Fimmtudagur 08.05.2014 - 10:19 - Lokað fyrir ummæli

Næsta bankakrísa

Sérfræðingar erlendis eru farnir að spá að næsta bankakrísa verði ekki eiginfjárkrísa heldur lausafjárkrísa. Ástæðan er fjármögnun bankanna. Þeir eru í miklu mæli fjármagnaðir með óbundnum innistæðum sem bera litla ávöxtun og þar með er fátt sem heldur þessu fé inni í bönkunum ef óróleiki skapast á mörkuðum.

Þessi sviðsmynd mætti fá meiri athygli hér á landi. Það er nefnilega margt sem bendir til að nýlegar hugmyndir stjórnvalda í bankamálum muni gera lausafjárkrísu erfiðari en auðveldari viðureignar.

Það sem spilar hér saman eru gjaldeyrishöftin, bankaskatturinn, ríkisábyrgð á innlánum og hugmyndin um að flytja húsnæðislán í ný félög.

Með því að flyta húsnæðislán úr bönkunum og í ný félög sem eru undanþegin bankaskatti leiðir það til þess að bankarnir veikjast á sama tíma og innistæðueigendur fá fullan þunga af bankaskattinum á sig. Loforð um lægri ávöxtun með hærri áhættu mun ekki auka innflæði sparifjár til bankanna. Ef á sama tíma menn ætla að aflétta ríkisábyrgð á innistæður og lyfta gjaldeyrishöftunum mun það setja mikinn þrýsing á útflæði innlána bankanna. Slíkt baðkar mun tæmast fljótt.

Það getur orðið dýrt að girða fyrir þessa sviðsmynd. Hærri vextir og hærra hlutfall skuldabréfa í fjámögnun bankanna mun draga úr hagnaði þeirra og þar með lækka verðmiðann við hugsanlega sölu. En það getur einnig orðið erfitt fyrir banka sem eru rétt stignir úr öskustónni að fjármagna sig með skuldabréfum ef þeir missa fasteignalánin og veðin sem þeim fylgja.

Því miður virðist fátt um heilstæða hugsun í íslenskum bankamálum rúmum 5 árum eftir hrun. Íslenska bankakerfið er ekki sloppið fyrir horn. Og ný glerhöll við Hörpu er alls ekki lausnin. Betur má ef duga skal.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur