Fimmtudagur 31.10.2013 - 14:59 - Lokað fyrir ummæli

Krónan og vogunarsjóðir

Valið stendur á milli ESB aðilar og evru eða vogunarsjóða og haftakrónu.  Án ESB aðilar verða vogunarsjóðir í lykilaðstöðu til að skammta og stýra erlendu fjármagni til Íslands.  Völd þeirra munu aukast og þeir eru þegar búnir að koma sér vel fyrir.

Vogunarsjóðir eiga ekki aðeins kröfur á gömlu bankana, heldur líka íslenska ríkið, Landsvirkjun, sveitarfélög og aðra innlenda aðila.  Aðkoma þeirra að endurfjármögnun Lýsingar nýlega, sýnir vel að Ísland er á yfirráðasvæði vogunarsjóða og þeirra bankamanna.  Þeir eru jú sérfræðingar í áhættufjárfestingum.  Stórir erlendir viðskiptabankar á við Deutsche Bank vilja ekki lána til aðila í íslenskum áhættuflokki, það kostar þá dýrmætt eigið fé, en það er af skornum skammti.

Með krónuna verða Íslendingar að reiða sig á vogunarsjóði og AGS, aðrir eru ekki tilbúnir að taka þá áhættu að lána hingað erlendan gjaldeyri.  Og ætli Íslendingar að lyfta gjaldeyrishöftum munu vogunarsjóðir leika lykilhlutverk sem eini aðilinn sem mun treysta sér til að taka þátt í þeim markaði, en gjaldeyrismarkaður sem aðeins byggir á innlendum aðilum er ekki trúverðugur.

Nú hverfur ekki íslensk áhætta með ESB aðild en munurinn er að þá er búið að marka trúverðuga framtíðarstefnu í gjaldmiðilsmálum og aðkoma evrópska seðlabankans að íslenskri peningamálastefnu mun opna fyrir fleiri fjármögnunarleiðir og draga úr völdum vogunarsjóða.

Með krónuna sem framtíðargjaldmiðil verða vogunarsjóðir og kröfuhafar hins vegar hér á landi næstu áratugina, þeir eru ekkert á förum, þvert á móti hefur kosningaloforðsklúður framsóknar styrkt stöðu þeirra.

Á endanum munu Íslendingar þó átta sig á að haftakrónan og vogunarsjóðir eru allt of dýr kostur.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur