Mánudagur 31.03.2014 - 14:21 - Lokað fyrir ummæli

Kötlukróna

Kröfuhafar eru ekki versti óvinur krónunnar heldur íslensku eldfjöllin. Mál kröfuhafa er afmarkað og verður á endanum leyst. Erfiðara verður að leysa vandamál íslensku eldfjallanna.

Þar sem ferðaþjónustan er orðin stærsta gjaldeyrisbúgrein þjóðarinnar verður sjálfstæð króna aldrei stöðugri en kvikan undir Kötlu. Áhrif gosins í Eyjafjallajökli gefa ákveðnar vísbendingar um hugsanlegar afleiðingar Kötlugoss, enda mun forseti Íslands hafa sagt í því samhengi “you ain´t seen nothing yet“. Nú veit enginn hvenær og hversu öflugt Kötlugos verður en það mun gjósa og eftir því sem mikilvægi ferðaþjónustunnar eykst í gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins þannig verður krónan háðari eldfjallaáhættum. Það er því erfitt að sjá hvernig á að aflétta höftum fyrir Kötlugos, óháð samningum við kröfuhafa föllnu bankanna.

Vandinn er að krónan á sér engan trúverðugan bakhjarl. Í skaðlegu Kötlugosi, á Ísland varla aðra möguleika en að fara sömu leið og i hruninu, setja á höft og leita á náðir AGS og nágrannalandanna. Í þeirri sviðsmynd er líklegt að erlendir fjárfestar þurfi að taka á sig hluta af kostnaði við að bjarga krónunni og fjármálastöðuleika Íslands, enda máttu þeir vita af þeirri áhættu sem fylgir því að fjárfesta á eldfjallaeyju með sjálfstæðan gjalmiðil sem byggir á ferðaþjónustu.

Það er því ljóst að gengis- og endurgreiðsluáhætta fyrir erlenda fjárfesta verður alltaf miklu hærri á Íslandi en í nágrannalöndunum og þessi áhætta verður hámörkuð með því að standa fyrir utan ESB.

Og þar sem þessir áhættuþættir auka fjármögnunarkostnað, draga úr fjárfestingatækifærum og auka kostnað heimilanna á sama tíma og þeir takmarka svigrúm til launahækkanna verða þeir á endanum stærsti dragbítur á velferðaraukningi á Íslandi.

Um þetta snýst aðild að ESB. En það verður líklega ekki fyrr en í næsta Kötlugosi sem þessi staðreynd fer að renna upp fyrir fólki. Það verður kannski Katla gamla sem kemur Íslandi inn í ESB á endanum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur