Laugardagur 28.09.2013 - 13:23 - Lokað fyrir ummæli

Tvíeggja dómur

Dómur Hæstaréttar að þrotabú eiga að gera upp í krónum á gengi Seðlabankans á ákveðnum degi, og megi greiða út í krónum getur orðið dýr fyrir næstu kynslóðir.

Núverandi hrunkynslóð gæti grætt á þessum dómi með því að reyna að taka snúning á kröfuhöfum í einsskiptisuppgjöri á þrotabúum gömlu bankanna.  Það verður þó ekki eins auðvelt og margir halda enda eru erlendar eignir þrotabúanna í erlendri lögsögu og líklegt er að allt muni loga í málaferlum árum saman ef stjórnvöld ætla að þvinga búin í gjaldþrot og reyna að selja gjaldeyriseignir til Seðlabankans fyrir krónur.  En hvernig sem það mál fer, hefur þessi dómur áhrif á framtíðarlántökur Íslands erlendis.

Erlendir aðilar þurfa nú að reikna með að ef þeir lána erlendan gjaldeyri til Íslands eru ákveðnar líkur á að þeir fái greitt tilbaka í krónum á einhverju framtíðargengi Seðlabankans og að þær krónur læsist inni í höftum.  Þar með hefur áhætta erlendra fjárfesta aukist eftir þennan dóm.

Þessi dómur mun ýta enn undir þá kröfu fjárfesta að íslensk fyrirtæki hafi aðalstöðvar sínar erlendis ef þau vilja fá aðgang að erlendu fjármagni.  Erlend lán til innlendra aðila verða dýrari.  Aukinn fjármagnskostnaður innlendra aðila mun svo aftur setja þrýsting á launataxta.

Þá mun dómurinn gera endurfjármögnun Landsbankans erfiðari og dýrari sem aftur færir kröfuhöfum ríkisbankans ákveðin vopn.  Sú staða er orðin mjög snúin eftir ummælin í Guardian, þar sem fulltrúar bankans virðast hafa reynt að telja viðmælendum sínum trú um að bankinn væri í raun gjaldþrota ef hann væri látinn standa við gerða samninga sem íslensk stjórnvöld stóðu að á sínum tíma.  Ekki er ég viss um að bresk og hollensk stjórnvöld kaupi skýringar Íslendinga.  Þau munu einfaldlega gera kröfu um að gjaldeyrisforðinn sem AGS stóð fyrir að Ísland fékk eftir hrun verði notaður til að standa við gerða samninga.  Til hver eru þeir peningar ef ekki til að gera upp “Icesave skuld” Landsbankans?  Allt tal um að ríkið geti selt Landsbankann á ásættanlegu verði er orðinn enn fjarlægari draumur eftir þessa uppákomu.

Það er erfitt að sjá að bresk stjórnvöld standi aðgerðarlaus ef íslensk stjórnvöld reyna að þvínga þrotabúin til að skipta gjaldeyri sem liggur í breskri lögsögu yfir í krónur og þar með draga úr heimtum á Icesave – slíkt yrði ekki vinsælt hjá breskum kjósendum.

Staða Landsbankans og nýlegur dómur Hæstaréttar sýna vel hversu áhættusamt og tímafrekt það er fyrir erlenda aðila að standa að fjármálagjörningum í íslenskri lögsögu.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur