Fimmtudagur 24.10.2013 - 18:10 - Lokað fyrir ummæli

Evra eða fimm krónur?

Það er alltaf að koma betur í ljós að þegar ESB aðildarviðræður voru stöðvaðar urðu kröfuhafar lykilinn að efnahagslegri framtíð landsins.  Án aðkomu þeirra er allt í frosti – gjaldeyrishöftin, verðtryggingin og skuldaniðurfelling.  Allt í einu er allt farið að snúast um kröfuhafa.

Maður hefði þá haldið að stjórnvöld sem stöðvuðu ESB viðræður strax, hefðu sett samninga við kröfuhafa i algjöran forgang og lokið þeim á sama tíma.  En nei, stjórnvöld fara eins og köttur í kringum heitan graut þegar kemur að kröfuhöfum, það þorir enginn að tala við þá eða semja, það er bara beðið og blásið.  Ekki vantar stóru orðin um að taka þessa vondu útlendinga í karphúsið en minna fer fyrir aðgerðum.

Kröfuhafar hafa um margt annað að hugsa en Ísland, flestir þeirra eru með aðeins brot af sínum eignum hér og því fer aðeins brot af þeirra tíma í Ísland.  Annað gildir um Ísland, án samninga við kröfuhafa stranda kosningaloforðin og fylgið hrynur af Framsókn.  Fáir eiga jafn mikið undir samningum við kröfuhafa en einmitt Framsókn.  Þeir eru búnir að sauma sig fasta við kröfuhafapilsfaldinn og geta ekki sloppið fyrr en þeim tekst að ná í pilsið.

En hversu auðvelt verður það?  Það sem mun gera allar viðræður við erlenda kröfuhafa erfiðar er að í þeirra augum eiga Íslendingar mjög verðmætan valmöguleika sem stjórnvöld vilja ekki nota, en myndi auðvelda samningagerð og færa frumkvæðið í hendur Íslendinga.  Hvers vegna eiga kröfuhafar að borga hluta þess reiknings sem felst í pólitískri höfnun á þessum valmöguleika, sem flestir meta sem “win-win” fyrir alla?

Sem betur fer virðist meirihluti landsmanna nú vera kominn á þá skoðun að skoða þennan valmöguleika til hlítar og láta þjóðina kjósa um hann í lýðræðislegum kosningum.  Enda sjá margir að ESB aðild og evra er mun skynsamlegri efnahagsgrunnur að byggja á, en von um einhvern samning við óskilgreindan hóp hrægamma og halda áfram að keyra á fimm krónum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur