Föstudagur 12.07.2013 - 07:19 - Lokað fyrir ummæli

OR og Goldman Sachs

Líklegt er að Goldman Sachs sé á bak við söluna á Magma bréfi OR.  Goldman veitti nýlega lán til OR á hagstæðum kjörum sem átti að halda leyndu en lak út.  Goldman er einn fremsti fjárfestingabanki heims og afgreiðir varla stök viðskiptalán til félaga eins og OR.

Goldman er þekktur fyrir að endurskipulegga efnahagsreikninga hjá lösuðum fyrirtækjum og koma þeim á réttan kjöl.  Hér er líklega um pakkalausn að ræða þar sem efnahagsreikningur OR er hreinsaður upp með Goldman láni og sölu á Magma bréfinu.  Sjálfsagt er tiltektinni ekki lokið, enda sleppir Goldman ekki kúnnum fyrr en þeir eru vel snurfusaðir.

Þetta skýrir líka leyndina.  Goldman var eflaust ekki ánægður með að lánakjörin láku út og hefur sett ströng skilyrði fyrir leynd á Magma bréfinu.  Þá hefur Goldman eflaust valið Landsvaka sem milligöngumann á Íslandi og talið tryggast að versla við ríkisbanka enda er mikil reynsla hjá Goldman að hjálpa ríkisstjórnum í efnahagslegum erfiðleikum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur