Þriðjudagur 02.07.2013 - 14:49 - Lokað fyrir ummæli

Lánveitingum ÍLS hætt?

Það verður varla annað lesið úr nýrri skýrslu um ÍLS en að nefndin leggi til að ÍLS hætti lánveitingum og skuldabréfaútgáfu, a.m.k tímabundið, en í niðurlagi skýrslunnar segir:

„Íbúðalánasjóður er nú á framfæri ríkisins ef svo má segja. Vandræði hans eru á því stigi að lausafé og eigið fé hrökkva þar skammt. Við þær aðstæður er ekki ástæða til að hann liggi með mikið lausafé né að eigið fé liggi inni í sjóðnum. Þar sem sjóðurinn er hvort sem er háður aðstoð ríkisins er í lagi að hann sé sem næst eiginfjárlaus á meðan yfirvöld ákveða hvað gert verður við hann til framtíðar. Eftir þá ákvörðun er rétti tíminn til að huga eftir atvikum að eiginfjárframlagi ríkisins. Í millitíðinni ætti Íbúðalánasjóður alls ekki að standa í samkeppni á markaði eða taka á sig (og þar með ríkið) frekari skuldbindingar og áhættu.“

Þá gæti tillaga nefndarinnar, um að ráðherra setji á uppgreiðslugjald til að tryggja hag sjóðsins sem mun gera lántakendum erfitt fyrir um að breyta lánum sínum úr verðtryggðum yfir í óverðtryggð, stangast á við stefnu nýrrar ríkisstjórnar í skuldamálum heimilanna.

„Ráðherra skal setja gjald á uppgreiðslur viðskiptavina sjóðsins ef aðrar leiðir eru ekki færar til að verja hag hans skv. reglugerð nr. 544/2004. Slíkar aðstæður eru einmitt um þær mundir þegar þetta er skrifað. Mikil hætta er á að sjóðurinn tapi frekara fé vegna uppgreiðslna viðskiptavina. Íbúðalánasjóður hefur tapað verulegu fé vegna uppgreiðslna í nokkur misseri. Má því segja að ráðherra hafi brotið reglugerðina. Þetta gjald er hægt að setja á nú og koma þannig í veg fyrir að sjóðurinn verði fyrir frekara tapi af völdum uppgreiðslna.“

Það er hætt við að það verði mikið að gera hjá ÍLS og bönkunum á næstu dögum.

Ég hef enn ekki fundið tillögur nefndarinnar um aðgerðir í skilmálabreytingum á skuldabréfum ÍLS, þannig að eigendur þeirra taki hluta tapsins á sig svo allt lendi ekki á ríkinu.  Það hlýtur að vera þarna einhvers staðar, þetta er svoddan doðrantur að ekki er hægt að hraðlesa hann á 30 mín.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur