Þriðjudagur 18.06.2013 - 06:58 - Lokað fyrir ummæli

ÍLS verður NÍLS hf?

Nú er kominn tími til að höggva á erfiðan hnút sem er framtíð Íbúðalánasjóðs, ÍLS.  Ekki er hægt að láta ósjálfbæran ÍLS endalaust hanga á spena skattgreiðenda og setja langþráð markmið um hallalausan rekstur ríkisins í uppnám.

Skuldabréfaeigendur verða að taka keflið frá ríkinu en þeir eru að miklu leyti lífeyrissjóðirnir.  Það verður að ná samkomulagi við skuldabréfaeigendur um að breyta ÍLS í hlutafélag, NÍLS hf eða Nýr ÍLS hf.  Skuldabréfum ÍLS yrði þá skipt yfir í hlutafé og ný skuldabréf með uppgreiðsluákvæði og breytingarákvæði frá verðtryggðum bréfum yfir í óverðtryggð.

Þannig er hægt að auka eigið fé sjóðsins og gera honum kleift að mæta þörfum markaðarins um verð- eða óverðtryggð húsnæðislán með uppgreiðsluheimild án þess að setja eigin efnahagsreikning á hliðina. Félagslegu hlið ÍLS verður að finna annan heimastað og skilgreina það hlutverk sérstaklega.

Ríkið og skuldabréfaeigendur yrðu þar með hluthafar í NÍLS, sem yrði að reka á viðskiptalegum forsendum án ríkisábyrgðar.  NÍLS fengi leyfi til að taka við innlánum og veita greiðsluþjónustu á einstaklingsmarkaði og gæti þannig keppt við viðskiptabankana á eðlilegum samkeppnisgrunni.

Þá væri eðlilegt að gefa lítlum sparisjóðum tækifæri til að renna inn í NÍLS þar sem þeir fengju að halda sínum séreinkennum án þess að eiga á hættu að verða að litlu útibúi hjá einum af stóru viðskiptabönkunum.

Þar með myndi samkeppni á einstaklingsmarkaði aukast og flýtt yrði fyrir hagræðingu í rekstri og þjónstu við viðskiptavini.  Með tíð og tíma gæti NÍLS endaða á markaði og orðið hluti af nauðsynlegri uppstokkun á bankakerfi landsins, enda ljóst að stór hluti bankakerfisins mun á einn eða annan hátt fara í gegnum hendur lífeyrissjóðanna í náinni framtíð.

Ljóst er að með þessari aðferð munu skuldabréfaeigendur tapa fé, alla vega til að byrja með, en einhver verður að bera það tap, annað hvort ríkissjóður, skuldabréfaeigendur eða báðir aðilar í sameiningu.  Þá er líka hætta á að hugtakið “ríkisábyrgð” þynnist út, en það hefur í raun þegar gerst eins og nýlegt lánshæfismat Moody’s á ÍLS gefur til kynna.  Ef það er markmiðið að lágmarka framtíðartap á rekstri ÍLS verður að skoða svona leiðir þó þær passi ekki endilega inn í einhverja pólitíska hugmyndafræði frá síðustu öld.

Þetta yrði vonandi lokakaflinn í hruni íslenskra fjármálastofnanna, fimm árum eftir að það hófst.  Samfara uppgjöri gömlu bankanna gæti þá loksins hin raunverulega uppbygging nýs bankakerfis á Íslandi hafist.  Betra seint en aldrei. En stóra spurningin er, búa Íslendingar yfir nægri reynslu og þekkingu af endurskipulagningu og rekstri fjármálastofnanna?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur