Sunnudagur 16.06.2013 - 08:31 - Lokað fyrir ummæli

Skuldaleiðrétting á fleygiferð!

Skuldaleiðréttingaferlið er þegar komið á fleygiferð.  Á meðan allir hafa augun á endapunkti þess ferlis eru ráðherrar og Forsetinn komnir á fullt að undirbúa vinnuna.

Hér eru fystu skref ríkisstjórnarinnar:

  1. Tilkynna að krónan sé framtíðargjaldmiðill landsins
  2. Stoppa ESB viðræður
  3. Undirbúa skuldabréfaeigendur ÍLS fyrir skilmálabreytingar

Þessi skref voru tekin strax, en þau eru nauðsynleg undirbúningsvinna til að planið gangi eftir.  Með því að sannfæra kröfuhafa um að krónan sé framtíðargjaldmiðill landsins og að ESB aðild sé dauð eða í besta falli sparkað áratugi fram í tímann vona menn að auðveldara verði að snúa upp á kröfuhafa.

Því var það mikilvægt að Forsetinn setti “réttan” tón við þingsetningu og ekki síður í viðtali við Bloomberg þar sem hann vék sérstaklega að samningum við “hrægamma”.  Forsetinn hefur jú aðgang að erlendum fjölmiðlum sem aðrir hafa ekki.

Þriðja skilyrðið sem er nauðsynlegt af hálfu ríkisins, til að leiðréttingin velti ekki allt of miklum nýjum vanda ÍLS yfir á ríkið er að láta eigendur skuldabréfa ÍLS sætta sig við skilmálabreytingu sem inniheldur uppgreiðsluákvæði.  En það er nauðsynlegt til að halda jafnvægi í bókum ÍLS og minnka skuldbindingar sjóðsins í takt við minnkandi lánasafn sem niðurfærsla á verðtryggðum lánum mun hafa.

Þá er bara eftir að láta Seðlabankann sannfæra lífeyrissjóðina um að koma með erlendar eignir sínar til landsins í skiptum fyrir eignir kröfuhafa á brunaútsöluverði.  Þetta er líklega erfiðasti þátturinn.  Ef lífeyrissjóðirnir eru ekki til í tuskið, og það er mikið EF, þá þarf að finna aðra fjármögnunarleið.  En það verða alltaf einhverjir sem sjá sér hag í að koma með gjaldeyrir til landsins til að ná yfirráðum yfir viðskiptabanka á brunaútsöluverði.

Það sem vekur athygli hér er auðvita aðkoma Alþingis eða öllu heldur fjarvera.  Svo virðist sem Alþingi eigi sem minnsta að koma að þessu máli nema þá að stimpla það inn og út.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur