Þriðjudagur 25.02.2014 - 08:48 - Lokað fyrir ummæli

ESB: Allt í plati

Íslensk umræða um Evrópusambandið virðist í litlu samhengi við evrópskan raunveruleika og byggir frekar á íslenskri óskhyggju.

Þingsályktunartillagan um afturköllun á aðildarumsókn sýnir vel það haf sem er á milli Íslands og ESB.  Íslendingar eru að reyna að fara aftur í tímann og halda að þeir geti sagt við ESB, “þessi umsókn var allt í plati við viljum bara vera í EES eins og fyrir hrun”.

ESB hefur breyst mikið frá hruni og mikið umbótastarf er þar í gangi.  Það er útilokað að snúa klukkunni við og ef einhver þjóð ætti að vera meðvituð um galla og takmarknir á EES samstarfinu þá er það Ísland.

Það kom skýrt fram eftir þjóðaratkvæðisgreiðslu Svisslendinga nýlega að ESB er ekki til viðræðu um að leyfa evrópuþjóðum sem standa fyrir utan bandalagið að velja bestu bitana.  Ef Íslendingar draga ESB umsóknina tilbaka vegna þess að þeir telji EES betra, mun bandalagið endurskoða EES samstarfið.  ESB hefur þegar gefið út yfirlýsingu um að tvíhliða samningur við Sviss verði endurskoðaður og það er fullkomlega eðlilegt að það sama verði látið yfir EES ganga þegar Ísland dregur umsóknina til baka.

Markmið ESB er að evrópuríki verði fullgildir meðlimir í sambandinu.  Ef þjóðir fara að velja ólýðræðislega aukaaðild á miðri leið er komið upp vandamál sem þarf að leysa.  Í þeirri lausn er vafasamt að EES eigi langt líf eftir.

Sá óskalisti stjórnvalda um framtíð EES sem birtist í þingsályktunartillögunni virðist því fullkomlega óraunhæfur.  Með því að draga unsóknina tilbaka er verið að keyra út í óvissuna – það er ekkert fast í hendi með EES.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur