Föstudagur 14.06.2013 - 10:46 - Lokað fyrir ummæli

Bankar í fangi ríkisins

Íslenska bankakerfið lenti svo sannarlega á íslenska ríkinu.  Þetta sýnir ný skýrsla Bankasýslunnar.  Hlutur íslenska ríkisins í eigin fé viðskiptabankanna er 14.3% af VLF en ekki nema 4.7% í Bretlandi og 2.3% í Hollandi.  Björgun banka í Bretlandi kostaði skattgreiðendur minna en fall bankanna á Íslandi sem hlutfall af VLF.  Þetta mun koma mörgum spánskt fyrir sjónir enda mikið talað um að Ísland hafi farið réttu leiðin og látið bankana lenda á kröfuhöfum.

Vissulega var þetta leiðin sem var farin, en hætt er við að útfærslan hafi villst af leið.

Það er því undarlegt hversu lítið fer fyrir umræðu um hvenær, hvernig og hvort skattgreiðendur fái þetta mikla fé tilbaka.  Í Bretlandi er þetta stöðugt í umræðunni og ráðherrar þurfa þar að gera regluleg grein fyrir málum bankanna.

Á Íslandi virðast flestir gera ráð fyrir að þetta “reddist” og að létt verði fyrir ríkið að losa um þessa eign og standa upp með hagnað?  En er það svo? Hvað þarf til, svo ríkið komi á sléttu út úr dæminu?

Hlutur ríkisins í eigin fé viðskiptabankanna þriggja var í lok árs 2012 um 244 ma kr.  Eiginfjárframlag ríkisins í upphafi var um 138 ma kr í formi skuldabréfs sem ber vexti.  Áætla má vaxtakostnað af þessu framlagi um 45 ma kr. á núvirði.  Þá þarf að bæta við fjárframlagi ríkisins við SpKef sem hljóðaði upp á um 19 ma. kr.  Samtals gera þetta 202 ma kr. sem viðreisn nýju viðskiptabankann hefur kostað ríkissjóð til dagsins í dag.  Dágóð summa.

Þetta þýðir að til þess að ríkið komi út á sléttu þarf að selja bankana á 83% af bókfærðu virði.  Þar fyrir ofan hagnast ríkið á sölunni en þar fyrir neðan tapar ríkið.

Í alþjóðlegum samanburði er þessi stuðll rétt undir meðaltali (90%), en verð á bönkum erlendis er á uppleið og staðan hefur breyst mikið til batnaðar á síðustu 12 mánuðum. Það eru góðu fréttirnar.

Hins vegar er spurning hvort íslenskir bankar séu venjulegir bankar og hvort fjárfestar séu tilbúnir að borga það sama fyrir þá og t.d. Bank of America sem selst á 85% af bókfærðu virði í kauphöllinn í New York?  Innlendir fjárfestar læstir inn í höftum hafa ekki val, en öðru máli gegnir með erlenda fjárfesta.  Ansi er ég hræddur um að mörgum þeirra muni þykja íslenski verðmiðinn hár.

En sala á bönkunum er varla inn í myndinni enn hér á landi.  Fyrst þarf að koma efnahagsreikningi bankanna á þurrt land og gera rekstur þeirra arðsamari.  Stærsti pósturinn hér er stærð og gæði lánabóka bankanna, en á meðan óvissa ríkir um gengisdóma, skuldaniðurfellingu, verðtryggingu og vanskil er erfitt fyrir fjárfesta að gera sér grein fyrir hvað þeir eru að kaupa.  Þá þurfa samningar við skuldabréfaeigendur að vera tryggir, þeir eru jú rétthærri en hlutabréfaeigendur og enginn fjárfestir fer að kaupa í banka þar sem hugsanleg skuldabréfaleiðrétting vofir yfir.  Þá þarf fjármögnun bankanna að vera trygg og hagkvæm en stórt og dýrt skuldabréf ríkisbankans er áhyggjuefni eins og Seðlabankastjóri hefur látið í ljós.  Að lokum er æskilegt að búið sé að taka til í rekstri bankanna svo ekki sé verið að gefa hagræðingartækifæri til nýrra eigenda.  Allt þetta tekur tíma, en á meðan tikkar vaxtakostnaður ríkisins.

Það er mjög brýnt að bankakerfið fari að standa á eigin fótum og sleppi ríkispilsfaldinum.  Gera verður þá kröfu að viðskiptabankarnir séu það vel reknir að þeir geti borga arð sem dekkar a.m.k. vaxtaútgjöld ríkissins og þar með stoppi “niðurgreiðslu” ríkisins á bankakerfinu. Þeim peningum er betur varið annars staðar!  Þá er skynsamlegt að greiða arð ef væntingar eru um að markaðsvirði sé undir bókfærðu virði.

Hvað varðar sölu á bönkunum er erfitt að sjá að hún verði arðsöm fyrr en 2016-2017, þ.e. í lok kjörtímabilsins  og líklega þarf að bíða þar til um 2025 þar til ríkið geti losað sig að fullu.  Forsendur fyrir endureisn og sölu nýju bankanna eftir hrun voru eins og svo oft gerist á Íslandi – ofurbjartsýnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur