Miðvikudagur 10.07.2013 - 06:48 - Lokað fyrir ummæli

„Ekkert bruðl, betri vexti“

Íslenskt fjármálakerfi er rándýr furðufugl og umræðan um ÍLS skýrsluna sýnir það vel.  Í stað þess að horfa heilstætt á málið og fram á veginn er farið í gömlu skotgrafirnar.  Það verður að setja sorgarsögu ÍLS í sitt eðlilega samhengi og þar er ekki hægt að horfa eingöngu á mistök stjórnmálamanna, heldur verður einnig að horfa til bankanna og lífeyrissjóðanna en þessir aðilar hafa kannski hagnast mest á óheppilegum pólitískum afskiptum af ÍLS.

Ef við skoðum samkeppnisstöðu lánastofnana á íbúðalánamarkaði er hún bæði skökk og ýkt.  Í hnotskurn er vandinn að bankarnir eru með háan kostnað en sveigjanlega fjármögnun en ÍLS lágan kostnað og ósveigjanlega fjármögnun.  Markaðurinn er galopinn fyrir fjármálastofnun sem byggir á lágum kostnaði og sveigjanlegri fjármögnum.  Í stað þess að skapa jarðveg fyrir slíka stofnun og auka samkeppni er einblínt á fortíðarvanda ÍLS og horft til þess að bankarnir séu lausnin.  Í augnablikinu líta bankarnir vel út í samanburði við laskaðan ÍLS, en ekki er allt sem sýnist.

Rekstrarhlið ÍLS er ekki eins slæm og margir ímynda sér.  Það þarf að bæta áhættustýringuna en þegar kemur að rekstrarkostnaði er ÍLS mjög samkeppnishæfur enda rekur hann ekki dýrt útibúanet og höfuðstöðvar.  Ef við berum saman reglulegan rekstrarkostnað sem hlutfall af meðalstöðu eigna hjá ÍLS og bönkunum er samanburðurinn sláandi.  Hjá ÍLS er þetta hlutfall 0.3% eða um 30 punktar og því í góðu samhengi við 45 punkta vaxtaálag vegna rekstrar sem ÍLS notar.  Hjá stóru bönkunum er þetta sama hlutfall á bilinu 2%-3% eða um 200-300 punktar, og er með því hæsta sem gerist hjá viðskiptabönkum innan OECD.  Nú er eðlilegt að bankar sem hafa flóknara viðskiptamódel og betri áhættustýringu en ÍLS hafi hærri rekstrarkostnað, kannski þrisvar sinnum hærri en ekki tíu sinnum hærri!

Vandamál ÍLS er því ekki hár kostnaður heldur ósveigjanleg fjármögnun.  Hér er ÍLS í spennutreyju stjórnmálamanna sem hafa hannað kerfi með þarfir lífeyrissjóðanna að leiðarljósi frekar en lántakenda.  Lífeyrissjóðirnir hafa hingað til geta verið í áskrift af skuldabréfum ÍLS og þar með fengið uppfyllta ávöxtunarkröfu sem einnig var ákvörðuð af stjórnmálamönnum og tryggð með ríkisábyrgð.  Það er því spurning hvort ÍLS sé ekki ríkistryggður fjárfestingasjóður lífeyrissjóðanna frekar en íbúðalánasjóður?  Svona kerfi klikka alltaf enda eru fá dæmi þess að stjórnmálamenn hafi hannað samkeppnishæf og sjálfbær fjármálakerfi.

Lausnin er ekki að færa öll íbúðalán yfir til bankana sem glíma við allt of háan rekstrarkostnað. Það er lítill vandi fyrir banka sem hafa aðgang að innlánum að keppa við ÍLS enda verður sá samkeppnisgrundvöllur alltaf ójafn.  Lausnin felst í að jafna samkeppnisstöðuna og nýta sér það markaðstækifæri sem gefst með því að nota það besta úr ÍLS og sparisjóðunum ásamt nýjustu tækni og stjórnunarstíl lágvöruverslana til að stofna fjármálastofnun, sem getur veitt bönkunum harða samkeppni á einstaklingsmarkaði.  Áherslan verður lögð á að bjóða lægstu útlánsvexti og hæstu innlánsvexti til heimilanna. Þeir kúnnar sem vilja heldur flott útibú með leðursófum og glæsilegar höfuðstöðvar sem líkjast frekar minjasöfnum halda áfram að versla við bankana.  Til lengri tíma litið mun aukin samkeppni gagnast lántakendum og sparifjáreigendum best.  Bankar og lífeyrissjóðir verða hins vegar varla hrifnir af þessari hugmynd.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur