Fimmtudagur 20.06.2013 - 11:43 - Lokað fyrir ummæli

Engu má breyta

Að sumu leyti eru Íslendingar íhaldssamari en Bretar sem eru þó frægir fyrir viðhorfið “change is good, but no change is better”.

Þetta á sérstaklega við um ákveðna tegund hefða á Íslandi – en alls ekki má leggja af hefðir sem gætu skert “þægilegheit” manna.   Tek þrjú dæmi sem mér hefur alltaf fundist furðuleg og þekki hvergi nema á Íslandi.

Fyrsta dæmið er löng sólaganga til stúdentspófs.  Þrátt fyrir mikil dönsk og norræn áhrif í íslensku samfélagi í gegnum aldirnar útskrifast stúdentar 20 ára á Íslandi og 18 ára í Danmörku.  Þetta er hin almenna regla en auðvita eru undantekningar frá henni.  Eina skýringin sem ég hef fengið á þessu fráviki er að á fyrri hluta síðustu aldar hafi börn og unglingar þurft að vinna á sumrin í landbúnaði og sjávarútvegi á við fullorðna.  Vinna barna og unglinga í dag er ekki í neinu samræmi við það sem tíðkaðist fyrir um 50 árum síðan en samt er haldið í hefðina – hvers vegna?  Af því að það er þægilegar en að breyta henni.  Það er ekki fyrr en núna nær fimm árum eftir hrun að það er að renna upp fyrir fólki að hið opinbera hefur ekki efni á þessu.  Þjóðin “neyðist” til að taka á þessu vegna þess að ytri aðstæður þrýsta á, en ekki vegna þess að þetta er skynsamlegt og mun hjálpa unga fólkinu að koma fótum undir sig fyrr í lífinu.  Ég ætla ekki hér að fara að reyfa allar þær skýrslur, innlendar og erlendar sem sýna hvað þjóðin fær fyrir sinn pening í menntamálum, það væri að æra óstöðugan.  Ef ríkisstjórnin vill auka hagvöxt, þá eru upplagt að stytta skólagönguna.

Þá eru það allir heilögu íslensku frídagarnir.  Þegar útlendingar heyra af þessu, spyrja þeir alltaf eru Íslendingar svona trúuð þjóð?  Og er von að menn spyrji.  Það eru ekki margar þjóðir sem hafa Uppstigningardag sem frídag á 21. öldinni.  Hvað ætli margir viti hvers vegna þetta er frídagur, hverrar himnaferðar er verið að minnast?  Ef ríkisstjórnin vill auka hagvöxt er upplagt að leggja niður einn frídag, svo sem Uppstigningardag.

Að lokum eru það matmálstímar Íslendinga á vinnutíma. Morgunkaffi með meðlæti, þriggja rétta heit máltíð í hádeginu – súpa, aðalréttur og eftirréttur – og svo síðdegiskaffi.  Þetta er skiljanlegt fyrir þá sem vinna enn erfiðisvinnu, en að halda í þessar hefðir fyrir fólk sem vinnur þægilega innivinnu er ekki skynsamlegt út frá hvaða sjónarmiði sem er.  Vissulega hefur þeim fyrirtækjum fækkað sem enn bjóða upp á svona herlegheit en ansi er ég hræddur um að margar stofnanir reki enn eigin mötuneyti í þessum anda.   Og ef eitthvað er þá hefur þetta versnað.  Nú lepja menn latte í tíma og ótíma á milli gömlu kaffitímanna og það er varla til sú auma stofnun sem ekki á lattevél og toppurinn er víst að reka sinn eigin kaffibar!  Ef landsmenn eru áhugasamir um að auka hagvöxt og framleiðni er upplagt að stytta og einfalda matmálstíma.

Það er leikur einn að finna einfaldar strúktúrbreytingar sem geta aukið hagvöxt og framleiðin, allt sem þarf er hugmyndaflug – en auðveldara sagt en gert!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur