Mánudagur 12.05.2014 - 07:42 - Lokað fyrir ummæli

Skuldabréfið og ESB

Í sinni einföldustu mynd er stóra skuldabréf Landsbankans nýtt seljandalán frá kröfuhöfum fyrir þeim innlendu eignum sem þrotabúið seldi nýja Landsbankanum, t.d. sjávarútvegslán og fasteignalán. Seljandinn, þrotabúið, er með veð í eignasafni Landsbankans sem tryggingu fyrir greiðslu og þau veðbönd losna ekki fyrr en skuldabréfið er greitt upp.

Vandamálið er að stjórnvöld voru með í að kaupa innlendar eignir þrotabús Landsbanka Íslands fyrir gjaldeyri. Það er því þegar komið fordæmi fyrir því að innlendar eignir þrotabúanna hafi verið seldar fyrir gjaldeyri með vitund og samþykki stjórnvalda. Ef kröfuhafar Landsbankans fá undanþágu frá gjaldeyrishöftunum á greiðslum af þessu bréfi er einnig komið fordæmi fyrir slíkri undanþágu.

Þar sem fjármálaráðherra þarf að veita þá undanþágu og ríkið tók þátt í að stofna bankann er ansi erfitt að halda fram að stjórnvöld komi ekki nálægt þessu máli.

Það er því eðlilegt að kröfuhafar hinna bankanna bíði og sjái hvað fjármálaráðherra geri? Boltinn er hjá honum. Ef hann segir já, þá er komið skýrt fordæmi fyrir hin búin. Ef hann segir nei, þá hafa stjórnvöld tekið afstöðu sem kröfuhafar þurfa að vega og meta. En, nei, leysir engan vanda bara frestar honum. Ekki má gleyma að nú þegar ríkir samningur á milli ríkisbankans og kröfuhafa sem er tryggður með fullum veðum og var gerður eftir að neyðarlögin voru sett.

Það sem gerir málið snúið er að krónan er ónýt sem alþjóðleg mynt. Í fyrri forsendum átti að skera á þann hnút með ESB aðild sem núverandi ríkisstjórn virðist enn andsnúin. Hún á þá ekki aðra möguleika en að reyna að reisa krónuna við með eignum kröfuhafa. Hvort sú aðgerð “heppnist” er m.a. háð því að Ísland afturkalli ESB umsóknina, þar sem ESB valkosturinn er mjög verðmætur ekki aðeins fyrir Ísland heldur einnig kröfuhafa. Með því að afturkalla umsóknina, verður ESB valkosturinn enginn næstu áratugina, og þar með lækkar verðmiðinn á innlendum eignum búanna eins og öðrum eignum á Íslandi. Það er hins vegar skammsýni að fórna ESB valmöguleikanum eingöngu til að fá banka á afslætti fyrir vildarvini.

En jafnvel þó að ESB umsóknin verði afturkölluð, er kálið ekki sopið þó í ausuna sé komið. Það getur reynst erfitt að afskrifa eignir annarra gegn vilja þeirra. Eignarréttarákvæðið er skýrt. Fullar bætur þurfa að koma í staðinn. Hvernig bæta menn upptöku á dollurum sem hefur þá stöðu að vera “reserve currency” heimsins? Það væri gaman að sjá hvernig Ísland ætlar að sannfæra dómara í New York að skipti yfir í krónur sem er hvergi skráð á viðurkenndum gjaldeyrismarkaði sé “full and fair”.

Eina leiðin er að setjast niður og semja. Auðvita er það ekki auðvelt með ESB umsóknin uppi í lofti. Hún er lykilforsenda til þess að samningar náist og hægt sé að lyfta höftunum. Það er allra hagur að menn fari að ákveða sig hvort þeir ætla inn í ESB eða ekki. Það er mjög erfitt að sjá að það náist nógu breið samstaða um heildarsamninga við kröfuhafa fyrr en það ligggur skýrt fyrir hvort Ísland ætlar inn eða ekki. Biðstaða eykur aðeins óvissuna og er ekki á bætandi nú þegar svikalogni krónunnar og haftanna er að ljúka með verkfallshrinu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur