Laugardagur 12.10.2013 - 17:20 - Lokað fyrir ummæli

Klúðruðu menn 400 ma kr. svigrúmi?

Það virðist vera ákveðinn ruglingur í umræðunni um hvað gerðist í hruninu um eignarhald á nýju og gömlu bönkunum og hver seldi hverjum hvað?

Íslenska leiðin

Þegar bankarnir féllu töpuðu hluthafar öllu og eignir sem bankarnir áttu fóru til kröfuhafa í samræmi við að þeir voru einkafyrirtæki.  Þannig eignuðust kröfuhafar lán og aðrar eignir föllnu bankanna bæði hér á landi og erlendis.  Lán eru helstu eignir banka – en það ruglar fólk stundum, því lán hjá einstaklingum og fyrirtækjum eru skuldir.  Þar sem lán banka eru eignir eru þær verndaðar af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og verða ekki afskrifaðar af öðrum.

Ríkið ákvað að endurreisa bankana en til þess þurftu nýju bankarnir að kaupa ákveðnar eignir af þrotabúunum.  Þannig voru íslensk lán, greiðslumiðlun, húseignir og annað keypt af kröfuhöfum inn í nýju bankana og tryggðar innlendar innistæður fluttar yfir á efnahagsreikning nýju bankanna.

Til að eignast hluti í nýju bönkunum sem voru endurreistir á eignum gömlu bankanna þurfti ríkið að gefa út skuldabréf upp á 140 ma kr.  Því er rétt að líta á þetta sem kaup ríkisins á hlutum í nýju bönkunum en ekki kaup kröfuhafa á nýju bönkunum af ríkinu.

Einfaldast er að ímynda sér að nýju bankarnir hafi verið endureistir eftir forskrift ríkisins en í eigu kröfuhafa sem settu þar inn eignir og hlutafé og síðan seldu kröfuhafar ríkinu þann hlut sem ríkið á nú.

Spurningin sem vaknar þá, er, keypti ríkið bankana á of háu verði?  Því er erfitt að svara, en sumt bendir til að svo sé.  Í tilfelli Landsbankans þar sem ríkið vildi fá ráðandi hlut náðist samkomulag um skilyrt skuldabréf sem hækkaði eftir því sem endurheimtur á lánum urðu betri.  Það er ekkert óeðlilegt við slíkan samning enda eru þetta eignir kröfuhafa sem þeir selja.  En ef við berum saman virði skuldabréfsins á móti hlutfjáraukningu ríkisins virðist verðmiðinn hár.  Hins vegar er hæpið að halda fram að ríkið hefði getað þvinga fram afskriftir á eignum kröfuhafa – slíkt er ekkert annað en eignarnám og ríkið hefði þurft að borga bætur ef slík leið hefði verið farin.  Kröfuhafar vissu að ríkið gæti ekki verið án bankakerfis þannig að samningsstaða þeirra var sterk.  Það sem styrkti stöðu kröfuhafa enn frekar var algjört kerfishrun hér, allir bankarnir féllu á sama tíma, þeir voru allir í einkaeigu og höfðu keyrt á sömu stefnunni.  Í þessu felst ákveðinn lærdómur fyrir framtíðina um hvernig fjármálakerfi landsins er uppbyggt, en það er efni í aðra færslu.

Tapað tækifæri

Hins vegar má halda fram að ríkið hafi keypt af röngum hópi kröfuhafa.  Í stað þess að semja við þá kröfuhafa sem ætluðu sér að ná hagnaði úr búum gömlu bankanna hefði verið betra að kaupa kröfurnar beint af þeim kröfuhöfum sem vildu eða voru þvingaðir til að selja.  Mikið að þessum aðilum voru erlendir sjóðir og fjármálafyrirtæki sem ekki mega eiga eignir sem eru inní þrotabúi eða það er of dýrt fyrir þá að halda og stjórna slíkum eignum.

Ef ríkið hefði keypt um 25% af kröfunum á sama verði og hrægammar keyptu, væri ríkið nú í þeirri stöðu að “ráða” yfir nær öllum innlendum eignum gömlu bankanna.  Samingsstaða ríkisins væri því ólíkt sterkari en hún er í dag.

Samkvæmt tölum Seðlabankans eru eignir þrotabúanna metnar á 2,700 ma kr.  Nú hefur verð á kröfum sem hrægammar keyptu hækkað rúmlega fimmfalt frá lægsta punkti.  Þannig má áætla að ríkið hefði getað keypt 25% af kröfunum fyrir um 135 ma kr. í besta falli,  sem er svipuð upphæð og ríkið lagði í nýju bankana.  Munurinn er að í dag er hlutur ríkisins í nýju bönkunum í kringum 200 ma kr virði en 25% af kröfum gömlu búanna er metið á 675 ma kr.  Hér munar 475 ma kr.  Þetta er í rauninni hið margrómaða “svigrúm” sem hefði skapast ef ríkið hefði keypt kröfurnar í staðinn fyrir hluti í nýju bönkunum.  Það er auðvelt að reikna þetta út eftirá og í þessu felst ákveðin einföldun, því alltaf hefði þurft að endurreisa viðskiptabanka á Íslandi en það hefði mátt gera á annan og ódýrari hátt fyrir ríkið.  Líklega erum við að tala um “tapað svigrúm” upp á 400 ma kr., sem ekki verður auðvelt að “fiffa” eftirá svo það lendi hjá ríkinu!

Svo má spyrja: hvers vegna keyptu íslenskir lífeyrissjóðir ekki þessar kröfur um leið og hrægammar?  Það er í raun ótrúlegt að þeir skuli hafa látið þetta kauptækifæri aldarinnar fram hjá sér fara.  Það sýnir aftur íslenska hjarðhegðun og einsleita ákvörðunartöku.  Það hefði verið lítið mál fyrir lífeyrissjóðina að eignast einn banka á hrægamma verði sem þeir þurfa líklega í framtíðinni að borga fullt verð fyrir.  Þar sem engin eftirspurn var eftir kröfum á gömlu bankana frá íslenskum aðilum, fengu erlendir hrægammar þetta á brunaútsöluverði.  Íslendingar geta einir kennt sér um þá brunaútsölu, því má ekki gleyma.  Það er íslenskur barnaskapur að kenna vondum, erlendum hrægömmum um þá stöðu sem upp er komin og þann ótrúlega hagnað sem er runninn Íslandi úr greipum.

Einsleit ákvörðunartaka?

Nú vitum við ekki hvort svona hugmyndir voru skoðaðar eftir hrunið.  Það getur vel verið að þær hafi þótt of áhættusamar, en af hverjum?  Hverjir komu að þessari ákvörðunartöku?  Var hugsað út fyrir boxið eða voru Íslendingar of uppteknir af Icesave til að sjá heildarmyndina?  Voru erlendir ráðgjafar sem þekkja til hrægamma fengnir til ráðgjafar?  Eða þóttu erlendir ráðgjafar of dýrir, sem mig minnir að hafi verið raunin rétt eftir hrun.

Hóphugsun, hjarðhegðun og einsleit ákvörðunartaka er oft dýrkeypt.  Þetta var lykillexía hrunsins.  Eru Íslendingar enn að þrjóskast við að læra þessa einföldu lexíu?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur