Fimmtudagur 04.07.2013 - 20:25 - Lokað fyrir ummæli

Böl 40 ára lána

Nú þegar umræða um fortíðarvanda ÍLS stendur sem hæst er rétt að huga að framtíðinni.

Það sem hefur fengið allt of litla umræðu er lengd lánstíma íbúðalána.  Í sveiflukenndu hagkerfi með óstöðugan gjaldmiðil verður 40 ára lánstími að fjárhagslegum myllusteini bæði fyrir lántakandann og lánveitandann.  Og ekkert er verra en 40 ára verðtryggt lán sem hefur lægstu greiðslubyrði í upphafi sem síðan stigmagnast og verður þyngst á síðustu árunum.  Á 40 ára tíma má búast við 3-4 alvarlegum verðbólguskotum sem setja fjármál heimilanna úr skorðum og vandamálið versnar eftir því sem lánin eldast.  Nú er ekki komin 40 ára reynsla af verðtryggingunni á Íslandi þannig að fólk er ekki farið að finna fyrir þyngstu afborgununum.

Annað vandamál við 40 ára lánin er að allt of margir þurfa að borga af húsnæðislánum þegar þeir eru komnir á eftirlaun, og margir fá erfiðustu greiðslurnar þegar þeir síst ráða við þær.  Það er eins og enginn hafi hugsað þetta dæmi til enda þegar farið var af stað með verðtrygginguna.

40 ára verðtryggð lán eru því ekki eins traust og margir vilja halda og draga úr lánagæðum fjármálastofnana og ýta undir fjármálaóstöðuleika.

Í flestum nágrannalöndum okkar eru húsnæðislán veitt til 25-30 ára. Hvers vegan eru lánin hér til 40 ára?  Jú vegna þess að launin eru of lág og vaxtakostnaður of hár til að bjóða upp á hliðstæð kerfi og finnast í öðrum löndum.  Þá er heildarkostnaður við húsnæði dýr á eldfjallaeyju við heimsskautsbaug.

Hugsunin við núverandi kerfi virðist  hafa verið að sem flestir kæmust í gegnum greiðslumat með sem minnstri útborgun.  Þannig átti að tryggja drauminn um eigið húsnæði.  Þetta hefur ekki reynst rétt og hjá mörgum fjölskyldum hefur draumurinn breyst í martröð og þjóðin stendur uppi með gríðanlegan kostnað og vandamál sem sligar allt hagkerfið.

Hver er þá lausnin?  Það verður að marka stefnu sem byggir á  25-30 ára lánstíma og 80% hámarksveðhlutfalli. Grundvallarviðmið þarf að vera að fólk sé orðið skuldlaust þegar kemur að eftirlaunaaldri til að tryggja því áhyggjulaust ævikvöld.  Þannig þarf að stilla öll lán af þegar fólk selur og kaupir eignir yfir starfsævina.  Alltaf þarf að miða við að síðasta greiðsla falli t.d. fyrir 65 ára aldur til að gefa fólki smá tíma til að undirbúa sig áður en farið er á eftirlaun. Þeir sem eru ekki með nógu há laun eða eignir til að komast í gegnum svona kerfi þurfa á sérlausnum að halda þar sem félagsleg aðstoð kemur til.

Stjórnmálamenn verða að horfast í augu við þann raunveruleika að stór hópur Íslendinga getur ekki eignast eigið húsnæði á eðlilegan hátt samkvæmt lögmálum hin frjálsa og opna fjármálamarkaðs.  Að reyna enn eina ferðina að “fiffa” markaðinn mun aðeins skapa vandamál sem á endanum leiðir til kerfisáfalla.  Staða ÍLS í dag er sönnun þess að stjórnmálastéttin verður að sækja í reynslu og þekkingu utan sinna pólitísku raða.  Það verður að vera pláss fyrir “skammstöfunar-fólk“ á Íslandi!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur