Miðvikudagur 07.05.2014 - 07:12 - Lokað fyrir ummæli

Gamli “Dansk” verður dýr

Það er alltaf hægt að treysta því að Íslendingar velji dýrustu lausnirnar hverju sinni. Nú á að fara að innleiða 200 ára gamalt danskt húsnæðiskerfi sem ég dreg stórlega í efa að Danir myndu sjálfir velja nú á 21. öldinni, ef þeir ættu að byrja upp á nýtt.

Aðeins sú staðreynd að það eigi að reisa 4-5 nýjar fjármálastofnanir hjá 320,000 manna þjóð ætti að vekja menn til umhugsunar. Allar þessar nýju stofnanir þurfa yfirstjórn, áhættustjórn, innri endurskoðun og her sérfræðinga, að ekki sé talað um aðalstöðvar á fínasta stað í bænum. Allt mun þetta kosta peninga, sem hver á að borga? Halda menn virkilega að þetta kerfi verði ódýrt í rekstri? Eru engin takmörk fyrir því fjármagni sem hægt er að eyða í fjármálaþjónustu hér á landi? Forgangsröðunin virðist skýr, peningar ofar heilsu og menntun.

En mun þetta dýra lánakerfi virka á Íslandi eftir danskri forskrift? Það dreg ég stórlega í efa. Danska kerfið byggir á sterkum, þróuðum og stöðugum fjármálamarkaði þar sem hægt er að gefa út óverðtryggð skuldabréf til 30 ára á föstum vöxtum sem almenningur ræður við. Íslenski markaðurinn er einfaldlega of lítill, vanþróaður og óstöðugur fyrir jafn markaðsdrifið kerfi og það danska – saga krónunnar og verðtryggingarinnar segir okkur það. Þá hefur danska skuldabréfakerfið hættulega hvata sem geta leitt til yfirskuldsetningar og dregið út eignamyndun, enda er Danmörk með einn stærsta fasteignalánamarkað í heimi miðað við landsframleiðslu.

Það sem tryggir dönskum fasteignakaupendum góðan aðgang að fjármagni á lágmarkskjörum er traust fjárfesta á danskri hagstjórn og sú staðreynd að danska krónan er fest við gengi evrunnar á trúverðugan hátt. Stór hluti fjármögnunarinnar í danska kerfinu byggir á skuldabréfaútgáfu í evrum sem er markaðssett til erlendra fjárfesta, enda bera flest dönsk húsnæðisbréf AAA lánshæfiseinkunn. Hvernig á svona þróað og öruggt kerfi að virka í ótryggu og litlu íslensku haftaumhverfi?

Þá er það stílbrot í jafn miðstýrðu og sósíalísku hagkerfi og hinu íslenska að velja markaðskerfi þar sem fjárfestar ráða vaxtakjörum. Það mun hreinlega aldrei ganga upp að láta fjárfesta ráða vöxtum á íslenskum fasteignamarkaði. Þetta vita fagfjárfestar og stjórnmálamenn og því verður að finna íslenskt fiff á þetta í gegnum ríkisrekið apparat sem dælir skattpeningum inn í kerfið.

Þá veikir svona húsnæðislánakerfi viðskiptabankana þar sem bestu og traustustu eignir þeirra færast í ný félög. Bankarnir munu þurfa að byggja enn frekar á fjárfestingabankastarfsemi og áhættumeiri lánveitingum. Þar með eru innistæðueigendur skildir eftir í áhættusæknari bönkum, þvert á þá umræðu sem fór fram fyrir nokkrum árum um að aðskilja fjárfestinga- og viðskiptabankastarfsemi til að vernda innistæðueigendur. Afleiðingin verður hvati fyrir innistæðueigendur að fara með sparnað sinn til áhættuminni banka erlendis þegar höftin hverfa. Þannig mun þetta kerfi aðeins bæta í hina innlendu snjóhengju.

Hversu lengi mun þetta nýja gamla danska kerfi virka á Íslandi. Ekki 200 ár, svo mikið er víst.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur