Þriðjudagur 01.10.2013 - 18:34 - Lokað fyrir ummæli

Fjárlagafrumvarp 2014

Góðu fréttirnar eru að stefnt er að hallalausum fjárlögum, en varla er hægt að tala um að það sé gert á sjálfbæran hátt.

Á tekjuhliðinni eru það þrotabú gömlu bankanna sem standa undir stærstu tekjuaukningunni.  Hvað aðhaldsaðgerði snertir eru það tilfærslur, viðhald og ný verkefni sem bera þungann.

Að þrotabú gömlu bankanna skuli 5 árum eftir hrun verða að þeim tekjustofni sem á að loka fjárlagagatinu árið 2014 er varla hluti af þeirri framtíðarsýn að gjaldeyrishöftin séu að hverfa.  Það er skiljanlegt hvers vegna ríkisstjórnin vill ekki tala við kröfuhafa, nú þegar þeir eru orðnir að máttarstólpa í fjárlögum.  Hversu lengi ríkið getur reitt sig á þennan skattstofn er erfitt að segja, en þessi pattstaða við þrotabúin vekur upp spurningar um hvaðan 2.7% – 2.9% árlegur hagvöxtur á kjörtímabilinu eigi að koma?

Þegar aðhaldsaðgerðir eru skoðaðar eftir málaflokkum eru það enn menntamálin, heilbrigðismálin og æðsta stjórnun ríkisins sem bera þungann af niðurskurði alveg eins og hjá vinstri stjórninni.

Ekki er finna neinar sértækar aðgerðir í landbúnaðarmálum en setja á komugjald á sjúklinga sem þurfa að leggjast inn á spítala.  Alveg eins og hjá vinstri stjórninni eru landbúnaðarmálin heilög og ofar heilsu landsmanna.

Þá er athyglisvert að bera saman þetta frumvarp og tillögur AGS um aðhald í ríkisrekstri fyrir árið 2014.  AGS lagði til að sparað yrði í landbúnaðarmálum um 11 ma og skatttekjur auknar um 18 ma með hækkun á VSK.  Ljóst er að ný ríkisstjórn er kominn á allt aðra braut hvað varðar aðhald í ríkisfjármálun en lánadrottinn hennar, AGS, teljur skynsamlegt.

Þó þetta frumvarp sé kynnt sem hallalaust, er hætt við að margir telji að hér sé byggt á of veikum grunni og er það miður.  Enn þarf því að bíða eftir sjálfbæru hallalausu fjárlagafrumvarpi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur