Laugardagur 08.06.2013 - 14:24 - Lokað fyrir ummæli

Uppstokkun á bankakerfinu – nú eða aldrei!

Á tímum mikilla breytinga er rétt að huga að framtíðinni.  Um þessar mundir á það við um íslensku bankana en þeir hafa sjaldan staðið á meiri tímamótum en einmitt nú.  Hver er staða þeirra og horfur?

Viðskiptamódel bankanna er bæði dýrt og úrelt.  Minnka þarf allt kerfið og skera niður kostnað, auka samkeppni og laga starfsemina að örsmáu krónuhagkerfi sem kallar á afnám verðtryggingarinnar, en segja má að verðtryggingin sé sá gullkálfur sem standi undir dýru og óskilvirku bankakerfi hér á landi.

Á sama tíma þarf að byggja upp góð sambönd við erlend fjármálafyrirtæki til að auðvelda íslenskum fyrirtækjum og frumkvöðlum aðgang að hagkvæmari og fjölbreyttari fjármögnun.   Erlendir aðilar munu alltaf hafa áhuga á að fjárfesta í góðum íslenskum fyrirtækjum og hugmyndum en ekki alltaf í gegnum erlenda skuldabréfaútgáfu íslenskra banka.  Í því felst óþarfa kostnaður og áhætta.  Erlendir fjárfestar og bankar munu vilja eiga sem beinust viðskipti við áhugaverð íslensk fyrirtæki, það er ein lexía hrunsins.

Framtíð íslensku bankanna liggur fyrst og fremst í því að starfa sem viðskiptabankar í krónuumhverfi þar sem nálægð og hagkvæm þjónusta við heimilin og fyrirtækin í landinu er sett á oddinn. Tryggja þarf að viðskiptabankar séu vel einangraðir frá áhættusamari fjárfestingabankastarfsemi og umsýslu með verðbréf og fjármálagjörninga í erlendum gjaldeyri.

Brátt mun gefast gullið tækifæri til að gera róttæka uppstokkun á íslensku bankakerfi og færa það nær þörfum og kröfum viðskiptavina á 21. öldinni.  Þegar samningar við kröfuhafa eru í höfn, er líklegt að ríkið fái einstakt tækifæri til að stýra eignarhaldi á stóru bönkunum (og ÍLS) og þar með ákveða hvort og hvernig bankakerfið verði uppstokkað.

Mikilvægt er fyrir stjórnvöld að líta fram á veginn og ekki einblína eingöngu á að hámarka einskiptishagnað af sölu bankanna til nota á þessu kjörtímabili.  Huga verður að langtímaþörfum næstu kynslóða um hagkvæma og skilvirka bankaþjónustu. Því þarf öll uppstökkun að byggja á skýrri og heilstæðri framtíðarsýn sem tekur á hlutverki viðskiptabanka, fjárfestingabanka, verðbréfafyrirtækja, ÍLS og sparisjóðanna.

Þessa vinnu þarf að hefja tafarlaust.  Feigðarflan væri að keyra samningagerð við kröfuhafa á mettíma og vona síðan að “þetta reddist” með því að láta stjórnmálamenn og “íslenska markaðinn” ráðstafa bönkunum.  Slíkt hefur verið reynt áður.  Það er einfaldlega ekki hægt að láta heimilin og fyrirtæki landsins halda áfram að kynda eitt dýrasta viðskiptabankakerfi í víðri veröld. Hér verður að sýna meiri fyrirhyggju og áræðni.  Þá er varasamt að bankarnir sjálfir og/eða stjórnsýslan ákveði þetta fyrir landsmenn.  Til þess skortir þau bæði yfirsýn og reynslu í róttækum kerfisbreytingum.  Að þessari vinnu þarf að koma breiður hópur Íslendinga og erlendra sérfræðinga.

Stóra spurningin er hvort þjóðin og ný ríkisstjórn hafi kjark í þetta, enda verður fáu hægt að lofa í upphafi nema erfiði, sársauka og vanþakklæti.  Svona tækifæri mun, hins vegar, ekki gefast aftur á þessari öld.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur