Sunnudagur 22.09.2013 - 12:42 - Lokað fyrir ummæli

Harpa og bankinn

Nú segir stjórnarmaður hjá Hörpu að horfa verði á þann möguleika að loka Hörpu að hluta til eða öllu, fjárhagslega dæmið gangi hreinlega ekki upp.  Öllum mátti vera ljóst að Harpa var byggð á bjartsýni eins og svo margt annað sem fór í gang fyrir hrun.

Ekkert bólar á hótelinu sem átti að byggja við Hörpu og styrkja ráðstefnuhald þar.  Það dæmi gengur heldur ekki upp.

En eitt er þó það dæmi sem sumir halda að gangi upp og það er glæsihöll fyrir nýjar höfuðstöðvar ríkisbankans sem yfirstjórn bankans vill byggja næst við Hörpu, ef marka má blaðaumræðu nýlega.

Það er kannski viðeigandi að endapunktur hrunsins verði enn ein byggingin á kostnað skattgreiðenda.  Útsýnið yfir lokaða Hörpu ætti þá að minna starfsmenn ríkisbankans á að kapp er best með forsjá.

Að lokum má svo spyrja sig hvað verður um 18.5 ma kr skuldabréfið sem ríkisbankinn sölutryggði við endurfjármögnun Hörpu sbr. tilkynningu á vefsíðu Hörpu?  Tókst ríkisbankanum að pranga þessu bréfi yfir á lífeyrissjóðina og aðra fjárfesta eða situr bankinn upp með hluta þessa bréfs?  Hvar fellur þessi Svarti-Pétur ef Hörpu verður lokað?

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur