Laugardagur 09.10.2010 - 12:59 - 22 ummæli

Heilbrigðishrun

Tveimur árum eftir bankahrunið stefnir í hrun heilbrigðisþjónustunnar á landsbyggðinni.  Reynsla annarra þjóða sýnir að heilbrigðisstofnanir þola ekki 20% niðurskurð, þjónustan einfaldlega hrynur.

Það er engin tilviljun að Bretar ætla ekki að skera niður í heilbrigðisþjónustu hjá sér í þessari kreppu, allt annað verður skorið niður meira.  Þeir vita af bitri reynslu að flatur niðurskurður upp á 10% er „lífshættulegur“ í heilbrigðisgeiranum, eins og gerðist um 1990 þegar stjórn íhaldsflokksins skar niður, og það tók stjórn verkamannaflokksins 10 ár að byggja kerfið aftur upp, 1 ár fyrir hvert 1% í niðurskurði!   Þetta lærðu menn þá og eru vitrari í dag.

Því miður þrjóskast Íslendingar við að læra af reynslu annarra þjóða, óvitarnir við Austurvöll og á Arnarhvoli vita allt best!

20% niðurskurður sem er boðaður úti á landi og í engu samráði við Landspítalann, að því er virðist, er hreinlega dauðadómur yfir þessum stofnunum.  Það mun taka heila kynslóð að byggja heilbrigðisþjónustuna aftur upp úti á landi ef þetta fer í gegn, ef þá einhverjir verða enn búsettir fyrir utan höfuðborgarmölina.

Ef nauðsynlega þarf að skera niður um 20% er betra að loka tveimur stofnunum og halda hinum gangandi.  Þetta er auðvita ekki auðvelt, en er margfalt betra en að rústa öllu kerfinu.  En því miður, eru það ekki heilbrigðissjónarmið sem gilda hér, heldur hrá landshlutapólitík, enginn vill að lokað sé hjá sér, því er betra að fórna öllu kerfinu, a.m.k eru allir þingmenn þá í sama sökkvandi báti.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (22)

  • Hefur ekki fólki fækkað um sem nemur þessum 20% víða á landsbyggðinni, eða amk. einhver fækkun á fólki sem þarf að þjónusta?

  • Kristín,
    Eins og ég sagði er betra að loka og sameina stofnanir en að beita flötum niðurskurði. Þú rekur ekki sjúkrahús með hálfum skurðlækni eða mannar vaktir 80% af tímanum. Flestar sjukrastofnanir úti á landi eru reknar með lágmarksmannafla, allur niðurskurður fer beint í skerta þjónustu.

  • Andri Geir, hvað eigum við að gera?
    Engin vill láta skera niður hjá sér, en samt eru vaxtagreiðslur ríkisiins komnar í 15-17%.
    Hvað gerist eftir 1-4ár ef vaxtagreiðslurnar hækka kannski yfir 20%?
    Spyr sá sem ekkert veit.

  • Jakob Bjarnar

    Já! Hvað þarf til að þeir fari að rassgatast til að taka til hjá sér? Og skera niður þarfleysuna. Neinei, þess í stað er verið að dekra við eigin siðferðisannmarka með að setja upp Fjölmiðlastofu! Af hverju í ósköpunum er verið að skera niður í heilbrigðiskerfinu meðan við horfum á, sem dæmi, 85 milljónir ætlaðar í eitthvað fullkomið nonsens eins og Jafnréttisstofu?

    Sláum skjaldborg um hjúkkur, kennara og löggur – og skerum hitt draslið niður. Helst blóðug uppað öxlum hvað varðar hina gagnslausu yfirstjórn sem skv. skýrslu rannsóknarnefndar alþingis eru getulausir eymingjar upp til hópa. Hvað höfum við að gera með allan þennan sæg af sýslumönnum? Getur einhver sagt mér það? Ég hef heimildir fyrir því að það hafi verið tekið upp hjá samtökum sveitarstjórna og menn þar lagst eindregið gegn niðurskurði þar. Af hverju? Jú, skattur til sveitarfélaga myndu lækka! Þetta er svipuð glórulaus firring gagnvart ríkisrekstrinu og lýsir sér í því að segja, líkt og Lilja Mós hefur sagt, að það borgi sig ekki að segja upp opinberum starfsmönnum því þá fjölgi bara á lista yfir atvinnulausa!

    Hvað er þetta eiginlega? Vaknið þarna þingmannasauðir!

  • Kerfið er bólgið og fjárfesting í sjúkrahúsum, búnaði og þess háttar víða álandsbyggðinni alve galin.

    Auðveldlega má spara.

    Á norðurlöndum þekkist ekki slík fjárfesting í smábyggðum sem hér.

    Sjálfsagt að skera þetta niður og það er alveg gerlegt án þess að rústa heilsugæslu og þjónustu við íbúa.

  • Ef horft er á útgjöld Ríkisins og hlut heilbrigðis- og tryggingakerfisins þar er ljóst að þar þyrfti að spara til að ná einhverjum verulegum árangri í rekstri ríkisins. Landspítali hefur gert vel á þessu ári og árangur þar heldur ekki látið á sér standa. Það er því ótrúlegt að þetta séu virkilega þar tillögur sem koma frá ráðuneytinu nú 2 árum eftir hrun um sparnað í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Engin greining á afleiðingum svona tillagna frekar en fyrri daginn.

  • Sæll – takk fyrir ágæta pistla.
    Hér ertu reyndar á villigötum. Augljóslega er ekki á ferðinni flatur niðurskurður þegar niðurskurðarprósentan er frá 2%-40% Átta mig ekki á hvernig þú færð út að þetta sé flatur niðurskurður. Ef þú kynntir þér svo forsendur niðurskurðarins ættir þú að sjá að þarna er hugsunin sú að framboð á sjúkrarýmum sé sambærileg um allt land miðað við mannfjölda og greiðslur fyrir hvert rými samræmdar. Þetta má sjá á vef heilbrigðisráðuneytisin. Þetta virðist skynsamleg stefna til framtíðar en að líkindum er of bratt farið á einu ári.

  • Gunnar Skúli Ármannsson

    Sæll Andri, þú ert sennilega að fara fram á of mikla skynsemi.

  • Hreinn Hjartarson

    Vandamálið við ríkisreksturinn er ekki á landsbyggðinni. Vandamálið er ofvöxtur þess á höfuðborgarsvæðinu. Vöxtur í opinberri þjónustu á höfuðborgarsvæðinu er um 50 % á síðustu 10 árum.
    Landsbyggðarfólk getur vel tekið á sig flatan 5% niðurskurð í heilbrigðiskerfinu.
    Ríkið er að eyða stórfé í skemmtanalíf borgarinnar og ekkert má skera þar niður þar, og er frekar bætt í.
    Ríkið ætlar að byggja 30-50 milljarða sjúkrahús sem ekkert er með að gera.
    Ekki get ég séð að utanríkisþjónustan sé að auka útflutningstekjurnar okkar, þar mætti skera niður sömu % og sjúkrahúsþjónustu á Húsavík eða 85%. Engin tæki eftir því nema nokkrir stjórnmálamenn á eftirlaunum.

  • Gera menn sér grein fyrir því hversu stórar þessar heilbrigðisstöðvar voru orðnar t.d. á Húsavík?

    Þetta er skipuritið frá því fyrir 5 árum síðan:

    http://www.heilhus.is/images/Mynd_0103034.gif

  • Hreinn Hjartarson

    Sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu fá ca. 200.000 kr á íbúa meðan Heilbrigisstofnun Þingeyinga fær um 100.000 kr á íbúa. Auðvita eru flóknari aðgerðir fluttar frá HÞ og breytir það myndinni eitthvað, kostnaður á legudag eru þó með því lægsta hjá HÞ sem þekkist á landinu og miklar vegalengdir eru innan sýslunnar sem gerir íbúunum erfitt að sækja þjónustu annað.
    Sárt er að vita að skattpeningum okkar er varið í ýmislegt bruðl í höfuðborginni svo sem skemmtanir, listamannalaun og fl. á sama tíma og sjúkrahúsið hér er skorið inn að beini.

  • Anna,
    Að meðaltali er niðurskurðurinn 20%, aðeins 2 af 13 stofnunum fá niðurskurð innan við 10% og báðar eru á Vesturlandi.

  • Kristinn M Jónsson

    Eftir þennan lestur. http://marinogn.blog.is/blog/marinogn/entry/1104255/
    er ekkert skrýtið að það sé Heilbrigðishrun sem og önnur hrun.
    Er málið ekki sára-einfalt ? Það eru ekki til peningar til að reka heilbrigðiskerfið sem og önnur kerfi á vegum ríksins svo mynd sé á. Island er í raun gjaldþrota, við verðum að fara að viðurkenna það og vinna út frá þeirri staðreynd..

  • bjarnveig

    Þessi pistill eitt það gáfulegasta sem sett hefur verið fram í umræðunni um sparnað í heilbrigðiskerfinu. Það getur þurft jafnmikinn mannafla til að manna næturvakt á 2 rúma deild og 20 manna. Þannig að betra er að loka einhverjum sjúkrahúsum en að krefjast allt að 40% niðurskurðar í sumum tilfellum. Er þeirra skoðunar að við þurfum ekki öll þessi litlu sjúkrahús en sum þeirra eru lífsnauðsynleg. Svo þarf líka að skoða kostnað við flutning á sjúklingum milli landshluta og ferða ættingja og vinnutap.
    Einnig hefur eilíflega verið kvartað um mikið vinnuálagog þrengsli á FSA og Lansanum og hvernig eiga þau sjúkrahús þá að geta fjölgað legurýmum og tekist á við lengri legutíma þar sem ekki er hægt að senda sjúkling á heimasjúkrahús um leið og bráðustu meðferð er lokið.

  • Kristinn,
    Sem norrænt velferðarríki er Ísland löngu gjaldþrota, og hafði kannski aldrei burði til að vera eitt af Norðurlöndunum, þetta var allt fengið að láni eða gefins eins og menn heimta núna.

    Við erum núna eins og illa rekið Miðjarðarhafsland sem ekki á fyrir norður-Evrópu standard í heilsugæslu, menntun eða húsnæði.

  • Hreinn Hjartarson

    Við erum með ein 10 sjúkrahús á höfuðborgarsvæðinu, hvernig væri að loka einhverju þeirra t.d. sjúkrahúsinu á Akranesi sem er í rétt rúmlega 30 km fjarlægð frá Reykjavík. Ef við höfum ekki efni á að reka sjúkraþjónustu í því húsnæði sem við höfum, þá ættum við ekki að eyða milljörðum í nýtt húsnæði eins og stendur til. Betra væri að sérhæfa sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu.

  • Friðrik Sig

    Ég tek undir með Jakobi Bjarnar skerum og skerum og skerum blóðidrifin ef við verjum heilsuna, öryggi borgara og fræðslumálin. Efast reyndar um að við þurfum 8 háskóla en það er önnur saga. Utanríkisþjónustuna verður ekki bara að skera heldur úrbeina algjörlega.

  • Guðrún Bryndís

    Heilbrigðisstofnanir voru ekki byggðar upp til að byggja upp atvinnustig, heldur vegna þess að fólk veikist eða fæðist. Dýrusta þjónustan er á LSH, vegna þess að þar er mannfrekustu aðgerðirnar framkvæmdar. Starfsemin byggir á starfsfólki ekki byggingum, því virðist ansi oft ruglað saman í umræðunni.

    Í desember í fyrra gaf ráðuneytið út skýrslu um endurskipulagningur sjúkrahúsþjónustu á suðvesuthorninu, þar var gerð kostnaðarábatagreining sem byggði á því að loka skurðstofum og þarmeð fæðingaþjónustu á LSH. Legudeildir héraðssjúkrahúsanna væru notuð sem n.k. útibú LSH og sjúklingar ferðast á milli hundveikir.

    Ég vann minnisblað fyrir sass upp úr þessari skýrslu (sjá frétt frá 29.06.10 á sass.is). Það mætti kalla reikniaðferðirnar óvenjulegar eða þversagnakenndar sem er stuðst við til að sýna fram á sparnað með því að loka þjónustu á héraðssjúkrahúsum og auka á rekstrarhagræði LSH. Það kemur fram í skýrslunni að skurðstofur þessara fjögurra héraðssjúkrahúsa afkasta um helming þess sem LSH framleiðir á þriðjungi af kostnaði.

    Það er undarleg tímasetning að búa til þrýsting á að byggja Háskólasjúkrahús núna þegar ekkert má útaf bregða.

  • Hreinn Hjartarson

    Listir og framlög til safna eru upp á 5000 milljónir í fjárlögum, þar af ca. 400 milljónir í listamannalaun. RÚV fær 3000 milljónir hvað skildi kostnaður INN vera fyrir jafn góða dagskrá.
    Það er víða hægt að skera

  • Andri
    Svo að meðaltali er flatur niðurskurður???
    Þetta eru nokkuð sérkennileg rök.

  • Haukur Kristinsson

    Ójafnvægi í byggð landsins er ein af rótum vandans, rekja má jafnnvel hrunið til þess. Í áratugi hefur verið vakið athygli á þessu og þingmenn hvattir til að spyrna á móti, en ekkert gerðist. Ástandið fór og fer stöðugt versnandi. Þingmenn og fjölskyldur þeirra eru nær undantekningarlaust búsettir á höfuðborgarsvæðinu og vilja ekki annars staðar vera. Hægt væri að dreifa ríkisstofnunum um allt landið ef vilji væri til, en hann er það ekki.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og einum? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur