Sunnudagur 04.05.2014 - 07:47 - Lokað fyrir ummæli

Eru rúbluvextir handan við hornið?

Eitt hefur Pútin ekki tekist og það er að tryggja Rússum sömu vaxtakjör á fasteignalánum og evruríkin búa við.

Rússland hefur sömu lánshæfiseinkunn og Ísland, BBB-, er með sveiflukennda hagstjórn og glímir við háa verðbólgu en er ekki með verðtryggingu eða gjaldeyrishöft eins og Ísland. Verðbólgan í Rússlandi er 6.9% og vextir á húsnæðislánum um og yfir 13.5% (raunvextir 6.6%). Til samanburðar eru vextir á húsnæðislánum á Írlandi sem einnig er með BBB lánshæfiseinkunn um og yfir 4.2% og verðbólga þar er 0.2%. (raunvextir 4.0%) Á Íslandi eru óverðtryggðir vextir um og yfir 6.75% og verðbólgan 2% (raunvextir 4.75%).

Nú skal strax tekið fram að þessi samanburður er ófullkominn og byggir á einföldu dæmi. Fleira er ólíkt en líkt með ofangreindum löndum en samt veitir þessi samanburður örlitla sýn inn í hvað gæti gerst þegar og ef höftum verður aflétt á Íslandi.

Ef við leiðréttum vaxtastigið á fasteignalánum á Íslandi fyrir skort á stærðarhagkvæmni og dýru bankakerfi er rökrétt að álykta að lægstu vextir hér á landi eru farnir að nálgast sambærilega evruvexti. M.ö.o. höftin hafa fært ákveðnum hópi fasteignaeigenda (þeim sem eru með 30%+ eigið fé) vaxtastig evrunnar. Þetta er sá hópur sem hefur líklega grætt mest á höftunum. Fjármagnskostnaður þessa hóps hefur lækkað sem aftur hefur ýtt undir hækkandi fasteignaverð og aukna einkaneyslu.

Þeir sem eru að taka sín fyrstu skref á fasteignamarkaðinum eða eru leigjendur horfa hins vegar upp á hækkandi eignaverð og leiguverð. Höftin hafa ekki fært þeim kaupmátt evrunnar. Það skýtur því óneitanlega skökku við að sá hópur sem hefur mest notið vaxtalækkunarinnar eigi nú að fá höfuðstólslækkun á meðan leigjendur fá enga “leiðréttingu” og unga fólkið sem gat keypt 3ja herbergja íbúð í fyrra á aðeins fyrir 2ja herbergja kytru í dag.

Það sem hefur fengið of litla umræðu er að þegar höftin hverfa þá hverfa líka þessir “evruvextir” á fasteignalán. Og ef verðtryggingin hverfur á sama tíma færist Ísland nær Rússlandi og rúbluvaxtastigi. Í þeirri sviðsmynd verða lægstu vextir á fasteignalánum líklega í tveggja stafa tölum. Sé staðan á íbúðamarkaði erfið í dag verður hún að martröð í hinni rússnesku sviðsmynd.

Hvernig ætla menn að forðast þessa sviðsmynd? Hvernig ætla menn að aflétta höftum og verðtryggingu, og á sama tíma halda genginu og vaxtastiginu stöðugu? Halda menn virkilega að afturköllun á ESB umsókninni hjálpi hér til?

Ein mikilvægasta afleiðing haftanna er sú vaxtaaðlögun að evruvöxtum sem hefur átt sér stað á fasteignalánum. Þetta er aðlögun sem er pólitískt mjög erfitt að snúa við. Hærri fjármagnskostnaður heimilanna dregur úr einkaneyslu og gerir drauminn um eigið húsnæði enn fjarlægari fyrir næstu kynslóð.

Því lengur sem höftin eru við lýði því líklegra er að menn snúist til ESB aðildar, enda verður hún og evran á endanum eina raunhæfa leiðin til að halda vöxtum lágum og losna við höftin. Vilja menn frekar áframhaldandi höft eða rúbluvexti? Þetta er í hnotskurn þær 3 leiðir sem eru í boði.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur