Föstudagur 09.05.2014 - 07:27 - Lokað fyrir ummæli

Kröfuhafaboltinn hjá stjórnvöldum

Landsbankinn og kröfuhafar mega vera þokkalega sáttir við þann samning sem þessir “einkaaðilar” hafa náð. Landsbankinn fær lengingu og kröfuhafar hærri vexti. Þeir hafa lokið sinni vinnu. Nú er komið að Seðlabankanum og stjórnvöldum að klára sinn hluta málsins.

Ríkisbankinn segir að þetta sé mikilvægur áfangi í að lyfta höftum og jákvæður samningur fyrir þjóðarbúið. Það skýtur því óneitanlega skökku við að fjármálaráðherra og Seðlabankastjóri skulu ekki taka betur undir þennan áfanga opinberlega.

Það er eins og þetta komi stjórnvöldum á óvart. Enn er ekki tímabært að segja hvort bankinn fái samþykki fjármálaráðuneytisins fyrir þessum samningi, segir fjármálaráðherra. Voru ekki aðilar ráðuneytisins og Seðlabankans í þeim hópi sem gerðu þennan samning? Hvers vegna eru menn ekki betur undirbúnir?

Þessi samningur setur ríkisstjórnina í ákveðna klemmu það er ljóst, en með því að spila endalausan varnarleik og hrekjast úr einu horni í það næsta var varla við öðru að búast. Á endanum verður einhver að taka forystuhlutverkið að sér og höggva á hnútinn. Landsbankinn og kröfuhafar fá prik fyrir það.

Nú eru stjórnvöld hins vegar með boltann og fróðleg verður að sjá hvernig leik þau munu spila.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur