Fimmtudagur 13.06.2013 - 11:29 - Lokað fyrir ummæli

Tölurnar tala sem fyrr

Þegar vinstri stjórnin tók við árið 2009 var hallarekstur ríkisins yfir 182 ma kr. eða um 12.4% af VLF.  Á þeim tíma setti ríkisstjórnin sér það markmið að árið 2012 yrði heildarjöfnuður ríkisins orðinn jákvæður upp á 29 ma kr eða um 2.2% af VLF.  Þetta átti að vera viðsnúningur upp á 211 ma kr.  Þetta markmið náðist ekki.

Tölur Hagstofunnar sýna að heildarjöfnuður ríkissjóðs fyrir 2012 var neikvæður um 60 ma kr eða um 3.5% af VLF.  Þar með batnaði hallareksturinn um 122 ma kr. í tíð síðustu ríkisstjórnar en það vantaði 89 ma kr. upp á að upprunalegt markmið hennar næðist.  Í margra augum er þetta samt sem áður góður árangur en betur má ef duga skal.  Það sem veldur áhyggjum er að hallinn á fyrsta ársfjórðungi 2013 er 1.5 ma kr. hærri en á sama tíma 2012. Þá er ljóst að það er orðið mjög erfitt að ná hallanum niður fyrir 3% af VLF með hefðbundnum aðferðum og ólíklegt að það markmið náist á þessu ári.

Ný ríkisstjórn setur traust sitt á aukinn hagvöxt en til að ná honum þarf fjárfestingar.  Svigrúm opinberra aðila og innlendra fyrirtækja til aukinna fjárfestinga er takmarkað og spila þar inn í háar skuldir, hátt vaxtastig og gjaldeyrishöft. Erlendir aðilar hika við að fjárfesta hér, og þá ofmeta stjórnmálamenn yfirleitt tímann frá því fjárfesting fer af stað þar til hún fer að skila peningum í kassann.  Því er líklegt að hallarekstur ríkisins haldi áfram og alls óvíst að hægt sé að ná hallalausum ríkisrekstri á Íslandi nema með róttækum og sársaukafullum strúktúrbreytingum sem styðja við minni ríkissumsvif og aukna fjárfestingu.

Eitt er víst, það verður ekki hægt að reka “norrænt velferðarkerfi” fjármagnað með 3.5% ríkishalla til langframa.  Á endanum mun eitthvað verða að gefa eftir.  Ef myndarlegur og stöðugur hagvöxtur skilar sér ekki fljótt og strúktúrbreytingar eru of sársaukafullar er fátt annað í myndinn en myndarleg gengisfelling.

Heimildir: Hagstofan, Fjárlagafrumvarp 2010 (182 ma var áætlaður halli 2009 en halli í lok 2008 var hærri)

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur