Föstudagur 28.06.2013 - 21:00 - Lokað fyrir ummæli

Í landi eyðslu og skulda

Umræðu um ríkisfjámál hefur hrakað síðan AGS yfirgaf landið.  AGS kom með aga og aðferðafræði sem var framandi í landi eyðslu og skulda.  Ríkissjóður átti sem fyrst að afla meir en hann eyddi samkvæmt plani AGS.  Auðvita gekk þetta ekki eftir.  Síðasta ríkissjórn sprakk fljótlega á limminu og fór að tala um að vernda velferðarkerfið í stað þess að koma umbótum í framkvæmd.  Kosningabaráttan snérist svo um allt annað en ríkisfjármálin og núverandi ríkissjórn talar um hallalausan rekstur líkt og sú fyrri, en heldur sig fjarri smáatriðunum enda veit hún að kjósendur treysta því að þetta reddist!

Stjórnmálamenn í landi eyðslu og skulda vita vel að kjósendur hugsa fyrst og fremst um eigin eyðslu og skuldir.  Að lofa meiri eyðslu og minni skuldum er örugg aðferð til að ná hylli og atkvæðum kjósenda.  Ríkisfjármálin eru afgangsstærð sem aðeins kverúlantar hafa áhuga á.

Svona hefur þetta alltaf verið á Íslandi og er í mörgum löndum, eini munurinn er að stærri þjóðir hafa sjálfstæðar stofnanir, fjölmiðla og sérfræðinga sem veita stjórnmálamönnum öflugt aðhald.  Í rótgrónum lýðræðisríkjum komast stjórnmálamenn yfirleitt ekki upp með hallærislega útúrsnúninga og yfirborðsmennsku. Þeir sem vilja sannfærast um það ættu t.d. að kynna sér stjórnmál og fjölmiðla í Ástralíu.

Nýlega hafa komið fram gagnrýnar skýrslur um stöðu mála á Íslandi frá virtum erlendum stofnunum á við AGS, OECD og ÖSE.  Þetta eru skýrslur sem erlendir fjárfestar og lánardrottnar Íslands lesa.

Viðhorf Íslendinga til þessara skýrslna er mjög í anda fyrirhruns áranna, flestir afgreiða þær með þögn.  Útlendingum er eingöngu hampað þegar þeir lofa og skjalla Íslendinga, öll erlend gagnrýni er slæm og allra verst er þegar útlendingar reyna að kenna Íslendingum að leiðrétta mistök og fáfræði.

Hræðsla og minnimáttarkend gagnvart útlendingum er jafn mikilvægur hornsteinn í fullveldisstefnu Íslands nú og fyrir 100 árum.  Ef eitthvað er, hafa hlutirnir versnað því fyrir 100 árum voru landsfeður Íslands, á evrópskan mælikvarða þess tíma, betur menntaðir og víðsýnni en arftakar þeirra í dag!  Og því miður er lítil von að sú staða breytist í framtíðinni enda mun séríslensk og ósilvirk menntastefna sjá til þess.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur