Laugardagur 22.02.2014 - 13:41 - Lokað fyrir ummæli

Dýrt ESB brölt

ESB umsóknarbrölt Íslendinga er með eindæmum.  Ísland fær á sig þann stimpil að geta ekki klárað það sem það byrjar á vegna óeiningar og stefnuleysis.

Þá mun þetta misheppnaða brölt auka á óvissu um getu Íslendinga til að marka sér sjálfbæra og trúverðuga efnahagsstefnu.   Um leið og ESB aðild lokast beinist kastljósið að EES.

Þjóð sem hafnar ESB aðild á sama tíma og hún vill halda dauðahaldi í EES afhendir stór tromp til Brussel.

Íslendingar uppfylla ekki EES samninginn um frjálst fjámagnsflæði.  Því verður Ísland í svipaðri stöðu og Sviss sem ekki uppfyllir sinn tvíhliða samning um frjála flutninga fólks.

ESB verður að gæta jafnræðis þegar kemur að löndum sem ekki uppfylla gerða samninga.

Því má búast við að um leið og Alþingi samþykki afturköllun á ESB umsókninni muni ESB lýsa yfir að endurskoða þurfi samskipti Íslands við ESB.   Þetta voru einmitt fyrstu viðbrögð ESB þegar Sviss samþykkti þjóðaratkvæði um innflutningskvóta á vinnuafli frá ESB.

EFTA löndin þurfa miklu meira á ESB að halda, en öfugt, og þetta vita menn í Brussel.

Menn mættu íhuga hvaða áhrif það kunni að hafa á íslenskt efnahagslíf að fara að bæta óvissu um framtíð EES ofan á allt annað?  Það er mikil skammsýni að hætta við ESB umsókn á meðan afnám hafta og samningar um makríl og við kröfuhafa eru ekki lengra komnir.  Það er aldrei að vita hvernig Brussel muni spila úr trompunum sem ríkisstjórnin lætur af hendi þegar umsóknarferlið hættir formlega.

Það er t.d. líklegt að ESB muni gefa Íslandi tímafrest til að uppfylla ákvæði EES um frjálst fjármagnsflæði.  Þar með er klukkan komin af stað um afnám hafta sem gæti endað með að Ísland hrökklaðis úr EES, enda er engin leið að sjá hvernig Ísland geti aflétt höftum í náinni framtíð án utanaðkomandi aðstoðar.  Þá munu margir innan ESB vilja auka verðmiðann á EES.  Bretar hafa sýnt áhuga að fara EES leiðina og besta leiðin til að stoppa það er að hækka verðið eða loka fyrir EES.  Á þeim tímapunkti er líklegt að aðeins Noregur og Sviss hafi efni á tvíhliða samningum við ESB.  Þá er Ísland komið í þrönga stöðu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur