Föstudagur 20.09.2013 - 20:52 - Lokað fyrir ummæli

Aldrei í ESB?

Ólafur Ragnar er góður í að mála glansmyndir.  Engin þörf er fyrir Ísland að ganga í ESB því Ísland er eins og Noregur og Grænland – býr yfir náttúruauðlindum – segir hann.

Ólafur Ragnar gleymir að það er ekki það sama að vinna olíu í Norðursjóð eða úraníum í Grænlandi og skipta á rúmum eftir ferðamenn á Íslandi.

Bæði Noregur og Grænland búa við alþjóðlega viðurkennda mynt og þegar kemur að launatöxtum er Ísland líka annars flokks land í þessum hópi.  Að ekki sé talað um skuldastöðu, gjaldeyrishöft, verðbólgu, verðtryggingu og vaxtaokur.

Nei, þegar grannt er skoðað líkist Ísland mun meira Spáni og Portúgal, þar sem atvinnulífið er sambland af fiskveiðum, ferðamennsku og landbúnaði.  Íslenskur jarðvarmi er ekkert mikilvægari en sólin á Spáni.

Það er þó eitt sem Norðmenn og Grænlendingar munu sækja til Íslands – ódýrt og vel menntað vinnuafl.  Íslenska króna er jú besti vinur norskra vinnuveitenda og það mun ekki líða á löngu þar til Grænlendingar uppgötva þessa “auðlind”.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur