Miðvikudagur 03.07.2013 - 07:32 - Lokað fyrir ummæli

Ekki í skýrslunni

Skýrsla um Íbúðarlánasjóð fer vel yfir sögu sjóðsins en ég sakna þess að þar skuli ekki koma fram hnitmiðaðri tillögur til úrbóta.  Sérstaklega virðast eigendur íbúðabréfa sleppa vel enda andaði skuldabréfamarkaðurinn léttar eftir útkomu skýrslunnar.

Talað er um í niðurlagi skýrslunni að velta hluta vandans yfir á lántakendur með uppgreiðslugjaldi til að vernda sjóðinn.  En hvað um skuldabréfaeigendur?  Hvers vegna eiga þeir ekki að taka hluta vandans á sig?  Er rétt að skattgreiðendur og lántakendur beri allan skaðann af mistökum við stjórn ÍLS?

Fjármálaráðherra talar um að skuldabréfaeigendur verið að sýna skilning og líta verði á markaðslausnir til að rétta ÍLS af.  Þetta er rétt, ríkið þarf að breyta ÍLS í hlutafélag og afnema ríkisábyrgð, eins og ég hef bloggað um hér.

Í raun er skýrslan um ÍLS vopn í hendi ráðherra gagnvart skuldabréfaeigendum.  Það er ljóst að þeir fagfjárfestar sem keyptu íbúðabréf máttu vita að hér var ekki allt með felldu.  Skammstöfunarstofnanirnar AGS og OECD höfðu ítrekað varað við starfsemi ÍLS.  Þó íslenskir stjórnmálamenn hlusti ekki á erlenda sérfræðinga þá geta fagfjárfestar ekki notað þá afsökun.  Það er því ljóst að fagfjárfestar hafa verið að gera út á ríkisábyrgðina þegar þeir máttu vita að undirliggjandi rekstur var í molum.

Ef ríkið getur einhvern tíma fellt niður ríkisábyrgð þá er það í þessu tilfelli enda er ekki verjandi að veita ríkisábyrgð á rekstur sem er ekki byggður á heilbrigðum viðskiptalegum grunni.

Þeir fjárfestar í íbúðabréfum sem enn halda að ríkisábyrgðin muni redda þeim eiga eflaust eftir að verða fyrir vonbrigðum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur