Fimmtudagur 19.12.2013 - 10:30 - Lokað fyrir ummæli

Nato og ESB

Örríki hafa ekki sömu möguleika og önnur ríki.  Þeirra fullveldi eru settar skorður.  Stærðin setur þeim mörk.

Flestir sjá að Ísland getur ekki rekið sjálfstæða og trúverðuga varnarstefnu með eigin her.  Og herlaust land er varnarlaust land eins og seinni heimsstyrjöldin sannaði.  Slík laus er aðeins tímabundin góðviðrislausn.  Um þetta virðist samkomulag á Íslandi enda hefur aðild Íslands að Nato reynst Íslendingum vel og sannað að hún er eina trúverðuga varnarstefna sem örríki á norðurslóðum getur rekið.

Sömu rök gilda um gjaldmiðil örríkis.  Saga gjaldmiðla og örríkja sýnir og sannar að örríki geta ekki haldið úti trúverðugum sjálfstæðum gjaldmiðli.  Líkt og hugmyndin um eigin her, er eigin gjaldmiðill einungins tímabundin góðviðrislausn.  Eina lausn örríkja er gjaldmiðilssamband við stærri ríki.  Þessi staðreynd er núna að renna upp fyrir Íslendingum en tilraun þeirra til að halda úti sjálfstæðri mynt hefur staðið yfir í 80 ár, lengur en hjá flestum örríkjum.   Ekki hefur þessi tilraun gengið átalaust fyrir sig.  Verðtrygging, gjaldeyrishöft og rýr kaupmáttur launafólks eru augljósustu afleiðingarnar sem hinar Norðurlandaþjóðirnar myndu aldrei sætta sig við.

Það hefur t.d. aldrei komið til tals í sjálfstæðisbaráttu Skota að taka upp eigin mynt og eru Skotar þó ekki örríki.  Það sama á við í Grænlandi.  Reynsla Íslands í gjaldmiðilsmálum er viðvörunarbjalla sem hringir hjá öðrum þjóðum í sjálfstæðisbaráttu.  Allir heyra þessa bjöllu nema Íslendingar sjálfir.

Eins og aðildin að Nato er eina trúverðuga varnarstefna Íslands er aðild að ESB eini trúverðugi möguleiki landsins í gjaldmiðilssamstarfi við önnur ríki.  Það eru ekki aðrir valmöguleikar í boði.  Vandamálið er hins vegar að þeir sem helst aðhyllast Nato aðild er harðastir gegn ESB aðild.

Sú skoðun að ESB aðild ógni fullveldi Íslands er hins vegar illskiljanleg þegar haft er í huga að herflugvélar ESB landa eru meira og minna staðsettar hér á landi og fljúga eftirlitsflug yfir landinu.  Það eru ESB ríkisborgarar sem fljúga þessum flugvélum.  Þá eru Íslendingar aðilar að EES þar sem þeir skuldbinda sig til að aðlaga sig að ESB regluverki án þess að hafa nokkur áhrif þar um.  Samningur sem í eðli sínu er 20. aldar útgáfa af gamla sáttmála frá 1262.

Rökleysa í afstöðu Íslendinga til ESB er öllum ljós, það eru hvorki þjóðarhagsmunir né fullveldisrök sem hér ráða ferð, heldur þröngir einkahagsmunir valdastéttar.  ESB aðild og evra yrðu mikil lyftistöng fyrir aukan velferð á Íslandi enda hafa lönd alltaf gengið í ESB til að auka og vernda lífskjör þegna sinna.  Ísland er þar engin undantekning og það veit valdaklíkan.  Þess vegna má alls ekki láta almenning kíkja í pakkann.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur