Miðvikudagur 06.10.2010 - 21:08 - 11 ummæli

Að eiga fyrir mat

Sú staðreynd að þúsundir manna þurfi að standa í biðröð til að þiggja matargjafir er einhver mesti áfellisdómur á íslensk stjórnvöld sem hugsast getur og sýnir hversu langt Ísland er komið af braut norræna velferðarkerfisins.  Ekki einu sinni í Bandaríkjunum þarf fólk að leggjast svona lágt.  Þar í landi úthlutar hið opinbera öllum sem eiga ekki fyrir mat, svokölluðum „foodstamps“ eða matarkorti. Talið er að um 40 milljónir Bandaríkjamanna notfæri sér þetta úrræði, og segir það kannski margt um misskiptingu í því landi, en er staðan betri á Íslandi?  Lítum aðeins nánar á bandaríska kerfið.  Ég hef hér notað tölur frá New York fylki til viðmiðunar.

„Foodstamps“, er í dag greiðslukort sem fjölskyldur sem uppfylla ákveðin tekju- og eignaskilyrði fá.  Þessi kort virka eins og venjuleg greiðslukort í flestum matvöruverslunum og hægt er að kaupa alla almenna matvöru sem uppfylla ákveðin gildi um hollustu og næringu.

Í dag er tekjumarkið fyrir 4 manna fjölskyldu $2,389 eða um kr. 268,000 á mánuði fyrir skatt.  Þeir sem eru undir þessu marki geta að hámarki fengið $688 eða kr. 77,000 á mánuði til matarkaupa.  Ef fjölskyldan er með ellilífeyrisþega eða örorkuþega á sínum snærum hækkar tekjumarkið upp í kr. 493,000.

Einstaklingar sem eru á örorku og einhleypir ellilífeyrisþegar fá $200 eða kr. 22,000 á mánuði í matarkaup ef heildartekjur þeirra eru undir kr. 200,000.

Miðað við þessar tölur ættu tugþúsundir Íslendinga rétt á matarkorti ef bandarískar reglur giltu hér.  Umhugsunarvert, ekki satt!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (11)

 • Og til að bæta gráu ofaná svart er mikið ódýrara að lifa í usa, matarverð er brot af því sem það er hér, bensín mun ódýrara og húsnæði einnig ódýrara. Ég ferðast nokkuð oft til Florida og það er mjög mikill verðmunur á nánast öllu. Það er því ólíku saman að jafna að fá 77.000 á mánuði til matarkaupa þar eða hér.

 • Áfellisdómur?

  Nú sjáðu til maður góður, þingmaður úr vitlausum flokki gangnrýnir harkalega ráðherra úr réttum flokki fyrir mannvonsku í garð þeirra sem eiga undir högg að sækja vegna atvinnuleysis og fátæktar.

  Vitleysingarnir úr rétta flokknum ráðast af einstakri lágkúru á þingmanninn úr vitlausa flokknum fyrir að segja satt.

  Með slíkan stuðning þá skiptir varla máli fyrir vont fólk þó eitthvað undirmálspakk bíði í biðröðum eftir mat.

  Meira að segja í hægra landinu Bandaríkjunum koma stjórnvöld ekki eins illa fram við almenning eins og helferðarstjórn vinstrimanna á Íslandi.

 • Nei sko, þú misskilur, eins og Davíð Oddsson sagði við skýrslu Hörpu Njáls 2003, þá er fátækt á Íslandi ekki til og Íslendingar hafa alltaf verið ginnkeyptir fyrir því sem er ókeypis, ekki satt, ekki satt?

 • Þetta er hárrétt hjá þér Andri Geir og í raun erum við miklu svakalegri subprime bólu en Bandaríkjamenn með gríðarlegri eigna og skuldabólu sem mun springa með hvelli.

  Efnahagsleg staða margra er hrikaleg og fá breið bök og gríðarlegur niðurskurður stendur fyrir dyrum. Ástandið mun verða miklu mun hrikalegri en það var í Finnlandi við getum auðveldlega lennt í þessu sama ferli og var í fyrrum Sovétríkjunum þegar allt hrundi þar.

  Kollektíf heimska landans virðist nánast ótrúleg og það er ekkert sem heitir „free lunch“ fólk býst við að einhver komi og hjálpi þeim en enginn mun koma.

 • Torfi Hjartarson

  Mér skilst að það teljist til mannréttinda að geta skilað lyklum að íbúðum og farartækjum í Bandaríkjunum ef menn geta ekki staðið í skilum – enda afnámu þeir þrælahald 1863.
  Á Íslandi er fólk í sömu stöðu hins vegar hundelt árum saman í gegnum persónulegar ábyrgðir og ábyrgðarmenn enda hafa vistarbönd og ánauð leiguliða aldrei verið afmáð úr hugarfylgsnum íslenskra stjórnmálamanna.
  Það er stórmerkilegt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem hefur höfuðstöðvar í Washington DC skuli ekki hafa gert athugasemdir við bandarísku lyklalögin. Er andstaðan við lyklafrumvarp Lilju Mósesdóttur kannski eingöngu bundin við áráttu-þráhyggjuröskun innfæddra stjórnmálamanna?

 • Gunni gamli

  Lyklafrumvarp Lilju Mósesdóttur er þarft og nauðsynlegt en kemur nokkrum árum of seint. Þau lög, ef verða, geta ekki virkað á þau lán sem tekin voru fyrir lagasetninguna. Það er eins og fólk skilji ekki að það er sorglega lítið sem löggjafavaldið getur gert til að laga réttarstöðu fólks gangvart þeim lánum sem tekin hafa verið. Aðeins Lánastofnanirnar geta veitt afskriftir eða niðurfellingar af lánum. Ef það yrði gert með valdboði yrði Ríkissjóður skaðabótaskyldur

 • Augljóslega hafa þeir sem lagt hafa til lyklafrumvarp mikið til síns máls enda mun hér myndast stétt gjaldþrota og eignalausra einstaklinga sem verða að óbreyttu í ævilangri skuldaánauðn.

  Lyklafrumfarp mun augljóslega setja algjört þak á lántöku og það mun krefjast gríðarlega aukins eiginfjárshlutfalls við íbúðarkaup og kæla gaddfreðinn íbúðarmarkað og augljóslega mun þetta auka á verðfall húseigna og í raun enn frekar rýra eignarfjárstöðu heimila og banka.

 • Adda Sigurjónsdóttir

  Lyklafrumvarpið ætti að keyra í gegn jafnvel þó að það komi ekki til góðs þeim sem þegar hafa tekið lán. Þessi lög myndu skapa fordæmi og ýta á almenning sem ekki er kominn í vandræði að skuldbreyta yfir í ný lán með þessum réttindum. Ástæða þess að tafarlaust á að samþykkja lögin er sú að þau eru mannréttindi. Fjöldinn allur hefur ekki hugmynd um það að þegar þau taki lán með veði í fasteign þá sé jafnframt hægt að ganga að öllu þeirra lífi í áratugi og það megi ekki einu sinni eiga debetkort.

 • Einmitt Alda en allar aðgerðir valda vanda og þessi stöðuga óvissa vefst um fætur okkar:

  1) Lagaleg staða „neyðarlaganna“ með gjaldfalli bankanna er óljós og þau standast tæplega íslensku stjórnarskránna og ef þau falla þá eiga í raun erlendir kröfuhafar bankanna nær allar húseignir, fyrirtæki, kvóta á Íslandi. Þanning að ef illa fer getur ömurleg staða orðið vonlaus og ég óttast að það sé í raun ástæða þess að svona lítið hefur gerst.

  2) Ef við „neyðarlögin“ halda þá mun þetta augljóslega valda hruni á fasteignamarkaði og rýra virði allra eigna á Íslandi og grafa undan veðhæfni bankanna þanning að þeir þurfi meira fé úr ríkissjóði fjármagagnað af skattborgurum þessa lands.
  Góðverk eins og Lyklafrumvarp er því eins og allt annað fjármagnað af Íslendingum.

 • Áhugaverð færsla Andri Geir… svo ekki sé meira sagt. Óábyrg bankastarfsemi í skjóli stjórnmálamanna gerði Ísland gjaldþrota.. Einfalt.. Ef þetta þjóðfélag á að verða aftur ,,eðlilegt“ þá þarf að afskrifa duglega.

 • Nú er mér sagt að Stöð 2 hafi tekið þetta upp og notað tölur úr þessari færslu. Það er bara gott mál, en þið heyrðuð fyrst um þetta hér á mínu bloggi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og tveimur? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur