Fimmtudagur 02.12.2010 - 09:53 - 14 ummæli

Einkavæðing að hætti Íslendinga

Sjalda hefur einni þjóð tekist að umbreyta stórkostlegum forfeðra arfi í eina allsherjar skuldasúpu sem síðan á að afhenda næstu kynslóð á uppdekkuðu silfurfati án skýringa.  Hér er Ísland í sérflokki eins og í svo mörgu öðru.

Íslensk einkavæðing er víti til varnaðar.  Hún mun skipa sér sess í sögubókunum og í fjármálafræðum sem dæmi um hvernig einkavæðing getur orðið að martröð.

En svona hefði ekki þurf að fara ef aðeins Íslendingar hefðu lært af reynslu annarra þjóða.  En einhvern veginn er þeim það ómögulegt.  Hitt er enn furðulegra að eftir aðra eins hörmung og íslensku einkavæðinguna, þá virðist lítil stemning fyrir að rannsaka hvað fór úrskeiðis og læra af mistökunum.

Það er bráðnauðsynlegt að læra af eigin mistökum og reynslu annarra til að fyrirbyggja að annað eins geti gerst aftur nú þegar stærsta fyrirtækjaútsala sem um getur, miðað við höfðatölu, byrjar í boði bankanna og ríkisins.

Það sem skiptir máli er ekki að það fáist „hæsta verðið“ í einhverju uppboði heldur að það veljist hæfasta fólkið sem fer með þessar eignir á ábyrgan og faglegan hátt.  Þá á ríkið að halda eftir einu hlutabréfi, svo kölluðu „golden share“ sem gefur því einn stjórnarmann og neytunarvald í öllum stærstu málum er varðar skuldsetningu, arðgreiðslu og yfirtökur.  Þetta á að gilda fyrir öll stærstu fyrirtæki sem seld verða og getur t.d. Bankasýslan farið með umboð ríkisins í þessum málum.  Þetta er leið sem Bretar fóru og reyndist vel, enda er þá betur tryggt að langtímahagsmunum skattgreiðenda sé borgið og að þeir fái ekki fyrirtækin aftur i fangið.   Þetta kerfi getur gilt í 5 ár eða þangað til nýir eigendur hafa sýnt fram á að þeir séu traustsins verðir.

Þessa leið á að fara þegar Sjóvá verður seld, enda eru gríðarlegir hagsmunir skattgreiðenda þar í húfi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Gagnrýnin er að stundum sé verðið of lágt (bankarnir) eða of hátt (Síminn). Er eitthvað að því að ríkið hafi selt Símann á verði sem fjárfestar vildu kaupa hann á og gátu fjármagnað? Það er ekki eins og félagið hverfi.

    Einkavæðing byggir m.a. á sanngirnissjónarmiðum gagnvart samkeppni. Það er alls ekki þannig að öll einkavæðingin hafi mistekist, þó bankarnir hafi farið illa og Síminn sé skuldsettur eins og restin af íslensku atvinnulífi. Einkavæðingin var miklu víðtækari og bráðnauðsynleg á sínum tíma.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Birgir,
    Þetta er einmitt ein af þeim spurningum sem þarf að svara: var fjármögnun Símans á eðlilegum forsendum? Svo snýst þetta ekki bara um verð og fjármögnun, heldur þá einstaklinga sem kaupa og þeirra þekkingu, reynslu og samfélagslegu ábyrgð.

    Einkavæðing geur verið góð en íslenska ferlið var afleitt.

    Það er rétt að Síminn hverfur ekki en hver eignast hann á endanum og hver borgar klúðrið í hærri símagjöldum?

  • Apotekeren

    Hvað kemur það einkavæðingunni við hvernig tókst til við að reka þessi fyrirtæki? Meiri og minna öll stórfyrirtæki á Íslandi hlupu á eftir ódýrum peningum og skuldsettu sig til helv. Einu gildir hvort þau voru einkavædd 1985, 1995 eða 2005. Eða bara einkafyrirtæki frá upphafi. Eða bara ríkisfyrirtæki frá upphafi eins og Íbúðalánasjóður og Byggðastofnun.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Apotekeren,
    Það skiptir máli hver rekur fyrirtækin eins og dæmin sýna og því er hægt að stýra þegar maður selur eignir. Það eru meiri líkur en minni að annar ríkisbankinn hefið staðið fallið af sér ef ekki hefði komið til einkavæðingar. Landsvirkjun er eitt stöndugasta fyrirtæki landsins og er það í ríkiseigu. OR spilaði rassinn úr buxunum þannig að það má áætla helmingslíkur á að fyrirtæki í opinberu eignarhaldi (ríkið er greinilega betri eigandi en sveitarfélögin) standi sig þokkalega á móti nær engum líkum á einkavæddum fyrirtækjum. (ÍLS og Byggðastofnun eru ekki fyrirtæki í venjulegum skilningi, heldur pólitískar fyrirgreiðslustofnanir)

    Þetta er auðvita hörmulegt og segir meir um stöðu einkageirans hér en hins opinbera. Ríkið á auðvita ekki að vera í rekstri á samkeppnismarkaði en nauðsyn brýtur lög hér á landi því einkageiranum er ekki enn treystandi.

    Það mun taka áratug (i) að byggja upp traust á einkaaðilum í rekstri.

  • Ef þessari aðferð (golden share) hefði verið beitt í einkavæðingu Landsbanka, Búnaðarbanka, Simans og FBA þá hefði annaðhvort ekki verið hægt að veðsetja allt upp í rjáfur eða þeir pólitíkusar og embættismenn sem leyft hefðu veðsetninguna sætu nú á sakborningabekknum með meintum viðskiptasnillingum fortíðarinnar.
    Mæli eindregið með þessari aðferð við allar sölur á fyrirtækjum sem Landsbankinn hefur fengið í fangið, sérstaklega Vestia safninu sem nú mun vera á leið til lífeyrirsjóðanna.
    En lífeyrirsjóðirnir fjármögnuðu verulegan hluta skuldsetningar með veði í lofti (viðskitpavild) sumra þessara fyrirtækja á timabili hinna afburða snjöllu viðskiptajöfra.

  • Apotekeren

    Það er nákvæmlega ekkert mynstur í þessu sem segir að einkavæðingin sem slík hafi verið vond.

    Ríkið þurfti að bjarga Landsbankanum upp úr 1990 og Útvegsbankinn fór sömuleiðis á hausinn. Búnaðarbankinn naut ætíð gríðarlegrar ríkisaðstoðar í gegnum lánadeildir landbúnaðarins.

    Þessar hörmungar í efnhagslífí Íslands og margra annarra landa undanfarið segja aðallega þá sögu að á meðan ríkið stýrir peningamálum (getur prentað peninga og stýrt vöxtum til að örva efnahagslífið) munu svona bólur verða til …og springa.

  • Apotekeren er örugglega á þeirri skoðun að Eftirlitsiðnaðurinn beri alla ábyrgð……….

  • Apotekeren

    Gorgeir
    Þeir sem setja fyrirtæki á hausinn bera ábyrgð á því. Þeir létu glepjast af ódýru peningunum. Þeir hættu að reka fyrirtæki og fóru að kaupa pappíra fyrir lánsfé.

    Þrátt fyrir að eftirlit með atvinnulífinu hafi verið margfaldað á árunum fyrir hrun (eins og EES mælti fyrir um) hafði það ekkert að segja. Nema ósatt!
    Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn lugu að þjóðinni fram að hruni því sannleikurinn var of hryllilegur. Aldeilis gagn að því!!!

  • Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

    SjálfstæðisFLokkurinn er hugmyndafræðilega gjaldþrota.

    Hugmyndafræðingur FLokksins hefst helst við í Brasilíu þar
    sem u.þ.b. 250.000 börn og unglingar eru sögð lifa af vændi.

  • Að kenna einkavæðingu LBÍ og Búnaðarbankans um bankahrunið er auðvitað tóm vitleysa. Glitnir var aldrei einkavæddur (gömlu einkabankarnir sameinaðir) en féll fyrstur.

    Þá var Kaupþing einkafyrirtæki stofnað af Pétri Blöndal og félögum.

    Þeir sem eiga peninga, einhverra hluta vegna, geta keypt hvaða fyrirtæki sem er á markaði – ef ekki af ríkinu. Að ríkið ætli að stjórna því hver á hvaða fyrirtæki – er álíka raunhæft og stjórna veðrinu í vesturbænum með reglugerðum.

    Af hverju hentar það svona mörgum að gleyma því að bankakerfi hins vestræna heims súrnaði í heild sinni? Skil það ekki. Jafnvel Den Danske Bank (sem var svo duglegur að benda á erfiða stöðu íslensku bankanna) var gjaldþrota og var haldið á floti af danska ríkinu.

    Hvað þá bankarnir í Bretlandi sem fóru allir í hnút. Einn sá stærsti, Royal Bank of Scotland var tekinn yfir af breska ríkinu. Allir írsku bankarnir urðu margfalt gjaldþrota. Þarf nú ekki að nefna þá bandarísku – sem voru allir sem einn á fóðrum hjá bandaríska seðlabankanum, alla daga vikunnar – líka um helgar.

    Þegar endurfjármögnun allra lána heimsins er ómögulegt – verða allir gjaldþrota (fyrr eða síðar) sem hafa ekki aðgang að prentvél á mynt sem hægt er að eiga viðskipti með.

    Jafnvel íslenska ríkið hefði orðið gjaldþrota ef ekki hefði verið fyrir hjálparstofnun og frændur. Man ekki eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi einkavætt íslenska ríkið…! Samt varð það a.m.k. tæknilega gjaldþrota..

    En, það verða alltaf einhverjir (þó svo þeim fari nú eitthvað fækkandi eftir því sem rykið nær að setjast) sem vilja hafa þetta einfalt og gott:

    Þetta var Davíð að kenna!

  • Fyrir einkavæðingu bankanna var Frakkland líkast Íslandi hvað varðar eignarhald ríkisins á fjámálastofnunum. Frakkar hafa farið varlega í einkavæðingu og franskir bankar standa vel. Hvers vegna féllu ekki allir bankar í Frakklandi?

    Það er alltaf hægt að finna dæmi úti í hinum stóra heimi til að rökstyðja sitt mál, en það sannar ekki neitt á meðan útlendingar stjórna ekki Íslandi.

    Einkavæðingin á Íslandi hefur mistekist, hún hefur ekki skilað einni einustu krónu, nettó, í vasa skattgreiðenda, þveröfugt, skattgreiðendur þurfa að taka á sig gríðarlegar skuldbindingar vegna hruns einkavæddra fyrirtækja. Það er mjög eðlileg krafa í lýðræðisríki að svona mál sé rannsakað af óháðum aðilum. Hvað fór úrskeiðis? Það verður ekki afgreitt á bloggsíðum.

  • Einar Solheim

    Andri, mér sýnist að í tillögu þinni felst að stjórnmálamenn og/eða embættismenn eigi að leggja mat á hverjir séu heppilegir kaupendur. Það þykir mér gífurlega varasamt – þá fyrst færum við að sjá klíkuáhrifin í okkar litla landi. Það er hins vegar rétt hjá þér að einkavæðing á Íslandi hefur nánast undantekningarlaust verið hörmungarsaga og minnist ég ekki einkavæðingar sem ekki hefur skilað sér í hækkuðum verðum fyrir veitta þjónustu (öfugt við málflutning málsvara frjálshyggjunnar). Eitt af vandamálum okkar er smæðin og lítil samkeppni. Ríkisrekstur er ekki í eðli sínu óhagkvæmur, en hann getur orðið það. Ef valið stendur hins vegar á milli ríkisreksturs og fákeppni, þá kýs ég hið fyrra. Á Íslandi geta menn keypt fyrirtæki, skuldsett fyrirtækið fyrir kaupunum og látið neytendur greiða í skóli einokunar og/eða fákeppni. Erlendis er líklegra að gífurlega skuldsett fyrirtæki nái ekki þeim kostnaðarstrúktúr til að verða samkeppnisfær. Á þessu eru auðvitað undantekningar, en á þessu má sjá að frjáls samkeppni getur verið mun skaðlegri á smáum mörkuðum en þeim sem stærri eru.

  • Franska ríkið féll ekki og það hélt frönsku bönkunum á floti – rétt eins og bandaríska ríkið héldu City Bank og Bank of America á floti, þó svo 200 aðrir minni hafi fengið að fara í gjaldþrot.

    Þeir voru sagðir „Too big to fail“ og var því haldið á lífi.

    Hefur komið í ljós að danska ríkið gafst upp í að halda lífinu í Den Danske Bank – en þá tók bandaríski seðlabankinn við…!

    Allir bankar hins vestræna heims urðu tæknilega gjaldþrota í lok árs 2008.

    Sama hvernig íslensku bankarnir hefðu verið reknir árin fyrir hrun – þeir hefðu alltaf farið í massíft gjaldþrot. Sem betur fer var ríkið búið að selja þá – því þess vegna varð ríkið ekki gjaldþrota með þeim.

    Einkavæðing bankanna var einhver mesti happagerningur Íslandssögunnar.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Comon,
    Nei það hefðu ekki allir bankar fallið. Hollenski lanbúnaðarbankinn, Rabobank, er enn með lánstraut AAA. Í hruninu þurfti hann að takmarka innlán, það voru allt of margir sem vildu leggja peningana sína inn þar.

    Það geta ekki allir orðið gjaldþrota á sama tíma.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fimm? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur