Sunnudagur 09.03.2014 - 09:49 - Lokað fyrir ummæli

Asíudraumurinn

Margir telja að framtíð Íslands sé í Asíu, þar séu tækifærin. Auðvitað eru tækifæri í Asíu, en eru arðbærustu tækifæri Íslands virkilega í Asíu?

Íslendingar eru markaðsmenn eins og Icesave dæmið sýndi vel. Sá hugsunarháttur lifir vel eftir hrun. Allt gengur út á að opna nýja og spennandi markaði og komast þar inn.  En á hvaða verði og fyrir hvaða hagnað? Það er sjaldan rætt.

Ekkert mál er að loka fyrir alla sölu á íslenskum vörum og þjónustu innan ESB og færa til Asíu. Það er bara spurning um verð. Vandamálið við þennan hugsunarhátt er að ef betra verð fengist í Asíu með meiri hagnaði væru þau viðskipti í miklum blóma nú þegar. Viðskipti leita yfirleitt þangað sem mesta hagnaðarvonin er. Þetta er nokkuð sem íslenskir stjórnmálamenn gera sér litla grein fyrir enda eru þeir stjórnmálamenn ekki atvinnurekendur.

Sá markaður sem er mikilvægastur fyrir Ísland er sá markaður sem er næstur okkur og sú staða hefur lítið breyst frá 15. öld. Bretlandseyjar er mikilvægsti kúnni Íslands.  Þangað seljum við fiskinn, þaðan koma ferðamennirnir og þar er eftirspurn eftir íslenskri orku. Tækifærin í Bretlandi eru af þeirri stærðargráðu að þau geta haft veruleg áhrif á framtíðarlífskjör almennings á Ísland

Lítil þjóð verður að fókusera og reyna frekar að lifa í raunveruleikanum en í draumheimi markaðsmanna og stjórnmálamanna á atkvæðaveiðum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur