Föstudagur 20.09.2013 - 14:10 - Lokað fyrir ummæli

Mannauðsstjórnun í molum

Tölur sem morgunblaðið birtir um þróun ársverka hjá ríkinu frá 2007 eru um margt athyglisverðar.  Þar kemur fram að fækkun hefur aðeins átt sér stað hjá æðstu stjórn ríkisins og tveimur ráðuneytum, velferðarráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu, í hinum ráðuneytunum hefur ársverkum fjölgað um rúmlega 500.

Þetta segir okkur tvennt, í fyrsta lagi að mikið vantar upp á mannauðsstjórnun hjá ríkinu og að miklir möguleikar eru á fækkun ársverka í þeim ráðuneytum þar sem fjölgun hefur átt sér stað frá 2007.

Það fyrsta sem ríkisstjórnin þarf að gera er að efla starfsmannahald.  Sameina þarf aðgerðir og auka aga.  Eðlilegt er að fjármálaráðuneytið hafi umsjón með þessu og þar á stjórnstöð mannauðs og sparnaðar að vera til húsa.

Fyrsta verk slíks mannauðshóps er að móta, forgangsraða og samtvinna starfsmannastefnu og hagræðingaráform allra ráðuneyta þannig að tryggt sé að raunverulegur sparnaður náist á sama tíma og nauðsynleg mönnun sé tryggð í forgangsverkefni ríkisins.

PS.  Það þarf ekki að koma á óvart að fækkun í ársverkum eigi sér stað í þeim ráðuneytum þar sem auðveldast er fyrir opinbera starfsmenn að fá vinnu.  Það er dýrt að missa besta starfskraftinn.  Öflug og markviss starfsmannastefna er lykilinn í hagræðingaráformun ríkisins.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur