson

  Bara svona að ítreka það sem margir hafa sagt hér. Svona fullyrðingar eru út í hött: „Mér finnst almennt ávöxtunarkrafa fjármagnseigenda ákveðin tegund af frekju.“

  Fólk getur bara ýmyndað sér ef það ætti einhverjar milljónir til að ávaxta núna. Þá myndi það væntanlega ekki sætta sig við að fá neikvæða ávöxtun á þær. það myndi náttúrulega gerast að fjárfestar, fjáreigendur myndu leita með peninga sína annað en þar sem þeir ávöxtuðust ekki neitt. En það er lík spurning sem margir eru að tala um hvort að 3,5% raunávöxtunarkrafa lífeyrissjóða eru ekki að halda hér uppi allt of háum vöxtum á markaði þar sem að hagvöxtur hér mælist sjaldan meira en 2% og því lífeyrissjóðir í raun farnir að fá sífellt stærri hluta af kökunni sem og að vextir ráðast mikið af þeirra kröfum.

 • Lítil von til þess að Matadorspilarinn Magnús Björgvinsson geti séð frekjuna á bak við ávöxtunarkröfuna.

  Þessi ávöxtunarkrafa viðheldur einmitt kröfunni um ósjálfbæran hagvöxt. Þetta eru margir farnir að skilja, jafnvel akademískt fólk.

 • Eldra fólk oft skilur ekki þennan risa vaxna vanda sem unga fólkið er í dag.

  Við eigum ekki fyrir þessu. Ég tók lán fyrir 45 fm íbúð fyrir nokkrum árum og á ford focus 2005. 10 millur orðið að 20 millum á 4 árum sem ég skulda.

  Ég vann sem rafvirki með 500 þús á mánuði , núna atvinnu laus með 135 þús.

  þegar lánin koma úr frystingu verð ég gjaldþrota og rústa mömmu og pabba í leiðinni sem unni áratugum saman fyrir sínu húsnæði.

  Öllum virðist vera sama , það er bara hlegið að okkur.

  Íslendingar geta verið svo kaldlyndir.

  Ég segji bara eins og allir aðrir , leyfið mér að borga það sem ég tók að láni.
  Ekki þessu stökkbreyttu bull lán.

  Svo tala allir um eigna rétt. Hvað um eigna réttin minn í minni fasteign.
  Bankinn hefur hefur allan réttin að rífa allt af mér , á hverju ári segir hann að ég skulda milljón meira. Sem ég tók aldrei að láni.

  Allt sem ég borga vex ekki neitt. Krónur sem ég borga 2005 eru sömu krónurnar og 2010.
  Það semn ég fékk að láni sama ár vex eins og krabbamain á sterum.

 • krissi – 25.09 2010 kl. 18:28
  „Krónur sem ég borga 2005 eru sömu krónurnar og 2010.“

  Þetta er einfaldlega rangt sem er einmitt stór hluti vandamálsins

 • Skil ekki alveg hvað þú meinar Sjóður.
  Er það rangt sem ég var að segja ?

  Það virðist vera sama attitudið sem mætir flestum í bönkunum.
  Engin samnings vilji. Bara rústa öllu sem þeir komast í.
  Gefa vildar vinum og rýja okkur in að skinni.

  Það virðist vera að það sé að myndast stétt ungs fólks fætt eftir 1980.
  Eignalaust, gjalþrota og það er búið að ræna öllu sem þau áttu að erfa.

  Flýja land eða bylting ?

  Ætli að ég fer ekki til norge , ofbeldi hefur aldrei átt við mig.

 • Allaballi

  Það er alltaf sama sagan, lánasukkararnir vilja níðast á sparifjáreigendunum sem strituðu til að eignast sitt!

 • Allaballi , ég er nokkuð viss að þú ert trölli.

  Gerir þú ekki greinar mun á ungu fólki að reyna koma húsi yfir sig og
  fjármála elitunni sem eru búin að fá þúsundir milljarða afskrifaða?

  Ég hef þurft að taka á mig 1000 milljarða vegna fjármagneiganda í gegnum
  ríkissjóð. það var allt tryggt.

  Þið hafið ekki þurft að borga krónu fyrir mig ennþá………….

 • Allaballi

  Ok, ég var smá að tröllast þarna en samt: Svo vill til að ég er „ungt fólk sem er að reyna að koma húsi yfir mig“ enda var ég að kaupa mér íbúð nýlega en það hefði ekki verið hægt hefði ríkið ekki tryggt spariféð mitt í hruninu, annars hefði ég, téður „fjármagnseigandi“ og láglaunamaður ekki getað lagt neitt verulegt í íbúðina og ekki getað keypt hana (ég hefði aldrei t.d. getað yfirtekið 90%-100% áhvílandi lán á einhverri íbúð því að íbúðalánasjóður hefði hafnað mér vegna lágra tekna minna), væni!
  p.s. og ekki tengja mig við einhverja fjármálaelítu sem fékk skrilljarða afskrifaða!
  En reyndar vona ég að þú fáir skikkanlega úrlausn þinna mála en þær verða að vera raunhæfar, eitthvað sem Andri Geir skrifar um er, en ekki HH og óskhyggja þeirra.

 • Jóhannes

  Krissi, ég þekki fleiri svipuð dæmi og þú átt samúð mína alla. Því miður eru litlar líkur til að þú fáir úrlausn þinna mála enda var skjaldborgin reist um fjármálafyrirtækin og eigendur þeirra, íslenska ríkið og erlenda kröfuhafa.

 • Eyjólfur

  Krissi,

  Innistæður voru alfarið tryggðar á kostnað kröfuhafa í gömlu bönkunum. Eigendur innistæðna og skattgreiðendur hagnast báðir (gríðarlega) á þeim ráðahag.

 • Hvers vegna er verið að breyta erlendum lánum í Íslenskar krónur.
  Jú þannig er komið í veg fyrir að bankarnir séu með gengisáhættu.
  Þetta snýr jafnt að bönkunum og lántökum.
  Það má alls ekki gerast að gengið lagist meðan bankarnir eru svona veikir
  þess vegna er verið að koma erlendu lánunum í krónur svo bankaranir fallir ekki með sterkara gengi.
  Kemur réttlæti ekkert við.
  Einnig fá bankarnir öll 20-40 ára lánin verðtryggð sem voru í erlendu = meiri ávöxtun á kostnað lántaka.

 • Held að vandi okkar sé, að hluta til, sá að undanfarin ár hefur landið verið keyrt á einhverjum hagfræðilíkönum sem eru í tísku, en ekki heilbrigðri skynsemi. Þar hefur Seðlabanki Íslands verið í fararbroddi. Opinberar hagtölur segja ekki allan sannleikann. Hagvöxtur ekki heldur. Vöruskipti og pappírslaus viðskipti hafa eflaust aukist og þannig viðskipti mælast ekki í hagvexti. Það er því ekki ósennilegt að ef allt væri í lagi væri hagvöxtur það líka. Vandi lífeyrissjóðanna, a.m.k. í dag er ekki sá að vextir gætu verið lægri heldur sá að þar hefur verið stunduð óráðsía án eftirlits. Lífeyrissjóðirnir hafa ausið peningum í óarðbærar og vafasamar fjárfestingar sem er andstætt lögum eða a.m.k. ekki í anda þeirra. Eins og hefur komið fram í athugasemdum hér á síðunni fær almennigur í nágrannalöndum okkar aðgang að fjármagni til húsakaupa á hagstæðum vöxtum. Vöxtum sem venjulegt fólk með venjulegar tekjur ræður við. Sú er ekki raunin hér. Það er ekkert venjulegt fólk sem ræður við þá vexti sem hér hafa tíðkast. Held að hagkerfi þjóðarinnar myndi þola að gefa almenningi kost á að húsnæðislán væru á viðráðanlegum kjörum en ekki okurvöxtum. Þetta er spurning um hvort landið hefur efni á að vera með þúsundir fjölskyldna á „vergangi“ eða framfærslu ríkisins í stað þess að þær hefðu von um að geta búið í eigin húsnæði. Í mínum huga eru tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna góðar og í anda við það sem þarf að gera til að stór hluti heimila í landinu lendi ekki í fátæktargildru og á framfærslu ríkis.

 • Á Íslandi hefur í raun verið hefð að stýra eftir hagstjórn Lísu í Undralandi og af hreinræktaðri óskhyggju og heimsku.
  Íslenska hagkerfið er eins og lítið fiskabúr og það sem einum er gefið er takið af öðrum. Gjaldeyrishömlurnar, handskráða gengið og annað er búið að skrúfa lokið á fiskabúrið sem á síðan að verða sjálfbært og framleiða verðmæti til útflutnings.

 • HF – 26.09 2010 kl. 06:55
  „Held að hagkerfi þjóðarinnar myndi þola að gefa almenningi kost á að húsnæðislán væru á viðráðanlegum kjörum en ekki okurvöxtum.“

  Þetta virkar ekki svoleiðis. Það er óskhyggja að halda að aðrar reglur gildi um fasteignir en aðrar fjárfestingar.
  Fjármagnskostnaðurinn á húsnæðislánum þarf að vera samkeppnishæfur við annað. Ef ekki þá verður enginn peningur í boði á þessum markaði og enginn fær húsnæðislán.

 • Sjóður
  26.09 2010 kl. 09:02 #
  Ég er einfaldlega ekki sammála þér. Held að menn geri ekki nægilega mikinn greinarmun á góðum grundvallarfjárfestingum og öðrum fjárfestingum. Fjárfestingar í húsnæði eru grunnur þjóðfélagsins. Húsnæði hér á landi er góð trygging, það hefur langan líftíma og gegnir veigamiklu hlutverki, að veita mönnum skjól fyrir veðri og vindum í landi með risjótt veðurfar. Með góðu viðhaldi endist þetta húsnæði í öld og jafnvel aldir. Það veitir fólki öryggi og eykur lífsgæði. Fjárfestingar í því ættu að vera á lægstu mögulegum vöxtum og jafnvel niðurgreiddar tímabundið þegar og ef fábjánar, eins og hér hafa verið við völd, kollsteypa hagkerfinu með hreinum aulaskap.

 • HF – 26.09 2010 kl. 09:56

  Ég er sammála því að fasteignir eru með betri fjárfestingum og eiga að vera á lægri vöxtum enda eru hafa allt aðrir vextir verið á fasteignalánum en neyslulánum og kreditkortaskuldum eða yfirdrætti.

  En ok, tökum þetta aðeins lengra. Vextir niðurgreiddir af hverjum?

  P.S. varðandi aulaskapinn þá er hann ekkert síðri hjá „kaupendum“. Menn taka milljónatuga lán með 70-90% veðsetningu til að kaupa fasteignir á uppsprengdu verði af því þeir sem á undan komu sprengdu upp verðið með öðrum eins lántökum. Það fyrsta sem þarf að gera á þessum markaði er að koma veðhlutfallinu undir 70%. Helst undir 60%. Þá fer fasteignaverð á Íslandi að vera raunverulegt en ekki uppblásið af því allir komast í 90% lán en reikna aldrei dæmið til enda. 90% lán verðtryggt til 40 ára er einhver lélegasta fjárfesting sem nokkur maður getur farið út í. Tala nú ekki um ef keypt er ofarlega í fasteignabólu.

 • Grundvallarspurningin er: Hvað er raunverulegt markaðsverð fasteignaverð á Íslandi?
  Markaðsverð fasteigna meira en 3 faldaðist og næstum 4 faldaðist í sérbýli á höfuðborgarsvæðinu að raunverði á tæpum 10 árum var það raunhæft?
  Frá 1994 – 1999/2000 var markaðsverðið nánast óbreytt að raunverði.
  Skráð verð fasteigna núna er meira en 3 falt það sem það var 1999 er það raunhæft. Klárlega er verðinu haldið uppi með skiptimarkaði og í nauðungarsöluferli þar sem lánveitendur kaupa þetta tilbaka á yfirverði.

  Íbúðarverð/húsnæðisverð er augljóslega háð rauntekjum fólks, framboði og eftirspurn og láns
  Hvað er eðlilegt lánahlutfall? Í norrænu nágrannalöndunum er það 2,5 -3 faldar árstekjur heimilis og það er fyrir öllu, bíl, húsi og öðru þar á meðal námslánum. Þetta mun að lokum setja þak á markaðinn.

 • Gunnr – 26.09 2010 kl. 11:25

  Nákvæmlega.

  Í staðin halda menn að sniðugasta hugmyndin sé að allir fái niðurgreitt lán til að viðhalda falsverðinu

 • Sjóður
  26.09 2010 kl. 10:23 #
  Sjóður: Þú hefur ýmislegt til þíns máls en spyrð:
  „En ok, tökum þetta aðeins lengra. Vextir niðurgreiddir af hverjum?“
  Það er svo merkilegt að alltaf þegar það þarf að bjarga eða hjálpa fjármálastofnunum og fjármagnseigendum þá er til nóg af peningum.
  Tökum bara tvö dæmi. Þegar Geir Haarde þurfti að bjarga Seðlabanka Íslands eftir að stjórnendur hans settu hann á hausinn þá þurfti hann ekkert að haardera málið, eins og venjulega. Ríkissjóður pungaði út mörg-hundruð-þúsund-milljónum-króna úr vasa almennigs.
  Það ssama gerðist við hrunið þá þurfti ekkert að haardera málið, eins og venjulega, þegar ákveðið var að ríkissjóður tryggði innistæður í bönkum upp í topp. Innistæðutryggingin var ekki bara hækkuð úr 20 þús.EUR í 50 eða 100 þúsund. Nei þakið var fjarlægt á kostnað almennings í landinu.
  Þegar hins vegar á að gera eitthvað fyrir almenning í landinu eru aldrei til peningar.
  Þú spyrð hverjir borgi, svarið er þeir hinir sömu og björguðu bönkunum og fjármagnseigendum.
  Það er kominn tími til að jafna málin og jafnvel láta almenning hafa forgang.
  Vil taka fram að ég er hér með hættur að ræða málin í bili.

 • @HF
  Almenningur ber ábyrgð á þeim sem stjórna landinu, þeas sitja í ríkisstjórn í gegnum lýðræðislegt kostningaferli og þau mistök sem þeir gera verða á kostnað almennings og einskis annars. Fólk er náttúrlega frjálst síðan að velja sama fólkið yfir aftur eins og 1/3 kjósenda er í raun tilbúin að gera það þrátt fyrir að ekki örlar á iðrun eða þá að fólk yfir höfuð geti viðurkennt eitt eða neitt. Það að gera ekkert og ekki vita eða ekki vera starfi sínu vaxið eru auðvitað mistök.
  Það hefur í raun enginn tekið raunverulega pólitíska ábyrgð á þessu og af þeim tæplega 150 manns sem var fjallað um í rannsóknarskýrlslu Alþingis var enginn, já enginn sem viðurkenndi eitt eða neitt.

  Klárlega er þetta óréttlátt. Skuldakóngar ganga um götur en bankarnir geta ekki gengið að þeim þar sem í raun þeir geta ekki tekið þá til gjaldþrotaskipta þar sem þá færu þeir sjálfir yfirum. Eignarlaus fyrirtæki í glórulausri skuldastöðu eru ekki tekin yfir menn eru að framlengja líf þeirra.

 • Eyjólfur

  HF,

  Neyðarlögin tryggðu innistæður í innlendum útibúum á kostnað kröfuhafa í bankana og engra annarra. Eigendur innistæðna og skattgreiðendur hagnast báðir verulega á þeim.

 • @ Eyjólfur

  Hvernig fór skulda staða Ríkissjóðs úr 5% í 100% að þeir halda á 2 árum ?

  Ég hélt að það út af fjármagns eigundum og sérfræðingum í seðlabankanum.
  Var ekki dælt úr Ríkissjóði til að bjarga öllum þessum sjóðum ?

  Ég greinilega miskilið allan frétta flutning undanfarinn ár.

 • krissi – 26.09 2010 kl. 16:01

  Hérna er sundurliðun á skuldsetningu ríkissjóðs
  http://vthorsteinsson.blog.is/blog/vthorsteinsson/image/975508/

 • Sjóður kl. 16:51. Vilhjálmur kann að draga upp pólitíska mynd að af skuldastöðu ríkissjóðs. Seðlabankinn er 17% meðan icesave er 14%. Icesave er skuld í elendri mynt á meðan 17% gjaldþrot seðlabankans er endurfjármagnaður að mestu í isk. Á þessu er verulegur munur.

  Aðdrættir í gjaldeyrisvarasjóðinn (yfirdráttur) er eingöngu til þessa að opna fyrir sjálftöku innlendra og erlendra spákaupmanna á kostnað almennings. Öll þessi skuldsetnig er vegna og fyrir fjármagnseigendur. Það er fólk eins og Krissi sem blæðir, meðan spákaupmaðurinn græðir. Ert þú í þjónustu spákaupmanna?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sex? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur