Sunnudagur 15.09.2013 - 10:03 - Lokað fyrir ummæli

Svigrúmið mikla

Eftir því sem hið ímyndaða svigrúm til að standa við mesta kosningaloforð veraldarsögunnar eykst, minnkar pólitískt svigrúm forsætisráðherra og Framsóknar.

Forsætisráðherra segir að best sé fyrir alla að drífa í að semja við kröfuhafa.

En er best fyrir alla að hespa þetta af?  Það gæti verðið freistandi fyrir kröfuhafa og Sjálfstæðisflokkinn að sauma að Framsókn með því að bíða.  Kröfuhafar hafa engu að tapa.  Mesta svigrúm veraldar þýðir einfaldlega gríðarlegt tap fyrir þá.  Þeir geta beðið fram yfir næstu kosningar og ef valið stendur á milli þess að ná “versta” samningi veraldar nú eða semja við nýja ríkisstjórn og fá hagstæðari samning eftir nokkur ár, þá bíða menn.

Fyrir Sjálfstæðisflokkinn gæti verið freistandi að láta Framsókn hengja sig í eigin reipi.  Framsókn frontar þessa ríkisstjórn og þar á bæ eru menn yfirlýsingaglaðir á meðan samstarfsflokkurinn heldur sig til hlés og situr kyrfilega í baksætinu.

Ef samningar við kröfuhafa renna út í sandinn kemur að því að Sjálfstæðisflokkurinn mun einfaldlega segja: sko þetta gekk ekki upp hjá Framsókn, nú er tími til að stokka upp og það verður best gert með kosningum.  Það er ekki úr svo háum söðli að falla fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sem ekki fékk glimrandi kosningu síðast og gæti aukið fylgi sitt ef vel er haldið á spöðum.  Ekki þarf að spyrja að leikslokum fyrir Framsókn ef halda verður kosningar vegna þess að lykilloforð þeirra klikkaði.

Eins dauði er annars brauð.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur