Þriðjudagur 11.06.2013 - 15:36 - Lokað fyrir ummæli

Eignir annarra ekki afskrifaðar

Mikill misskilningur virðist ríkja um hugtakið “afskriftir”.  Talað er um að afskrifa eignir kröfuhafa og láta þær renna til skuldaniðurfellinga.  Þetta er rangt.

Það er ekki hægt að afskrifa eignir annarra.  Skuldir eru afskrifaðar annað hvort með samkomulagi, gjaldþroti eða þegar allar innheimtuaðgerðir hafa verið reyndar.

Við hrun gömlu bankanna misstu hluthafar allt en þeir sem áttu skuldabréfin eignuðust kröfu á eignir þrotabúanna. Eigendur skulda eru hærra settir en eigendur hlutafjár, þetta er grundvallaratriði í fjármálafræði.  Þegar fyrirtæki eru ekki lengur gjaldfær eða gjaldþrota, eru það þeir sem eiga skuldirnar sem fá eignirnar.

Skilanefndir gömlu bankanna eru því að gæta eigna kröfuhafa.  Þetta er mikilvægt því um þessar eignir nær eignarréttarákvæði sjtórnarskrárinnar og þær verða ekki teknar af kröfuhöfum nema gegn fullu verði.  Krónuinnistæður erlendra aðila eru tryggðar á sama hátt og innlendra aðila og njóta ríkisábyrgðar.  Þær verða ekki heldur afskrifaðar.

Í raun er ekki hægt að afskrifa neitt hjá kröfuhöfum en það er hægt að skattleggja þá eða kaupa af þeim eignir á brunaútsöluverði sem síðan má selja fyrir hagnað.  Aðeins þannig er hægt að “ná í pening” af kröfuhöfum sem nota má til að borga niður höfuðstól verðtryggðra lána heimilanna eða lán ríkisins eða bæta heilbrigðisþjónustu, til að nefna fá dæmi.

Raunhæfasta leiðin er að semja við kröfuhafa og kaupa af þeim innlendar eignir á burnaútsöluverði gegn því að þeir fái aðganga að erlendum eignum þrotabúanna og geti skipt söluverði eigna í krónum yfir í gjaldeyri.

En að nota hagnaðinn í skuldaleiðréttingu á verðtryggðum lánum heimilanna getur haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir bankakerfið.  Skuldabréf nýju bankann eru yfirleitt tryggð skuldabréf þar sem tryggar eignir svo sem fasteignalán og ríkisskuldabréf eru lögð að veði.  Eigendur tryggðra skuldabréfa nýju bankann geta því verulega flækt allar útgáfur af lækkun á höfuðstól fateignalána þar sem slík leiðrétting mun líklega skerða veðeignasöfn bankanna.  Sérstaklega er ríkisbankinn viðkvæmur hvað þetta varðar vegna strangra veðákvæða stóru skuldabréfanna, eins og fram kemur í árshlutareikningi hans.  Þá getur þessi leið minnkað getu bankakerfisins til útlána og hækkað kostnað á lánum sem aftur ynni gegn höfuðstólsleiðréttingu.  Og ef semja á um verulegar breytingar á skuldabréfum nýju bankanna er gott að muna regluna að fyrst verður að semja við hluthafa eða núllstilla hlutaféð – það yrði skellur fyrir ríkið.    En það eru ekki aðeins bankarnir sem gætu lent í vandræðum, Íbúðarlánasjóður er varla í stakk búinn til að taka á sig svona “fyrirframgreiðslu” inn á verðtryggð lán án heimildar til að greiða inn á sín eigin skuldabréf.  Svona skuldaleiðrétting myndi enn auka á vandræði ÍLS.

Nei, það er hægara sagt en gert að fara út í svona aðgerðir og betra að huga vel að öllum smáatriðum í upphafi.

Það sem minna fer fyrir í þessari umræðu er hverjir fá að versla með eignir kröfuhafa? Þóknun við þá þjónustu gæti skilað dágóðum skildingi.   Það er ótrúlega hljótt um þessa hlið málsins.  Kannski er verið að nota hugtakið “afskriftir” sem klóka smjörklípu?

 

PS.  í þessari færslu er átt við að það er ekki hægt að afskrifa eignir annarra á sama hátt og skuldir annarra eru afskrifaðar.    Auðvita geta eigendur eigna afskrifað þær eftir því sem þær eru notaðar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur