Mánudagur 24.02.2014 - 14:44 - Lokað fyrir ummæli

Engin tár í Osló

Norðmenn munu ekki fella nein tár við ákvörðun Íslendinga um að afturkalla ESB umsóknina og enn síður munu tár verða felld í Madrid.

Spánverjum gefst nú gullið tækifæri á að ná vopnum sínum á Norður-Atlantshafi eftir erfiða efnahagsörðuleika. Það verða þeir ásamt Frökkum og Portúgölum sem munu ráða því hvenær og á hvaða forsendum Ísland fær inngöngu í ESB muni Ísland einhvern tímann í framtíðinni sækja aftur um. Skriffinnar í Brussel hafa lítið um það að segja.

Þá munu Norðmenn geta sett Ísland í rassvasann svo lengi sem Ísland heldur dauðahaldi í EES. Það verður lítil stemning innan ESB að eyða miklum tíma í Íslendinga í náinni framtíð. Framtíð EES mun ráðast á norskum forsendum. ESB fer varla að verðlauna Ísland fyrir að afturkalla aðildarumsókn með því að veita sérlausnir og ívilnanir á EES. Það væru ekki réttu skilaboðin til aðildarríkja ESB, sérstaklega í ljósi þess að Ísland afturkallar umsóknina á þeim forsendum að engar sérlausnir séu í boði!

Utanríkisstefna Íslands innan EES verður lítið annað en aftanívagn hjá Norðmönnum. Stóra spurningin er: mun Ísland borga tugi milljarða fyrir að fá að hossast í norskum tengivagni með ónýta krónu. Eitt er víst að eftir að utanríkisráðherra Íslands sagði að ESB gæti ekki tekið við velmegandi ríki eins og Íslandi er hann að bjóða ESB að hækka verðmiðann á ESS. Þar með munu peningar sem hefðu getað farið í Landsspítalann fara beint til Brussel, þökk sé Framsókn.

Að afturkalla umsókn án þess að samningur liggi fyrir og án þess að ítarleg greining sé til staðar um hvað taki við er ekki skynsamlegt. ESB umsóknin og framtíð EES eru ekki aðskildir hlutir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur