Laugardagur 28.09.2013 - 20:45 - Lokað fyrir ummæli

Bankar bjarga ekki heilbrigðiskerfinu

Íslensku bankarnir eru ekki í stakk búnir til að bjarga heilbrigðiskerfinu þrátt fyrir að sýna “háar” hagnaðartölur á síðasta ári.

Áætla má að íslenska ríkið hafi lagt að núvirði inn í viðskiptabankana þrjá um 200 ma kr. frá hruni, þar með er talinn kostnaður við SpKef.  Miðað við 6% vexti er vaxtakostnaður ríkisins af þessari upphæð 12 ma kr á ári.

Bókhaldslegur hagnaður bankanna árið 2012 var 66 ma kr. samkvæmt skýrslu Bankasýslu ríkisins og þar af var hagnaður af reglulegum rekstri 36 ma kr.  Mismunurinn upp á 30 ma kr. eru ýmsir óreglulegir liðir eins og sala á eignum og uppfærsla á virði lánasafna.

Sérskattlagning á þennan hagnað myndi einfaldlega lækka verðgildi eignarhluta ríkisins í bönkunum og takmarka arðgreiðslur en ríkið þarf að fá um 12 ma kr. á ári í arðgreiðslur frá bönkunum til að standa á sléttu.

Skattlagning á hagnað bankanna er því ekki lausnin.  Besta leið ríkisins er að hámarka söluvirði bankanna og þá sérstaklega Landsbankans.  Það verður best gert með því að marka ríkisbankanum framtíðarstefnu sem tryggir samkeppnishæfni bæði í rekstri og fjármögnun.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur