Þriðjudagur 22.10.2013 - 15:08 - Lokað fyrir ummæli

Bingó!

Leið Seðlabankans til að ná í eignir kröfuhafa kallast víst Bingó samkvæmt Morgunblaðinu.  Þetta er réttnefni. Bingó er peningaspil sem krefst engrar þekkingar nema að kunna tölurnar.  En í bingóspili Seðlabankans er búið að gefa sér tölurnar fyrirfram svo bankinn og innlendir aðilar muni alltaf vinna á kostnað útlendinga.

Bingóleikur Seðlabankans er því ekki jafn leikur.

Eins og hér hefur verið skrifað um áður, og aðrir bent á, er ekki hægt að færa góðan rökstuðning fyrir því að eignir erlendra aðila ógni frekar fjármálastöðuleika en eignir innlendra aðila.

Sú forsenda sem stjórnvöld vinna eftir að erlendir aðilar séu líklegri til að fara með íslenskar eignir úr landi en innlendir aðilar stenst auðvita ekki?  Hvers vegna voru höft nauðsynleg hér á síðustu öld þegar allir bankarnir voru í eigu Íslendinga og engir kröfuhafar ógnuðu fjármálastöðuleika?

Út frá lögmáli um áhættudreifingu má færa sterk rök fyrir því að það sé mikilvægara fyrir íslenska aðila að fjárfesta erlendis en fyrir útlendinga að yfirgefa Ísland.

Samkvæmt Seðlabankanum er íslenska þjóðarbúið í heild sinni ógjaldfært í erlendum gjaldeyri miðað við núverandi skuldbindingar og lánasamninga til lengri tíma litið.

Lausn stjórnvalda er að sá hópur sem ekki hefur kosningarétt á Íslandi verði þvingaður til að selja íslenskar eignir, þ.e. hluti í nýju bönkunum, ríkisskuldabréf og krónuinnistæður, á brunaútsölu og samþykkja skuldbreytingar á erlendum lánum.  Aðrir eru stikkfrí.

Hvernig getur þetta samræmst jafnræðisreglunni?  Er eignarréttur á Íslandi nú háður kosningarétti?  Og hvernig geta kaup á íslenskum eignum á afslætti fyrir gjaldeyri bætt gjaldeyrisstöðuna?  Og halda menn virkilega að erlendir dómstólar leyfi að erlendur gjaldeyrir þrotabúanna sem liggur á reikningum í þeirra lögsögu verði breytt yfir í “non-tradable” krónur útgefnar af landi sem er tæknileg “insolvent”?

Þegar lönd lenda í vanda eins og Ísland stefnir í þarf að fara réttar leiðir að málum og gæta jafnræðis.  Land sem getur ekki borgað skuldir sínar þarf að semja við alla lánadrottna á jafnræðisgrundvelli á sama tíma.  Ef einn hópur er tekinn fram yfir annan getur það leitt til ófyrirsjáanlegra vandamála í framtíðinni og rústað orðspori og viðskiptakjörum í áratug eða lengur, og er Argentína skínandi dæmi um þá leið.

Þá er ekki hægt að horfa framhjá Icesave sem er ekki lokið.  Stærstu kröfuhafar í stóra skuldabréfi Landsbankans eru Hollendingar og Bretar.  Þeir sitja með sárt ennið eftir að hafa tapað Icesave málinu og ætla örugglega ekki að tapa þessari orrustu.  Sérstaklega má búast við að Hollendingar verði harðir í horn að taka.

Það fordæmi sem Ísland mun setja með þessum aðgerðum að óheft innlend neysla einkaaðila í gjaldeyri hafi forgang fram yfir greiðslu skulda einkaðila í gjaldeyri er hættuleg.  Samkvæmt frétt Financial Times er búist við að fjöldi smáríkja þurfi að gripa til gjaldeyrishafta til að ráða við erlenda skuldastöðu í framtíðinni.  Ef óheft einkaneysla fær forgang fram yfir borgun skulda þurfa lánveitendur að endurskoða áhættumat sitt á þessum löndum.

Fjármálastöðuleiki sem fórnar erlendum viðskiptakjörum verður skammgóður vermir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur