Sunnudagur 05.12.2010 - 08:38 - 20 ummæli

Verður Bjarni guðfaðir Icesave?

Eftir rúm tvö ár er Icesave enn að þvælast fyrir mönnum og enn hefur ekki tekist að koma málinu í höfn.  Ríkisstjórnin vill semja, stjórnarandstaðan vill málið fyrir dóm, Forsetinn vill nýja þjóðaratkvæðisgreiðslu en almenningur vill ekki sjá Icesave.  Sem sagt, algjör pattstaða eftir tvö ár.

Icesave er milliríkjadeila þannig að einhliða ákvarðanir Íslendinga duga ekki.  Mótaðilinn ætlar ekki að gefa þetta mál eftir.  Þeir hafa leyft Íslendingum að hafa frumkvæðið í tvö ár, látið Íslendinga spila sóknarleik, en brátt verður boltinn tekinn af Íslendingum og þeir þvingaðir í varnarleik.  Halda menn að við höfum meiri möguleika að skora í vörn en í sókn?

Hinn nýji Icesave samningur stendur og veltur á afstöðu Sjálfstæðismanna, aðeins með breiðri samstöðu innan þingsins verður þessu máli komið í farsæla höfn.  Þetta er eldskírn Bjarna.   Getur hann stýrt flokknum að ákvörðun þvert á vilja Davíðs?  Eða ætlar hann að verða eins og Ian Duncan Smith fyrrum formaður Íhaldsmanna á Bretlandi sem aldrei tókst að koma sér undan skugga Margrétar Thatchers og varð á endanum að segja af sér?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (20)

  • Bezt að standa í lappirnar núna og falla með sæmd ef illa fer, frekar en hrekjast undan óþjóðalýð sem vill okkur bara illt.

  • Mig langar að benda á eitt atriði sem virðist ekki fengið nógu mikla athygli.
    Öll umræða um hvað við munum þurfa að borga vegna IceSave hefur verið byggð á þeirri forsendu að neyðarlögin haldi.

    Ef neyðarlögin halda ekki, sem kemur kannski ekki endanlega í ljós fyrr en að mörgum árum liðnum, þá verður IceSave skuldin miklu stærri en þær tölur sem helst hafa verið í umræðunni. Þar til viðbótar myndu forsendur bresta fyrir greiðslum til innistæðueigenda vegna Kaupthing Edge á stöðum eins og í Þýskalandi, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Austurríki, en þar hafa allir innistæðueigendur fengið allt sitt greitt í krafti neyðarlaganna.

    Neyðarlögin færðu kröfur innistæðueigenda framar í forgangsröð en aðrar kröfur. Þetta var gert nóttina fyrir hrun.
    Ljóst er að um afar grófa, og í raun afturvirka, lagasetningu var að ræða, enda var hún sett í mikilli neyð. Reyna mun á lögmæti lagasetningarinnar í dómssölum Hæstaréttar næstu árin.

    Að mínu mati, á því ekki að semja um neinar IceSave greiðslur nema ljóst sé að neyðarlögin haldi eða að fyrirvari sé gerður í lánasamningnum vegna þessa.

    Mér þykir furðulegt að jafnvel andstæðingar IceSave samnings benda ekki á þessar staðreyndir. Eva Joly gerði það reyndar, með grein í norsku blaði, að mig minnir. Þá var fólk að furða sig á tölunni sem hún nefndi. Að mínu viti hafði hún lög að mæla.

  • Þetta hlýtur að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu ef andstaðan við samkomulagið verður almenn í landinu. Bjarni Ben og/eða þingmeirihluti hefur lítið um það að segja held ég.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Og hvað gerist svo, þegar Bretar og Hollendingar og í raun allt ESB, þangað sem við seljum 80% af okkar útflutningi neita að hlýða dómi íslenskra kjósenda? Þetta er jú milliríkjadeila.

    Er skynsamlegt að senda þau skilaboð út til alþjóðasamfélagsins að framkvæmdavaldið og þingið fari ekki lengur með utanríkismál Íslands, heldur séu þau nú í höndum Forsetans í gegnum þjóðaratkvæði?

    Maður getur farið að vitna í orð Kissingers sem hann notaði um Evrópu: í hvern á ég að hringja til að ræða um milliríkjasamninga?

  • Ég veit svo sem ekki Andri Geir. Það má vel vera að þetta sé ekki skynsamlegt. En þetta sýnir kannski fyrst og fremst að neyðarlögin og afleiðingar þeirra voru ekki hugsaðar til enda.

    Hugmyndina um að skuldir einstaklinga séu á ábyrgð „óráðssíufólks“ sem komi samfélaginu ekki við á meðan að innistæður (heima og heiman) séu sameiginlegt vandamál samfélagsins alls reynist einfaldlega erfiðara að selja en gert var ráð fyrir.

    Sennilega er stjórninni að takast að gera sviðið klárt fyrir 10.000 manna plús mótmæli þar sem reiði fólks yfir skuldamálum og Icesave verður brædd saman í einn eldfiman kokteil.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Seiken,
    Stjórnmálamönnum í öllum flokkum hefur alveg mistekist að stilla Icesave málinu upp á hlutlausan hátt. Þeir sem vilja semja þurfa að útskýra sitt mál betur en það er heldur ekki nóg að segja bara „nei“

    Við lifum í samfélagi þjóðanna og getum ekki hagað okkur alveg eins og við viljum, við þurfum að taka tillit til okkar nágranna.

  • Guðmundur Jónsson

    Að lesa þetta blogg er eins að fara aftur í til ársins 2008.Icesave er leyst Andri. Eina ástæðan fyrir því að Isevestjórnin er að halda úti saminganefnd er til að reyna að halda andlitunu.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Guðmundur,
    Einmitt, nýr Icesave samningur liggur fyrir en málið er ekki leyst fyrr en Forsetinn hefur staðfest hann.

  • Andri Geir.

    Milliríkjadeilur eru leystar með stríði, dómstólum eða samningum. Reikna ekki með innrás Breta og Hollendinga, þó svo freigáturnar hafi verið sendar á okkur í fyrri deilum – og því eru dómstólar og samningar eftir. Ef ekki nást samningar – þá taka dómstólarnir við.

    Ekkert flókið við það.

    HB mælir rétt – ef neyðarlögin bresta kostar samningur um ábyrgð Íslendinga á Icesave 800 til 1.000 milljarða, því greiðslur þrotabússins fara þá til skuldabréfaeigendanna – en íslenska ríkið stæði eitt uppi með að endurgreiða innlánin. Þá yrðum við formlega gjaldþrota.

    Því þyrfti samningurinn að hafa þann fyrirvara að hann falli úr gildi ef neyðarlögin falla.

    Annars hallast Comon að því að engan samning eigi að gera um Icesave. Lagaleg skylda er engin eða a.m.k afar óljós. Siðferðisleg skylda er einhver. En þá má rifja upp að Bretar höguðu sér eins og illa uppaldir töffarar þegar forsætisráðherra þeirra lýsti því yfir í alheimspressunni að Ísland væri gjaldþrota. Hvers konar hegðun er það hjá vinaþjóð og bandamanni? Það olli gríðarlegu tjóni og þjáningum.

    Og, fyrst við erum farin að tala um siðferðislegar skyldur. Hver á að bæta það efnahagslega hryðjuverk?

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Comon,
    Ég skil mætavel þína röksemdafærslu, en það sem ég skil ekki er að ef meirihluti þjóðarinnar vill fara með þetta fyrir dóm af hverju hefur það ekki verið gert? Eftir hverju er verið að bíða?

  • Þetta er rétt Andri Geir en fólk sem er á barmi örvæntingar hugsar hins vegar ekki hnattrænt. Ef það er vilji þjóðarinnar að koma þessu máli fyrir dóm með því að fella alla samninga í þjóðaratkvæðagreiðslum þá verður þjóðin bara að fá að fara í þann leiðangur.

    Við því er ekki mikið að segja, en sú vegferð er þá bara afleiðing þess að íslenskum almenningi var stillt upp við vegg og sagt að nú yrði hann að moka úr landi sem nemur þremur Kárahjúkavirkjunum í formi gjaldeyris ofan á annað tjón sem landsmenn horfa upp á. Að ímynda sér að hann myndi ekki reyna að streitast á móti, talandi nú ekki um eftir sakvæðingu stjórnvalda á íslenskum almenningi eftir hrunið, var vitfirring frá upphafi.

  • Jóhannes

    Leiðtogi Sjálfstæðisflokksins heitir Davíð Oddsson. Hann stýrir stærstum hluta flokksins með fulltingi harðskeyttra, duglegra og vel tengdra vina sinna sem sameiginlega ganga undir réttnefninu Náhirðin. Stjórnun Davíðs á landsfundum flokksins er víðfræg, sem og mörg önnur verk hans sama eðlis.

    Bjarni Ben er bara formaður. Hann hefur litla leiðtogahæfileika sýnt, hefur enga náhirð sér til stuðnings og á litla möguleika innan Sjálfstæðisflokksins án stuðnings Moggans og Náhirðarinnar. Þess vegna skiptir engu máli hvort Bjarni hefur einhverja persónulega skoðun á Icesave málinu. Umpólun hans í ESB málinu er gott dæmi um það. Það er Davíð sem ræður og það þarf ekki mörg eintök af Mogganum til að sjá að niðurstaða samninganefndarinnar, hver sem hún verður, skiptir hann engu máli.

  • Ómar Kristjánsson

    Eg held ekki. Davíð eða hans deild er búin að ná tökum á flokknum. BB jr. hefur aldrei verið sterkur þarna og kæmi mér mjög á óvart ef hann fengi að fylgja skynsemislínu þarna. Mjög á óvart.

    Stjórnarandstaðan á öll eftir að vera á móti (alveg gefið með framhreifinguna)

    Hvað ofanlýst þýðir fyrir ísland skal eg ekkert alveg fullyrða um á þessu stigi.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Sagan frá Bretlandi er sem sagt að endurtaka sig hér á landi.

    Það tók breska íhaldsflokkinn um 15 ár að losna undan skugga Thatchers. Það mun sem sagt enginn alvöru leiðtogi taka á Flokknum fyrr en eftir 10 ár. Nú er Davíð auðvita enginn Thatcher svo þetta ætti að taka skemmri tíma, eða hvað?

    Þetta ber ekki að skilja sem gagnrýni á Thatcher, hún gerði margt gott, en sterkir leiðtogar hverfa ekki eins og dögg fyrir sólu.

  • Stofnum Icesave söfnunarreikning í Landsbankanum. 18 ári og eldri þurfa ekki að borga nema 250.000 á mann og þá er málið úr sögunni. DO tók út úr Kaupthing. Hver mun fyrstur leggja inn á Icesave reikninginn?

    Íslenskur Mikjáll Móri gæti gert þetta að frábæru sjónvarpsefni.

  • sigthor jonsson

    Kaldhæðnin hlýtur að liggja í því að Sjálfstæðismenn upphaflega sögðu Breskum yfirvöldum að við myndum greiða ICESAVE, þess vegna er undarlegt að BB standi í vegi fyrir þessu.

    2,78% vextir, ég held hreinlega að það sé ekki áhættunar virði að fara fyrir EFTA dómstól, eftir allt munu Írar vera greiða 5,5% vexti, og eru þeir nú einusinni innherjar í ESB.

    Held að þjóðin sjái ekki skynsemina í þessum samning

  • Guðbjörn Guðbjörnsson

    Gaman að lesa ummælin, sem eru á vitrænum nótum og pistillinn að sjálfsögðu einnig!

    Ég er þó sammála Sigþóri Jónssyni og held að nú sé ljóst að eignir gamla Landsbankans munu að mestu standa undir kröfunum og við þurfum lítið sem ekkert að greiða. Að auki erum við núna að fá góða vexti. Það sem verður að koma í ljós er frá hvaða tímapunkti við verðum að greiða vexti, sem skiptir auðvitað höfuðmáli. Það var að mínu mati ákvörðun Breta og Hollendinga að greiða þetta út til sinna ríkisborgara áður en hægt var að losa um eignir Landsbankans. Okkur innlánatryggingasjóður dugaði ekki nema fyrir örlitlu broti af innistæðunum, sem þurfti að bæta. Ríkissjóður Íslands var skuldsettur í botn, m.a. eftir ástarbréf Davíðs Oddssonar og möguleikar okkar á erlendum lánum engir. Það er því að mínu mati Breta og Hollendinga að standa undir vöxtum þar til við skrifum undir samning við þá um lausn málsins.

  • Við áttum að vera orðinn Norður Kórea fyrir löngu síðan en í staðinn eru Bretar og Hollendingar að bjóða landinu betri og betri kjör.

    Icesave fylgismenn eiga engan trúverðugleika eftir.

  • Bjarni sem Ian Duncan Smith? Ég hef séð hann sem William Hague. Ef Bjarna mistekst og Davíðs armurinn vinnur þá fá sjálfstæðismenn sinn Ian Duncan Smith. En þá eru þeir einnig búnir að bjarga samfylkingunni.

    Ef svo fer, þá loksins munu sjálfstæðismenn fá sinn David Cameron sem verður þá laus við skugga sterks foringja.

  • Hákon Jóhannesson

    Sérkennileg, en þó algeng orðræða hjá eyjaskeggjum að blanda fleiri persónum inn í umræðu. Er þetta máske einskonar flóttaleið höfundar frá kjarna málsins ? Umræða sem fyrir vikið missir marks og verður flóknari – og skilar oftast engri niðurstöðu fyrir vikið. Ég skil ekki hvers vegna þú fellur í þessa gryfju ? Hvar er hinn hvassi og rökfasti Andri Geir sem var á morgunblaðsblogginu ? Er málið þér skylt máske ? Er búið að draga úr þér tennurnar ? Hvað hefur Davíð Oddsson að gera í dag með úrlausn þessa brotamáls ? Ef það væri raunverulegur vilji hjá þeim aðilum sem ber að greiða úr þessarar ógæfu – væri þetta mál tekið fyrir að festu og falið hlutlausum dómsstólum. Að mínu mati þá hugnast það “valdhöfum” ekki – því miður; persónulega tel ég þá vera í óðaönn að skera fjárglæframenn Hrunsins úr snörunni.

    Skilaboðin eru ákaflega einföld: Sauðsvartur almúginn á að borga brúsann og í raun að axla skömmina. Fjórflokksfélagar og samverkamenn þeirra á hinum ýmsu stöðum sjá til þess.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur