Fimmtudagur 06.03.2014 - 11:37 - Lokað fyrir ummæli

Plottið um bankana

„Þeir sem stjórna bönkunum stjórna Íslandi“. Þetta er skynsamleg nálgun, sérstaklega í skuldsettu umhverfi krónunnar. Það er ekki svo langt síðan að bankastjórar skömmtuðu lán.  Aðeins “vildarvinir” bakanna fengu lán og þá á svo hagstæðum vöxtum að eiginlega var um styrki að ræða, enda engin verðtrygging.

Þetta var tími sem margir horfa tilbaka á með nostalgíu.

Í dag er mikil barátta hafin um yfirráð yfir íslensku bönkunum.  Margir vilja komast að þeim kjötkötlum með hjálp stjórnmálamanna.  Framtíðarsýnin er alíslenskt bankakerfi þar sem eigendur og stjórnendur bankanna eru þægilegir kunningjar stjórnmálastéttarinnar. Þar með er aftur horfið til kerfis sem margir telja að hafi “hentað” Íslandi vel.

Einfaldasta leiðin að þessu markmiði er að ná Arion Banka og Íslandsbanka af kröfuhöfum á slikk. Bönkunum yrði first parkerað í eignarhaldsfélagi Seðlabankans sem síðan myndi “afhenda” þá þóknanlegum aðilum. Þess vegna er nauðsynlegt að í seðlabankanum sé “réttur” maður.

Næsta skrefið er að keyra verðmiðann á bönkunum niður en til þess þarf að slá á allar væntingar kröfuhafa um að Ísland muni ganga í ESB næstu áratugina. Þar er Möltu sviðsmyndin Þrándur í götu og því er best að afturkalla umsóknina strax, þjóðaratkvæði er of áhættusamt. Kröfuhafar vita vel að ef Ísland ætlar að sækja aftur um þurfa öll 28 ríkin að samþykkja nýja umsókn. Í því ferli munu mörg ríki ekkert vera að flýta sér.

Svona tækifæri til að ná völdum yfir fjármálakerfi landsins gefast ekki oft. Nú þurfa menn að standa í lappirnar og ekki láta “væl” um þjóðaratkvæði slá sig út af laginu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur