Sunnudagur 30.06.2013 - 10:48 - Lokað fyrir ummæli

Hagvöxtur í biðstöðu

Þegar rýnt er í þjóðhagsspá Hagstofunnar er sláandi hversu illa hefur gengið að koma atvinnufjárfestingu af stað, sérstaklega á þetta við um stóriðjuframkvæmdir.   Ef spáin frá apríl 2011 er borin saman við nýjustu spá frá júní 2013 sést að báðar hagvaxtaspárnar eru að mestu dregnar áfram af sömu verkefnunum, það eru helst dagsetningar sem breytast.

Hér er samantekt á helstu verkefnum úr þjóðhagsspám Hagstofunnar:

Álver í Helguvík:

2011 segir:
“Reiknað er með fyrsta áfanga álversins í Helguvík í spánni og að framkvæmdir hefjist að litlu leyti árið 2012 en komi að mestu fram árin 2013–2014.”

2013 segir:
“Þá er áætlað að framkvæmdir við fyrsta áfanga álvers í Helguvík, eða ígildi þess, hefjist árið 2014 og verði komnar á fullt skrið árið 2015.”

Álver í Straumsvík:

2011 segir:
“Gert er ráð fyrir fjárfestingu við stækkun álversins í Straumsvík og mun standa yfir út árið 2014 en mestur kostnaður fellur til árin 2011 og 2012.”

2013 segir:
“Í maí var tilkynnt um breytingar á fjárfestingarverkefni Alcan í Straumsvík þar sem horfið var frá því að auka framleiðslu álversins um 20% en í stað þess er stefnt að 8% aukningu.”

Búðarhálsvirkjun:

2011 segir:
“Reiknað er með Búðarhálsvirkjun í spánni en orkan úr þeirri virkjun verður notuð í Straumsvík. “

2013 segir:
“Áfram er reiknað með orkuframkvæmdum Landsvirkjunar við Búðarháls. Framkvæmdir þar munu standa til ársins 2015.”

Kísilverksmiðjur:

2011 segir:
“…fyrirhuguðum framkvæmdum vegna kísilverksmiðju í Helguvík hefur verið bætt við atvinnuvegafjárfestingu. Áætlað er að hún kosti um 17 milljarða og falli að mestu til árin 2011 og 2012 þó að framkvæmdum ljúki 2013.”

2013 segir:
“Einnig er áætlað að framkvæmdir við kísilver á Bakka hefjist árið 2014…”

Niðurlag um atvinnufjárfestingar:

2011 segir:
“Árið 2012 er reiknað með að atvinnuvegafjárfesting aukist um 23,8% en þá nái framkvæmdir vegna kísilverksmiðjunnar hámarki og er jafnframt gert ráð fyrir að almenn atvinnuvegafjárfesting aukist nokkuð. Þrátt fyrir nokkra aukningu fjárfestingar á spátímanum er áætlað að hlutur fjárfestingu í landsframleiðslu í lok spátímans verði undir meðaltali síðustu 20 ára.”

2013 segir:
“Á seinni hluta spátímans er reiknað með að fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu nálgist 18% en að meðaltali síðustu 30 ár hefur hlutur fjárfestingar verið um 20% af landsframleiðslu og er því enn nokkuð í að hún nái fyrri styrk í hagkerfinu.”

En hvers vegna ætli gangi svona erfiðlega að koma þessum verkefnum af stað?  Ein skýring er tregða útlendinga við að fjárfesta á Íslandi.  Þessi stóru verkefni verða nefnilega ekki fjármögnuð í krónum, til þess þarf alvöru gjaldmiðla.

Erlendir fjárfestar eiga mjög erfitt með að sjá að Ísland geti tryggt nauðsynlegan lagalegan og efnahagslegan stöðugleika með einangrunarstefnu sem útilokar ESB aðild en byggir á illskiljanlegum hringlandahætti og þjóðernisrembu.  Margir fjárfestar hafa líklega haldið að sér höndum og beðið eftir ESB aðild.  Nú þegar hún er ekki í augsýn hafa sumir pakkað saman og þá vaknar upp sú spurning hvaða hópar erlendra aðila treysta sér til að fjárfesta hér í framtíðinni og á hvaða kjörum?

Mest hefur farið fyrir þýskum og bandarískum fjárfestahópum.  Þjóðverjar eru illa brenndir af lélegum fjárfestingaákvörðunum í ýmsum Evrópulöndum fyrir hrun þ.á.m. Íslandi og eru því varkárir og vilja stöðugleika.  Bandaríkjamenn vilja þekkt og öruggt lagaumhverfi, stærðarhagkvæmi og samkeppnishæft orkuverð en orkuverð hefur fallið mikið í Bandaríkjunum eftir mikla gasfundi þar á síðustu árum.  Ísland utan ESB getur hvorki boðið upp á þekkt lagaumhverfi né stöðugleika.  Þar á ofan bætist há skuldastaða, léleg lánshæfiseinkunn og haftakróna.  Slíkt umhverfi laðar aðeins einn hóp að – hrægamma.  Það eru helst svokallaðir hrægammar og bankamenn þeirra sem hafa sýnt íslenskum fjármálagjörningum áhuga eftir hrun og haldið markaðinu opnum erlendis.  Nú á að hrekja þá á brott.  Hver á þá að fjármagna Ísland í erlendum gjaldeyri?  Spyr sá sem ekki veit.

Eitt er víst, að í augum erlendra fjárfesta verða fjárfestingar á Íslandi án ESB aðildar áhættusamari og þar með verða kjörin alltaf lakari, þ.e. meiri arður þarf að renna til erlendra aðila.  Þetta þýðir að minna verður til skiptanna innanlands, t.d. til hækkunar launataxta.

Ísland er í ákveðnu svikalogni hvað fjárfestingar og hagvaxtahorfur varðar þar sem aukning í eyðslu erlendra ferðamanna hér á landi hefur verið drifkrafturinn í vexti gjaldeyristekna frá hruni.  En þó ferðamennskan sé góð búbót kemur hún ekki í staðinn fyrir langtímafjárfestingar í öðrum atvinnugreinum.  Ferðamennska bíður ekki upp á sérhæfð hálaunastörf, hún byggir á lágu gengi krónunnar og hógværum launakröfum.  Þá er hún sveiflukennd og oft háð tískuduttlungum sem geta gert fjárfestingar í ferðamannaiðnaði áhættusamar.

Hagvaxtahorfur hér á landi eru því miður ekki eins góðar og margir vilja halda og forsendur Hagstofunnar hafa reynst of bjartsýnar.  En eins og fyrir hrun er ofurbjartsýni Íslendinga stór áhættuþáttur sem erlendir fjárfestar verða að passa upp á.

Róðurinn verður þungur utan ESB og fórnarkostnaðurinn hár.  Velferðarkerfið mun varla fylgja norrænum stöðlum mikið lengur og erfitt verður að uppfylla væntingar um hærri rauntekjur.  Lítið má út af bera til að Ísland falli ekki aftur í gamalt far gengisfellinga, innflutningshafta og verðbólgu.

Heimildir: Hagstofan

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur