Miðvikudagur 12.06.2013 - 22:17 - Lokað fyrir ummæli

Erlend fjárfesting

Lítið fer fyrir erlendri fjárfestingu á Íslandi.  Jafnvel í hinum blómstrandi ferðamannabransa eru útlendingar hikandi.  Nýlega pakkaði hópur þýskra fjárfesta saman og hætti við að byggja hótel við Hörpu.  Hvers vegna?

Varla er það vegna vandamála með framboð eða eftirspurn.  Ferðamannafjöldinn er með hæsta móti og útlitið gott og það vantar hótelherbergi, sérstaklega miðsvæðis í góðum fyrsta klassa.  Því hefði hótel við Hörpu átt að vera pottþétt fjárfesting sem gengi upp fjárhagslega – alla vega reiknað í evrum – en hætt er við að útreikningar útlendinga flækist þegar þeir þurfa að að reikna fram í tímann í óstöðugri haftakrónu.  Þá hefur flókið og oft framandi íslenskt lagaverk og pólitísk áhætta eflaust sett strik í reikninginn.

Þegar þýski hópurinn gerði tilboð í hótelbygginguna er líklegt að þeir hafi gengið út frá þeirri forsendu að Ísland væri á leið inn í ESB og þar með inn í umhverfi sem þeir þekkja og skilja.  Í mars á þessu ári þegar öllum er orðið ljóst að Ísland er ekki á leið inn í ESB hættir hópurinn við allt saman.

Þetta litla dæmi sýnir hversu erfitt það er að laða fjármagn til landsins.  Ísland er svo ólíkt öðrum þróuðum ríkjum, með sitt eigið lagaverk, tungumál, gjaldmiðil og fjarlægð frá meginlandinu.  Að mörgu leyti er Ísland  eins og agnarsmá útgáfa af Japan án efnahagslegs stöðuleika.  Útlendingar þurfa að eyða dýrmætum tíma í að setja sig inn í íslenskar aðstæður sem væri réttlætanlegt ef hagkerfið hér væri um 100 sinnum stærra.  Margir gefast hreinlega upp eftir að hafa rekið sig á hvern þröskuldinn á eftir öðrum.

Erlend fjárfesting er nauðsynleg til að örva hagvöxt og útflutningstekjur og þvi verður að gera landið meira aðlaðandi fyrir erlenda fjárfesta.  Hjól atvinnulífsins verða seint dregin áfram af yfirskuldugum ríkissjóði eða skuldugum innlendum fyrirtækjum, hvað þá þjóðarbúi sem er farið að efast um gjaldfærni sína í erlendum gjaldeyri.  Því meir sem talað er um “ósjálfbærar” skuldir, allsherjarskuldasamkomulag til lækkunar erlendra skulda eða eignarskatta á eignir útlendinga, því meir fer ísland að líta út sem Argentína norðursins en eitt af Norðurlöndunum í augum erlendar fjárfesta.

Hvernig menn ætla að nálgast þann erlenda gjaldeyri sem nauðsynlegur er til að örva hagvöxt í svona umhverfi er stóra ráðgátan?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur