Tvær af okkar nánustu nágrannaþjóðum standa í sjálfstæðisbaráttu en hún fær yfirleitt litla umræðu hér á landi. Tll þess eru Íslendingar alltof uppteknir af sjálfum sér, en kannski ættu þeir að líta yfir hafið og fylgjast með umræðu og viðhorfum Skota og Grænlendinga.
Sérstaklega er fróðlegt að fylgjast með gjaldmiðlaumræðu hjá sjálfstæðismönnum Skota. Í febrúar síðastliðinn var birt gjaldmiðlaskýrsla sérfræðinga þar sem nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz var einn höfunda, en hann er Íslendingum vel kunnugur. Skoska þingið hefur nú nýlega samþykkt tillögur nefndarinnar um framtíðargjaldmiðil Skota komi til sjálfstæðis.
Í skýrslunni er tekið fram að val á galdmiðli sé ein stærsta ákvörðun Skota í sjálfstæðisbaráttunni og því nauðsynlegt að vanda vel valið enda ber skýrslan þess merki að þar hafi verið faglega að verki staðið. Niðurstaðan er að besta leið Skota til að tryggja lífskjör og hagvöxt eftir sjálfstæði er að halda áfram að nota breska pundið í samvinnu við Englandsbanka. Hinir möguleikarnir eru evra og eigin gjaldmiðill. Upptaka evru er ákveðnum vandamálum háð, t.d. hafa Skotar ekki eigin gjalmiðil til að fara með inn í ERM 2 og svo eru mestu viðskipti Skota við England. Ekki er mælt með sjálfstæðri mynt þó tekið sé fram að skoska hagkerfið sé nógu stórt til að standa undir eigin gjaldmiðli og er þar vísað til Nýja Sjálands, Noregs og Svíþjóðar sem lítilla hagkerfa sem ráða við eigin mynt. Skýrslan er öll hin fróðlegasta og sýnir hversu faglega hægt er að standa að vali gjaldmiðils ef viljinn er fyrir hendi.
Grænlendingar njóta dönsku krónunnar og eru því í sömu stöðu og Skotar að búa við alþjóðlega viðurkennda mynt. Þó að Grænlendingar séu margir hverjir ekki hrifnir að Dönum er mér ekki kunnugt um að hið sama gildi um dönsku krónuna. Með dönsku krónuna sem gjaldmiðil geta Grænlendingar vænst þess að nýta auðlyndir sína á betri og arðbærari hátt en Íslendingar. Með trygga og hagkvæma erlenda fjármögnun verður meiri arðsemi eftir í Grænlandi sem mun standa undir hærri lífskjörum og launatöxtum en ella. Þess verður því líkleg ekki langt að bíða að Grænland taki fram úr Íslandi á þessum sviðum.
Í augum Skota og Grænlendinga er íslenska krónan víti til varnaðar. Í augum margra erlendis er Ísland endanleg sönnun þess að á 21. öldinni hafa örríki ekki tök á að halda úti eigin fljótandi gjaldmiðli – sá tími er liðinn. Örríki á stærð við Ísland verða að tengjast stærri myntsvæðum enda er stöðug og alþjóðlega viðurkennd mynt forsenda fyrir varanlegri lífskjaraaukningu í framtíðinni.
Og kreppan í Evrópu sýnir þetta líka. Sama hversu illilega lítil ríki hafa lent í efnahagskreppunni, ekkert þeirra hefur gefist upp á evrunni eða evrutengingu. Enginn hefur farið íslensku leiðina og tekið upp gengisfellda sjálfstæða mynt. Hér er Ísland eitt á báti sem svo oft áður.
Það ætti því varla að koma mikið á óvart að krónan var valin sem framtíðargjaldmiðill Íslands yfir kaffi og vöfflum á Þingvöllum.
PS. Skoskir atvinnurekendur hafa látið reikna út hvað sjálfstæðið muni kosta og komast að því að aukakostnaður vegna sjálfstæðis verður um 140 pund á mann á ári eða um 100,000 kr á 4ja manna fjölskyldu. Stjórnmálamenn sem vilja komast í ráðherra- og sendiherrastöður eru auðvita rasandi yfir svona útreikningum.